Ung íslensk kona var skotin til bana í Detroit í Michigan-fylki síðastliðinn fimmtudag. Unga konan, sem á íslenska móður og bandarískan föður, var fædd árið 2000. Hún var því 23 ára gömul þegar hún lést.
Samkvæmt erlendum fréttamiðlum var konan stödd í bifreið á Binder-stræti í Detroit rétt eftir miðnætti aðfaranótt 13. júlí þegar hún varð fyrir byssuskoti. Hún var flutt á sjúkrahús af viðbragðsaðilum en þar lést hún af sárum sínum.
Ekki liggur fyrir hver árásarmaðurinn var né hvert var tilefni árásarinnar. Morðdeild lögreglunnar í Detroit rannsakar nú málið en engar frekari upplýsingar liggja fyrir að svo stöddu.