Enn ein hnífstunguárásin var framin í nótt. Maður var stunginn með eggvopni í miðbænum. Liggur hann á gjörgæsludeild Landspítalans og er líðan mannsins eftir atvikum. Að sögn Guðmundar Páls Jónssonar, fulltrúa hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hefur ekki tekist að hafa uppi á grunuðum árásarmanni í málinu, en málið er í rannsókn hjá miðlægri rannsóknardeild. Samkvæmt upplýsingum frá Guðmundi átti árásin sér stað utandyra í miðbænum. Maðurinn var með meðvitund er hann var fluttur á bráðamóttöku Landspítalans í nótt.
Fjölmargar hnífstunguárásir hafa átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu undanfarnar vikur og mánuði og þrjár hafa leitt til dauða.
Ekki náðist í Grím Grímsson, yfirlögregluþjón á Miðlægri rannsóknardeild Lögregunnar á höfuðborgarsvæðinu, við vinnslu fréttarinnar.