Ása Skúladóttir sem sakar frænda sinn, Ásmund Einar Daðason barnamálaráðherra um innbrot og föður hans um ítrekuð skemmdarverk segir lögreglu ekki þora að aðhafast í málinu, þar sem Ásmundur Einar hafi mikil ítök á svæðinu sem ráðherra.
„Það að hann sé ráðherra það hefur bein áhrif á þetta mál, það er engin spurning. Veitir föður hans og föðurbróður ákveðinn trúverðugleika og virðingu,“ segir Ása í fréttum Stöðvar 2 fyrr í kvöld, þar sem hún biðlar til lögreglu að sinna vinnu sinni.
DV hefur fjallað ítarlega um málið, en Ása og tvær systur hennar, byrjuðu nýlega með hlaðvarpið Lömbin þagna ekki þar sem þær lýsa fjölskylduerjunum ítarlega. Deilurnar má rekja til ársins 2007 þegar Einar Valdimar Ólafsson féll frá og arfleiddi átta börn sín jafnt að jörðinni Lambeyri.
Segir Ásmund Einar hafa sólundað arfinum í braski
Ása segir föðursystur sína hafa verið eina prókúruhafann á þeim reikningum sem tilheyrðu jörðinni. Hún segir Ásmund Einar hafa breytt prókúrunni og eignum búsins og föðurarfi systkinanna átta verið sólundað í braski.
„Það sem gerist er að Ásmundur fer að sýsla með fé sem öll systkinin eiga saman án þeirra leyfis og án þess einu sinni að láta þau vita og gera einhverja fjármálagjörninga sem eru þannig að hann tapar stórum hluta af peningunum,“ segir Ása. Segir hún að faðir Ásmundar Einars hafi tekið hvert lánið á fætur öðru með veði í jörð sem ekki var öll í hans eigu, án samþykkis allra systkina sinna, með þeim afleiðingum að þau misstu jörðina á uppboði árið 2017.
Skemmdarverk, áreiti og ógnanir
Faðir Ásu og tvær systur hans keyptu þá jörðina á nauðungarsölu og segir Ása föður sinn hafa allt frá þeim tíma þurft að þola ítrekuð skemmdarverk, áreiti og ógnanir frá bræðrum hans, Daða og Valdimari. Meðal annars hafi þeir eyðilagt marga kílómetra af girðingum, rotnandi kindahræ skilin eftir, skít dreift við íbúðarhús og 20 hektarar af túni verið skornir og eyðilagðir.
„Það var farið með plóg og allt túnið rifið upp, rák eftir rák eftir rák. Nútíma heyvinnuvélar eru þannig að það er ekki hægt að vinna þetta tún. Túnið er bara gjörsamlega ónothæft,“ segir Ása og sýnir blaðamanni Stöðvar 2 skemmdarverkin.
Segir hún Daðahafa keyrt hring eftir hring um húsið í vor til að áreita og ógna, athæfið var tekið upp á öryggismyndavélum hússins og voru upptökurnar sendar til lögreglu sem aðhafðist ekkert. Sjálf vilji hún ekki birta upptökurnar opinberlega þar sem hún óttist kæru frá Daða.
Lögregla neitaði að koma nema kæmi til líkamsmeiðinga
Ása segir alvarlegasta dæmið þegar vatnsveitan var tekin í sundur með þeim afleiðingum að allt rennandi vatn fór af húsinu. „Þá var hringt í lögregluna tvisvar, sem neitaði að koma og sagði með skýrum hætti að hún myndi alls ekki koma nema að það yrðu líkamsmeiðingar. Þessi átök stóðu yfir í marga klukkutíma og lögreglan sagði: „Við komum ekki“.
Ása segir Ásmund Einar í tvígang hafa brotist inn í hús á jörðinni, hafi faðir hennar staðið hann að verki í annað skiptið, en sjónarvottur hringt á lögreglu í hitt skiptið, sem hafi mætt á svæðið og staðið hann að verki.
„Þegar pabbi reyndi að kæra var sagt við hann að það væri engin ástæða til þess, það yrði ekki farið með þetta lengra. Þannig að í raun og veru voru engir eftirmálar af þessu.“
Ásmundur Einar segist ekki aðili að deilunni
Í yfirlýsingu fyrir nokkrum dögum sagði Ásmundur Einar deiluna ekki koma sér við. Í upphafi hafi hann tekið afstöðu með föður sínum, en síðan dregið sig úr málinu.
Sjá einnig: Ásmundur Einar tjáir sig loks um fjölskylduerjurnar
Ása segir fjölskylduna ítrekað hafa leitað til lögreglu vegna málsins, en hún neiti að mæta á svæðið og að aðhafast í málinu. Segir hún að það geti spilað inn í að um sé að ræða föður ráðherra sem hafi mikil ítök á svæðinu vegna stöðu sinnar.
Hún segir það þungt skref að stíga fram og segja sögu þeirra í hlaðvarpinu en það hafi verið örþrifaráð þar sem áreitið hefur farið stigmagnandi á sama tíma og lögreglan gerir ekkert.
„Eina leiðin sem við systurnar sáum færa var bara út með þetta allt saman, út með sannleikann, og vonandi nægir það allavega til að skemmdarverkin hætti. Það sem við viljum og höfum alltaf beðið um er að skemmdarverkin hætti.“