Manndrápið við Fjarðarkaup í apríl síðastliðnum hófst vegna deilna um fíkniefni, en drengirnir þrír sem ákærðir eru fyrir manndráp og stúlkan sem ákærð er fyrir brot á hjálparskyldu þekktu ekki hinn látna.
Vísir greinir frá og hefur samkvæmt heimildum sem stemma við heimildir DV og myndband sem DV hefur undir höndum af einum hinna ákærðu inni á Íslenska rokkbarnum.
Þrátt fyrir að hafa ekki aldur til voru íslensku ungmennin fjögur sem ákærð eru í málinu, en þau eru á aldrinum 17 – 19 ára, stödd inni á Íslenska rokkbarnum sem staðsettur er að Bæjarhrauni 26 í Hafnarfirði fimmtudagskvöldið 20. apríl. Þar var Bartlomiej Kamil Bielenda, 27 ára gamall.
Samkvæmt heimildum fréttastofu Vísis mun fólkið hafa sameinast í neyslu fíkniefna við borð á staðnum án þess fara leynt með neysluna. Athæfið var ekki liðið af starfsfólki staðarins sem vísaði fólkinu á dyr. Þegar út var komið mun samkvæmt heimildum Vísis hafa komið upp ósætti milli fólksins, sem snerist um að ungmennin hafi krafið Bartlomiej um greiðslu á þeim efnum sem hann neytti með þeim inni á barnum. Slagsmál hófust sem færðust yfir á bílastæðið við Fjarðarkaup, en stutt er þar yfir og er það gatan Hólshraun sem skilur barinn og bílastæðið að.
Líkt og áður hefur verið greint frá í fréttum réðust drengirnir þrír gegn Bartlomiej með höggum, spörkum og hnífsstungum með þeim afleiðingum að hann lét lífið. Stúlkan tók árásina upp á síma sinn, en upptakan er lykilsönnunargagn ákæruvaldsins í málinu.
Lögregla fékk tilkynningu á tólfta tímanum þetta kvöld um átök á bifreiðastæði við verslunina Fjarðarkaup á Hólshrauni. Lögreglan hélt þegar á vettvang og fann þolandann, sem var fluttur á slysadeild og úrskurðaður þar látinn skömmu síðar. Í kjölfarið voru ungmennin fjögur handtekin í tengslum við málið. Fjölmiðlar fengu tilkynningu um manndrápið morguninn eftir.
Gæsluvarðhald síðan 21. apríl – Lokað þinghald
Farið var fram á gæsluvarðhald yfir ungmennunum fjórum vegna málsins. Drengirnir hafa setið í gæsluvarðhaldi frá 21. apríl. Tveir þeirra á Stuðlum vegna ungs aldurs þeirra og einn í fangelsinu á Hólmsheiði, þar sem heil deild var rýmd til að tryggja að varðhaldið væri með sem minnst íþyngjandi hætti. Stúlkan var látin laus þremur dögum eftir manndrápið.
Þingfesting ákæru fór fram í Héraðsdómi Reykjaness 21. júlí í lokuðu þinghaldi. Var það ákvörðun Jónasar Jóhannssonar dómara vegna ungs aldurs sakborninganna. Aðalmeðferð fer fram í október og verður hún jafnframt fyrir luktum dyrum. Segir Jónas það gert að kröfu foreldra sakborninganna þriggja.
Manndrápið hefur vakið óhug og reiði í samfélaginu, auk mikils umtals; ungur aldur gerenda, sú staðreynd að þau eru öll íslensk, að gerendur og þolandi þekktust ekkert og að stúlkan hafi tekið árásina upp og dreift myndbandinu, í stað þess að reyna að stöðva árásina og/eða kalla eftir hjálp eða hringja á lögreglu.
Nánast einsdæmi að nöfnum sakborninga í manndrápsmálum sé haldið leyndum
Einnig vekur það athygli fjölmiðlamanna og lögfróðra einstaklinga að þinghald er fyrir lokuðum dyrum þar sem einn gerenda hefur náð lögaldri og mun það einnig nánast vera einsdæmi að nöfnum sakborninga í manndrápsmálum sé haldið leyndum. Ákæra sem DV hefur undir höndum er hreinsuð af nöfnum sakborninga.
Lágmarksrefsing samkvæmt lögum fimm ár
Drengirnir þrír eru ákærðir fyrir brot á 211. grein almennra hegningarlaga fyrir manndráp, með því að hafa í sameiningu veist með ofbeldi að Bartlomiej og svipt hann lífi,
„Hver, sem sviptir annan mann lífi, skal sæta fangelsi, ekki skemur en 5 ár, eða ævilangt.“
Í ákæru er að finna lýsingu á manndrápinu og er ljóst að hún styðst við upptökuna af árásinni. Eru lesendur varaðir við lýsinguna sem finna má hér neðst í fréttinni.
Sektir eða allt að tveggja ára fangelsi
Stúlkan er ákærð samkvæmt 221. grein almennra hegningarlaga fyrir brot gegn lífi og líkama með því að hafa ekki komið Bartlomiej til hjálpar þar sem hann var staddur í lífsháska.
„Láti maður farast fyrir að koma manni til hjálpar, sem staddur er í lífsháska, þótt hann gæti gert það án þess að stofna lífi eða heilbrigði sjálfs sín eða annarra í háska, þá varðar það … 1) fangelsi allt að 2 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.“
Eins og áður kom fram verður þinghald aðalmeðferðar lokað og á sú lokun jafnframt við fjölmiðla. Samkvæmt lögum um meðferð sakamála skal kveða dóm upp svo fljótt sem unnt er og er miðað við lengst innan fjögurra vikna frá því að aðalmeðferð lýkur. Dóms er því að vænta í október eða nóvember, en ekki er komin dagsetning á aðalmeðferð málsins í október.
Héldu atlögunni áfram þó Bartlomiej næði að standa upp tvisvar
DV hefur undir höndum myndband af árásinni, eða í það minnsta hluta hennar, upphaf átakanna er ekki á þeirri upptöku. Samkvæmt myndbandinu og ákæru er ljóst að Bartlomiej náði að standa á fætur tvisvar sinnum, sakborningar hættu þó ekki atlögu sinni í hvorugt skiptið eða gáfu honum nein grið, heldur héldu atlögunni áfram með enn harðari átökum og stakk elsti sakborningurinn hann ítrekað í síðasta skiptið sem þeir felldu Bartlomiej í jörðina.
Samkvæmt ákæru eru drengirnir þrír ákærðir fyrir brot gegn almennum hegningarlögum sem hér segir:
„Á hendur A, B og C fyrir manndráp, með því að hafa í sameiningu veist með ofbeldi að X, kt. […] og svipt hann lífi, en ákærðu umkringdu hann og hrinti ákærði A honum í jörðina, þar sem ákærði C sparkaði í maga hans þar sem hann lá og ákærði A hótaði honum að stinga hann með hnífi í hálsinn og fylgdi svo sparki C eftir með því að stappa á og sparka í höfuð hans. Er brotaþoli náði að standa upp veittust ákærðu allir þrír aftur að honum, ákærði A felldi hann í jörðina og stakk hann ítrekað með hnífi í búkinn, ákærði C sparkaði ítrekað í búk hans og höfuð og ákærði B reyndi að sparka í höfuð hans en spark hans geigaði.
Er brotaþoli náði að standa upp að nýju sparkaði ákærði B í maga hans og tóku ákærðu brotaþola þá aftur niður í jörðina og spörkuðu allir þrír ítrekað í höfuð hans og búk og stakk ákærði A hann ítrekuðum hnífstungum í búkinn þar sem hann lá varnarlaus eftir spörk ákærðu. Afleiðing árásar ákærðu var að X lést stuttu síðar, en hann hlaut alls sex stungusár, fjögur í bak, eitt ofarlega í vinstri upphandlegg og eitt fyrir neðan vinstra brjóst, sem náði inn í hjarta og skaðaði yfirborðsbláæð og kransæð á aftanverðu hjartanu með kjölfarandi blóðfyllu í gollurshúsinu og hjartaþröng, þá hlaut hann áverka í andliti og á höfði, hnjám og höndum. úlpu brotaþola var að finna 10 göt sem báru þess merki að vera eftir stungur með eggvopni.
Telst þetta varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“