Bandaríkjamaðurinn Rex Heuermann var handtekinn fyrrum helgi og ákærður fyrir þrjú morð. Er hann grunaður um að vera hinn alræmdi Gilgo-strandar raðmorðingi og er talið líklegt að fórnarlömbin séu mun fleiri. Allt í allt hafa fundist 10 lík á Gilgo-ströndinni, en aðeins hefur tekist að tengja þrjú þeirra með beinum hætti við Rex. Er þó talist að fljótlega muni fjórða morðið bætast í ákæruna og standa vonir til þess að hægt verði að tengja öll líkin við Rex að endingu. Til þess að slíkt nái fram að ganga þarf þó að afla sönnunargagna og hefur lögregla kembt heimili Rex undanfarna daga í von um að finna minjagripi sem raðmorðingjar eru gjarnir á að safna að sér, en slíkir gripir myndu skipta sköpum í málinu.
Málið hefur vakið gífurlega athygli, enda ekki á hverjum degi sem upp kemst um raðmorðingja í New York. Eins sökum þess að Rex var nokkuð virtur arkitekt, fjölskyldumaður og nágranni sem lítið virtist fara fyrir, þrátt fyrir að hann sé tröllvaxinn og hafi ítrekað vakið upp óhug með framkomu sinni og fasi. Þeir sem hafa haft kynni af honum keppast nú við að deila reynslu sinni í fjölmiðlum á meðan fjölskyldur þeirra kvenna sem enn bíða þess að Rex verði ákærður fyrir að bana ástvinum þeirra, setja þrýsting á lögreglu að tryggja réttlæti fyrir öll fórnarlömb.
Lögmaður tveggja fjölskyldna telur ljóst að Rex hafi ekki staðið einn að verki og að samverkamaðurinn sé kona. Rex er giftur hinni íslensku Ásu Guðbjörgu Ellerup, en hár úr henni fundust á og við lík þriggja kvenna. Lögmaðurinn greinir frá því að hann hafi síðan í byrjun árs fengið ógnvekjandi símtöl frá bæði konu og manni sem ekki fari á milli mála að tengist morðunum.
Lögmaður, sem er talsmaður fjölskyldna Shannan Gilbert og Jessicu Taylor, telur ljóst að Rex hafi átt sér samverkamann, og að sá aðili sé kona. Eitt fórnarlambið hafi verið vafið inn í teppi og slíkt bendi til móðureðlis. Shannan og Jessica fundust látnar á Gilgo-ströndinni, en hafa ekki formlega verið tengdar við Gilgo-morðin. Lögmaðurinn vísaði til þess á á ströndinni hafi fundist lík 10 mánaða stúlku sem hafi verið vafið inn í teppi. Þetta hefði Gilgo-morðinginn ekki gert sjálfur.
„Þetta er nokkuð sem, ef þú ert siðblindur morðingi, þú tækir þér ekki tíma til að gera. Þetta, fyrir mér, lítur út eins og eitthvað sem móðir myndi gera,“ sagði lögmaðurinn í samtali við DailyMail.
Litla stúlkan hefur heldur ekki verið tengd morðunum með formlegum hætti, en lík hennar og móður hennar fundust á Gilgo-ströndinni á svipuðum slóðum og hinar konurnar, en ekki hefur tekist að bera kennsl á mæðgurnar.
„Við teljum líka að sum fórnarlambanna hafi verið ginnt af konu,“ sagði lögmaðurinn og tók fram að hann hafi fengið óhugnanleg símtöl frá karlmanni og konu, á heimili sitt, ættmenna og skrifstofu, síðan í janúar á þessu ári. Símtölin hafi hætt að berast í seinustu viku. Öll símtölin hafi verið svipuð, líkt og verið væri að spila upptöku.
„Þau spila fréttir um Shannon Gilbert málið, sem birtust einhvern tímann árið 2011 eða 2012 og gera svo hljóð í bakgrunninum á sama tíma. Svo segja þau andstyggilega eða furðulega hluti til að láta okkur vita, að hver sem þau eru, þá myndum við tengja símtölin við Gilgo-málið.“
Ljóst væri að þau sem hringdu væru að fylgjast með lögmanninum. „Eitt sinn hringdu þau í okkur, og ég var þá nýkominn heim um níu leytið og við vorum að borða kvöldmat, og þá hringdi síminn og þau sögðu – Ég vona að kvöldmaturinn sé góður. Svo sagði þessi manneskja, nokkrum sekúndum síðar, – Ég vona að pitsan sé góð. Nokkrum sekúndum seinna hringdi dyrabjallan og – við búum á dimmum stað efst í brekku – og þar var pitsusendill kominn með þrjár pitsur. Sem við pöntuðum ekki. Svo við hringdum í Pizza Hut, sem pitsurnar komu frá. Við hringdum í lögregluna, og starfmaður Pizza Hut, sem tók við pöntuninni, sagði að kona hefði hringt og heyrst hafi í karlmanni fyrir aftan hana að þykjast vera að velja álegg.“
Lögmaðurinn telur ljóst að fleiri verði handteknir í málinu og að fleiri fórnarlömb verði uppgötvuð.
Reyndur lögreglumaður í New York segir að ódæðin sem Rex er sakaður um sé eitthvað það versta sem hann hafi séð á sínum ferli. Rex sé djöfull í mannsmynd.
„Það er mjög erfitt að setja sig í spor einhvers sem er fær um að fremja þessa glæpi sem hann framdi. Þessi manneskja hafði fullan ásetning til að gera það sem hann gerði þessum fórnarlömbum. Og þess vegna segi ég að þetta sé einn sá versti, ef ekki sá allra versti.“
Á heimili Rex fundust á bilinu 200-300 skotvopn í öryggisgeymslu sem var staðsett í kjallaranum á heimili hans og íslensku eiginkonu hans, Ásu Guðbjörgu Ellerup. Meðal vopnanna voru skammbyssur, marghleypur og hálfskálfvirkir riflar. Allt í allt voru vopnin næstum þrefalt fleiri heldur en hann hafði leyfi fyrir.
Morðin hafa valdið lögreglu heilabrotum í rúman áratug. Það var svo í mars á seinasta ári sem þeir komust á spor Rex eftir að ríkislögreglumaður fann nafn hans á lista yfir aðila sem voru skráðir fyrir bifreið af tiltekinni gerð, Chevrolet Avalanche af fyrstu kynslóð, sem kom heim og saman við lýsingu vitna í málinu. Upp hófst gríðarlega umfangsmikil rannsókn þar sem lögregla fylgdist náið með Rex og fjölskyldu hans. Það hljóp á snærið hjá þeim þegar þeir afréðu að leita í rusli fjölskyldunnar og komust þar með yfir erfðaefni sem hægt var að bera saman við sönnunargögn í málinu. Eftir að Rex var handtekinn fór svo fram ítarleg húsleit á heimili hans þar sem meðal annars fannst dúkka á stærð við barn sem var klædd í rauðan kjól og með slaufu í hári. Var lögregla að leita af mögulegum minjagripum, sem raðmorðingjar eru gjarnir á að sanka að sér úr fórum eða af líkama fórnarlamba sinna.
„Minjagripir eins og hárlokkar eða bútur úr fatnaði fórnarlamba, eru notaðir af morðingjum – sérstaklega lostapynturum – til að baða sig í minningunni um að hafa banað þeim,“ sagði réttarmeinasálfræðingurinn Carole Lieberman við The Guardian. Lögregla hefur ekki gefið upp hvort nokkuð slíkt hafi fundist á heimili Rex. Enn á eftir að rannsaka frekar líkamsleifar sem fundust á Gilgo-ströndinni, en Rex hefur formlega verið sakaður um að hafa bana þremur konum sem þar fundust látnar og er fastlega reiknað með að fjórða konan muni bætast við ákæruna fljótlega. Allt í allt hafa 10 líkamsleifar fundist á svæðinu. Mikið af þeim sönnunargögnum sem greint hefur verið frá opinberlega eru svokallaðar óbeinar sannanir, sem ekki er hægt að draga of víðtækar ályktanir af. Það sem hefur mest vægi eru beinu sönnunargögnin, erfðaefni sem fannst hjá og á fórnarlömbum sem tengja Rex með beinum hætti við andlát þeirra. Annars vegar er um að ræða erfðaefni sem allar líkur eru á að tilheyri Rex og svo hins vegar hár úr höfði eiginkonu hans, Ásu. Hætta er þó á því að góður verjandi gæti fengið þeim gögnum vísað frá þar sem lögregla aflaði erfðaefnis úr Rex og fjölskyldu með því að gramsa í ruslatunnum þeirra. Sérfræðingar telja þó ljóst að lögregla sé ekki búin að sýna alla hendina í málinu og fleiri gögn séu til staðar sem ljósi verður varpað á síðar.
Fasteignasalinn Jeffrey St. Arromand var á föstudaginn að undirbúa sig undir ósköp hefðbundna helgi. Þá fékk hann símtal frá viðskiptavini í töluverðu uppnámi. Lögreglan hafði haft hendur í hári mannsins sem grunaður er um að vera hinn alræmdi Gilgo-strandar raðmorðingi, og umræddur maður var Rex Heuermann – maður sem Jeffrey og viðskiptavinurinn höfðu starfað náið með undanfarið ár. Jeffrey og viðskiptavinurinn, sem kýs að njóta nafnleyndar, ræddu við New York Post um kynni sín af þessum meinta ódæðismanni.
Viðskiptavinurinn, kona, hafði unnið með Rex áður. Hann var arkitekt og byggingarstjóri í endurbótum sem hún hún gerði á heimili sínu sem var reist árið 1800.
„Ég hitti hann heima hjá henni,“ sagði Jeffrey. „Hann var í bakgarðinum… þar var viðbygging sem hann þurfti að skoða. Og þau fóru. Hún ók honum heim því hún var á þeim tíma flutt til Long Island.“
Jeffrey tók fram að ökuleiðin hafi verið frekar fáfarin og dimmt hafi verið þetta kvöld.
„Ég var bara með hann á heimili mínu til að fara yfir umfang vinnunnar. Ég meira að segja keyrði hann heim til sín á Long Island alla leið frá Brooklyn. Á einum tíma í bílferðinni ræddum við um Gilgo-strandar morðin – við ræddum meira að segja um strigann og hvers vegna nokkur maður myndi nota slíkt. Að hugsa til baka um þetta samtal núna, þá rennur manni kalt vatn milli skinns og hörunds,“ sagði viðskiptavinurinn en sum líkanna fundust vafinn inn í striga. Viðskiptavinurinn segir að Rex hafi haft frumkvæðið að þessu umræðuefni.
Hún segir að samskipti hennar við Rex hafi stífnað með tímanum, og reyndist erfitt að vinna með honum og fá hann til að fylgja fyrirmælum. „Hann var stöðugt að þræta við píparann sem var þarna og feta fingur út í vinnu hans. Þetta var bara mjög undarleg hegðun. Fyrir einhverja ástæðu, í þessum viðskiptum, þá sagði hann ítrekað – Ég mun ekki gera neitt sem gæti orðið tilefni fyrir sekt eða rannsóknar á leyfum mínum. Þegar okkur tókst að selja eignina þá var upplifun mín af Rex svo neikvæð að ég bað hann um að mæta ekki í kaupsamningsgerð. Hann mætti bara sjálfur á lögmannsstofuna þar sem ég vinn og náði í greiðsluna sína þangað.“
Jeffrey segir að Rex hafi átt í útistöðum við samstarfsfélaga konunnar á lögmannsstofunni. Þessi samstarfsmaður hafi upplifað slík óþægindi af samskiptum sínum við Rex að hún neitaði að vera í sama herbergi og hann. Heimilið hafi verið selt frægum einstaklingi, sem ekki er hægt að nafngreina sökum trúnaðar. Jeffrey segir að viðskiptavinur hans sé í molum eftir handtöku Rex, hún hafi haft mikið álit á honum og stutt hann. Hún hafi þurft alla helgina til að melta fréttirnar.
Rex er nú í haldi lögreglunnar. Áður hefur verið greint frá því að samkvæmt skjölum sem ákæruvaldið hefur lagt fram fyrir dómi, hafi Rex fylgst vel með rannsókn málsins og ítrekað leitað sér upplýsinga um hvernig lögreglu gangi að hafa uppi á Gilgo-morðingjanum og til þess að kanna hvort morðin hafi komist á lista yfir eftirtektarverð morð, eða á lista yfir alræmda raðmorðingja. Hann hafi reglulega leitað nýrra frétta og eins kannað hvort að málið hafi verið tekið upp í hlaðvörpum eða heimildaþáttum.
Að sögn fangavarða mun Rex bara haft eitt í huga þegar hann mætti í fangelsið – „Er þetta í fréttunum?“
Rex mun sem stendur vera vaktaður vegna sjálfsvígshættu. Slíkt sé ekki endilega gert sökum þess að hann hafi gefið til kynna slíkar hugsanir, heldur sé þetta hefðbundið ferli sem taki við í svona málum. Rex hefur neitað sök og hefur verjandi hans, Michael Brown, gagnrýnt handtökuna og málatilbúnað ákæruvaldsins sem hann segir byggja á sandi og óbeinum sönnunum. Segir verjandinn í yfirlýsingu:
„Rex Heuermann er 59 ára gamall með engan sakaferil. Hann er háskólamenntaður og vinnusamur arkitekt sem á sitt eigið fyrirtækið í New York. Hann er ástríkur eiginmaður konu sinnar til 25 ára og virkur og samviskusamur faðir dóttur sinnar og stjúpsonar. Hann lýsir yfir sakleysi og heldur því staðfast fram að hann hafi ekki framið þessa glæpi. Það er ekkert við herra Heuermann sem gefur til kynna að hann sé viðriðin þessi tilvik og þó svo stjórnvöld hafi ákveðið að einblína á hann, þrátt fyrir að hafa stærri og sterkari vísbendingar í aðra átt, þá hlakkar okkur til að fá að verja hann í dómsal fyrir framan sanngjarnan og óvilhallan kviðdóm jafningja.“