fbpx
Laugardagur 20.júlí 2024
Fréttir

Jóhanna Kristín, mágkona meints raðmorðingja, rýfur þögnina – Horfði í augu hrottans en sá ekki morðblikið

Ritstjórn DV
Mánudaginn 24. júlí 2023 15:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bandaríkjamaðurinn Rex Heuermann er í haldi lögreglu í New York, grunaður um að vera alræmdi Gilgo-strandar raðmorðinginn. Málið hefur vakið mikla athygli hér á Íslandi þar sem Rex er giftur íslenskri konu, Ásu Guðbjörgu Ellerup.

Jóhanna Kristín Ellerup, systir Ásu, hefur nú tjáð sig um málið við fjölmiðla og segist vera í gífurlegu áfalli. Í yfirlýsingu sem hún sendi NBC sagði Jóhanna að hún eigi erfitt með að horfast í augu við raunveruleikann þessa daganna og virtist hún áfellast sjálfa sig.

„Sjálfsmynd mín á mjög erfitt með að vinna úr þeirri staðreynd að ég hafi horft í augun á Rex og ekki tekið eftir neinum annarlegum hvötum,“ sagði Jóhanna Kristín.

„Ég sveiflast á milli þess að vilja fyrir alla muni að líf systurdóttur minnar og systursonar komist aftur í eðlilegt horf, án þess að þau hafi beðið skaða af málinu, og án þess að þau eigi föður sem er sakaður um að vera raðmorðingi, og svo yfir í að vera ánægð og finna fyrir öryggi vitandi að lögreglan hefur þennan mann í haldi.“

Kerri Rawson og fjölskylda hennar hafa upplifað sambærilegt áfall, þegar faðir Kerri, Dennis Rader, var handtekinn. Dennis er betur þekktur sem BTK-morðinginn. Rawson sagði í samtali við Fox að ummæli Jóhönnu minni á það sorgarferli sem hún hafi gengið í gegnum, og sé enn að ganga í gegnum þó næstum tuttugu ár séu liðin frá því að faðir hennar var handtekinn. Svona mál veki upp blendnar tilfinningar.

„Hún er enn að reyna melta þessar fréttir. Þetta er nákvæmlega það sem fjölskylda mín gekk í gegnum. Maður spyr sig – Hvað var það sem fór framhjá mér? – og fer að efast um allt lífið. En þú ert aldrei að fara að sjá eitthvað grænt skrímsli sitja fyrir framan þig við matarborðið.“

Jóhanna Kristín sagði að hún væri í gífurlegu áfalli og að tilhneigingin til að afneita málinu með öllu sé bæði gífurleg og sláandi. Hún tók fram að Ása systir hennar sé nú að ganga í gegnum helvíti.

Jóhanna Kristín er með doktorspróf í lyfjafræði og hefur eins skrifað skáldsögur, en hún og Ása eiga rætur að rekja til Johan Ellerup sem átti gífurlegri velgengni að fagna sem lyfsali á Íslandi á árum áður og stofnaði meðal annars Apótek Keflavíkur sem síðar varð Lyf og heilsa Keflavík.

Jóhanna Kristín hafði áður rætt við DailyMail þar sem hún tók fram að hún hefði ekkert heyrt frá systur sinni og hún og faðir þeirra vissu ekkert um málið.

Ása hefur, í gegnum lögmann sinn, beðið um frið fyrir sig og fjölskyldu sína á þessum erfiðu tímum. Hún hefur sótt um skilnað frá Rex og mun enginn úr fjölskyldunni hafa heimsótt hann í fangelsið.

Fleiri fórnarlömb?

Rex hefur þegar verið ákærður fyrir að hafa banað þremur konum sem störfuðu við vændi. Eru taldar verulegar líkur að fjórða ákæran hið minnsta muni bætast við. Allt í allt fundust 11 líkamsleifar við Gilgo-ströndina í New York á árunum 2010 og 2011. Fjórum konum hafði verið banað með kyrkingu – en það eru konurnar sem Rex er talinn hafa myrt, en önnur höfðu verið sundurlimuð og því annarri aðferð beitt við andlát þeirra. Varðandi hin andlátin er þar til dæmis um að ræða konu sem kallast, Fire Island Jane Doe, en ekki hefur tekist að bera kennsl á hana, höfuðkúpa hennar fannst á Gilgo-ströndinni en fætur hennar höfðu fundist 15 árum áður á Fire Island sem er um 25 kílómetrum frá Gilgo-ströndinni. Annað lík var Valerie Mack, en höfuð hennar, hendur og hægri fótur fannst á Gilgo-ströndinni árið 2011, en 11 árum fannst búkur hennar í Manorville í New York sem er um 60 kílómetrum frá Gilgi-ströndinni. Höfuð, hendur og einn handleggur Jessicu Taylor fundust á Gilgo-ströndinni árið 2011, en búkur hennar fannst einnig í Manorville átta árum áður. Síðan er það kona sem kölluð hefur verið Peaches. Líkamshlutar úr henni fundust á Gilgo-ströndinni árið 2011, en búkur hennar fannst fjórtán árum fyrr í Hampstead Lake State Park. Eins fundust líkamsleifar 2 ára stúlkubarns sem erfðafræðirannsókn sýndi að hafi verið dóttir Peaches.

Var talið að sundurlimuðu konurnar hefðu verið myrtar af svonefndum Manorville-slátraranum, sem lögreglu tókst ekki að hafa hendur í hárinu á. Enn eitt líkið tilheyrði aðila sem margir telja vera trans konu. Um er að ræða einstakling sem er fæddur í líkama karlmanns frá Asíu, en líkamsleifarnar fundust í kvenmannsfötum. Ekki hefur lögregla náð að bera kennsl á þennan aðila en hefur það þó vakið athygli að meðal þess sem Rex er sagður hafa leitað að á netinu er klám sem tengist fíngerðum asískum karlmönnum.

Hafa sumir velt upp þeirri kenningu að um tvo raðmorðingja sé að ræða, en öðrum þykir það þó mjög ósennilegt að tveir morðingjar séu að athafna sig á sama svæði og losi sig við líkin á sama stað. Sú kenning gengur því líka að Rex hafi í raun borið ábyrgð á öllum andlátunum, en um árið 2007 hafi hann snúið frá því að hluta fórnarlömb sín niður og byrjað að kyrkja þau í staðinn. Aðeins er þó um getgátur á þessu stigi að ræða.

Þó virðist lögreglan í Bandaríkjunum einnig standa í þeirri trú að fórnarlömbin séu fleiri. Sem stendur mun lögreglan í Las Vegas vera að fara yfir mannshvörf og óupplýst mál í sínum bókum og sjá hvort eitthvað komi þar upp sem gæti tengst Rex. Eins er lögreglan í Atlantic city að kanna hvort Rex gæti tengst óupplýstu máli hjá sér. Það mál varðar fjórar konur sem fundust látnar í umdæminu árið 2006. Konurnar fundust í skurði fyrir aftan mótel, en talið er að þær hafi allar fjórar starfað við vændi. Þegar málið komst fyrst upp var leitað að Eastbound-kyrkjaranum, þar sem konunum hafði verið banað með kyrkingu. Málið átti þó eftir að falla í gleymskunnar dá þegar rannsókn lögreglu bar engan árangur.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mogginn gagnrýnir lögreglustjóra harðlega – „Ljóst að Höllu Bergþóru lög­reglu­stjóra varð illi­lega á í mess­unni“

Mogginn gagnrýnir lögreglustjóra harðlega – „Ljóst að Höllu Bergþóru lög­reglu­stjóra varð illi­lega á í mess­unni“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ótrúlegar myndir af einangruðum ættbálk í Perú – Heimkynni þeirra eru í hættu

Ótrúlegar myndir af einangruðum ættbálk í Perú – Heimkynni þeirra eru í hættu