Einar Hrafn Stefánsson hefur verið ráðinn sem markaðs- og kynningarstjóri Píeta samtakanna en hann starfaði áður sem markaðsstjóri Íslenska dansflokksins frá 2020 og þar áður sem markaðsfulltrúi og viðburðarstjóri hjá Ölgerðinni frá 2017. Einnig hefur hann starfað sem stundakennari í markaðssetningu og kynningarmálum við Háskólann á Bifröst. Kemur þetta fram í fréttatilkynningu.
„Einar Hrafn styrkir teymið okkar hjá Píeta verulega. Starf samtakanna hefur vaxið jafnt og þétt frá því að þau voru stofnuð árið 2018 og er orðið mun víðtækara. Bakgrunnur og reynsla Einars Hrafns nýtist án vafa vel í þeim verkefnum sem við sinnum og við að ná markmiðum okkar. Og síðast en ekki síst slær hjarta Einars Hrafns í takt við Píeta hjartað,“ segir Kristín Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Píeta samtakanna.
Einar er með B.S. í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands auk gráðu í hljóðtækni frá SAE í Amsterdam. Hann er liðsmaður í hljómsveitunum Vök & Hatari. Einar hefur víðtæka reynslu af markaðssetningu ásamt því að vera vel kunnugur tónlistarmenningu á Íslandi og erlendis. Haustið 2019 fékk hann viðurkenningu frá JCI Ísland fyrir framlag sitt til menningarstarfsemi sem einn af „framúrskarandi ungum Íslendingum“.