Meinti raðmorðinginnn Rex Heuermann hefur vakið mikinn óhug, en honum er gert að sök að hafa banað þremur kynlífsverkakonum fyrir rúmum áratug, en líkur eru taldar á að fórnarlömbin séu þó fleiri. Rex er giftur hinni íslensku Ásu Guðbjörgu Ellerup, sem nú hefur farið fram á skilnað.
Nú hefur komið fram í fréttum að lögreglu gruni að Rex hafi banað minnst einni konunni á heimilinu sem hann deildi með Ásu og börnum þeirra. Lögreglan leitar logandi ljósi að öllu því sem gæti tengt Rex við fleiri óupplýst morð og hafa húsleitir farið fram í Las Vegas, Suður-Karólínu og Atlantic City, þar sem Rex hefur tengsl.
Ása Guðbjörg og börn hennar hafa staðið í ströngu, en fjölmiðlar keppast nú við að ná þeim í viðtal. Hafa þau nú fengið lögmann til að gæta hagsmuna sinna sem hefur miðlað því áfram að fjölskyldan óski eftir frið á þessum erfiða tíma.
„Það viðkvæma mál sem handtaka eiginmanns hennar er, hefur lagst gífurlega þungt á hans nánustu fjölskyldu sem og stórfjölskyldu, sérstaklega á þau sem eldri eru,“ sagði lögmaðurinn og tók fram að Ása og fjölskylda hennar séu að ganga í gegnum hrikalegt áfall. Hvorki Ása né aðrir úr fjölskyldunni hafa heimsótt Rex í fangelsið.
Greinir New York Post frá því að Rex hafi reglulega brennt sorp á heimili sínu og grafið þar holu um miðja nótt, en er þetta haft eftir nágranna hans, Dominick Cancellieri. Hefur komið fram í umfjöllun fjölmiðla að nágrannar Rex hafi lítið af honum vitað og ekki stafað ógn af honum. Því hefði það komið flatt upp á þá þegar þessi hljóðláti granni þeirra var handtekinn. Dominick segir þetta hins vegar vera fjarri sannleikanum. Rex sé ekki venjulegur maður og það viti Dominick vel enda búið við hlið hans.
„Í hvert einasta sinnn – jafnvel bara hvernig hann bar sig – þá hugsaði ég alltaf að þessi maður væri furðufugl. Öll þessi geðveiki sem upp hefur komið – ég skil þetta allt núna.“
Dominick hafi ítrekað orðið vitni að furðulegu háttalagi Rex um nótt. Meðal annars hafi Rex setið með bílinn í gangi fyrir utan heimili sitt langt fram eftir nóttu. Eitt sinn hafi Dominick heyrt Rex grafa í bakgarði sínum. Hann hafi fyrst ætlað að kíkja út og sjá hvað væri að eiga sér stað, en svo hafi eitthvað sagt honum að það væri ekki góð hugmynd.
„Ég var taugaveiklaður. Ég var ekki viss hvað ég væri að heyra. En nú þegar allt er komið fram í dagsljósið þá kemur mér þetta ekki hið minnsta á óvart.“
Rex hafi brennt sorp í garði sínum, sem sé ólöglegt, en hafi ekki farið á milli mála af lyktinni að dæma. Hafi Dominick ítrekað velt því fyrir sér hvers vegna Rex hefði svona ríka þörf á að brenna sorp þetta oft. Dominick hafi þó aldrei séð Rex koma með neinar konur á heimilið.
Dóttir alræmda morðingjans, Happy Face, ræddi við The Sun og tók fram að líklega hafi Rex notað fjölskyldu sína sem skálkaskjól til að fela myrkar kenndir sínar. Keith Hunter Jesperson, Happy Face, var sakfelldur fyrir að myrða átta konur en hélt því sjálfur fram að hann hefði drepið hátt í 200. Dóttir hans, Melissa Moore, segist finna gífurlega til með Ásu Guðbjörgu og börnum hennar, en þau séu að ganga í gengum helvíti.
Hvetur hún Ásu og börnin til að loka algjörlega á Rex svo hann geti ekki ráðskast með þau lengur.
„Ímyndið ykkur að vakna einn daginn og allri tilveru þinni er snúið á hvolf, en þar að auki geturðu ekki lengur hallað þér að heimili þínu fyrir öryggi. Allt sem þú taldir þig vita um þitt eigið líf er nú afhjúpað sem lygi. Þetta er ótrúlega harkalegt bæði fyrir líkama og sál. Lífið þitt hefur nú klofnað í það sem var og það sem verður.“
Melissa segir að Ása Guðbjörg og börnin eigi eftir að ganga í gegnum afneitun og tímabil þar sem fátt annað mun komast að en að lifa af. Þau muni líklega rifja ýmislegt upp í von um að geta hreinsað Rex af þeim alvarlegum sökum sem á hann hafa verið bornar og einhver hluti af þeim mun halda í vonina um að hann sé saklaus.
Þar að auki eigi reiði almennings eftir að beinast að þeim. Hvernig hafi þau ekki vitað hvað var í gangi? Fólk eigi eftir að koma fram eins og þau hafi líka brotið af sér og látið eins og það hafi verið á þeirra ábyrgð að draga hann til ábyrgðar.
„Ástæðan fyrir því að þau vissu þetta ekki er því hann og aðrir menn eins og hann eru gífurlega góðir að lifa tvöföldu lífi. Hann kom ekkert heim og sagði konunni sinni að hann hafi myrt þessar konur. Það er ekki í hans hag að gera slíkt, því þá væri þetta allt búið. Yfirskinið væri fallið, hylmingin væri búin. Svo það eina sem hann gat gert til að tryggja að ekki kæmist upp um hann var að halda fjölskyldunni óupplýstri.
Fjölskyldan hans var bara hjálpargagn, og þau eru enn auðlind sem hann mun nota til að reyna að verja sig.“
Melissa segir að líkt og faðir hennar hafi Rex líklega notað fjölskyldu sína til að fela sitt illa eðli. Fjölskyldumenn séu almennt taldir vera minni ógn og þetta hafi leyft honum að athafna sig óáreittur. Fjölskyldan hafi verið gríma sem Rex notaði gagnvart heiminum. Það besta sem fjölskyldan geti gert núna sé að slíta öllum samskiptum við hann og aldrei líta um öxl. Þetta verði ekki auðvelt þar sem raðmorðingjar séu góðir í að spila á tilfinningar til að fá fólk til að hlýða þeim.