Annar maður af tveimur sem lentu í sjóslysi út undan Njarðvíkurhöfn í gærkvöld er látinn. Í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurnesjum segir:
„Annar aðili sjóslyssins í gærkvöldi utan Njarðvíkurhafnar, karlmaður á sjötugsaldri, er látinn. Hann var fluttur meðvitundarlaus af vettvangi með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Slysadeild Landspítalans í Fossvogi eftir endurlífgunartilraunir. Frekari endurlífgunaraðgerðir báru ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn kl. 22:30 í gærkvöldi á Landspítalanum á Hringbraut.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur verið upplýst um slysið, en samkvæmt fyrstu upplýsingum lögreglu voru þeir tveir um borð á 5 metra sportbáti sem síðar sökk. Tildrög þess liggja ekki fyrir og er rannsókn málsins á frumstigi hjá lögreglu.“
Eins og segir í tilkynningunni er hinn látni karlmaður á sjötugsaldri.
Neyðarlínunni barst tilkynning um sjóslys utan við Njarðvíkurhöfn rétt eftir klukkan hálfátta í gærkvöld. Voru tveir menn í sjónum en viðbragðsaðilum tókst að ná þeim á land upp úr kl. 20, eða um hálftíma eftir tilkynninguna.
Hinn maðurinn liggur á sjúkrahúsi Landspítalans í Fossvogi.