Borgarráð hefur fellt tillögu Sjálfstæðisflokksins um að tímalaun unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur verði hækkuð. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði tillöguna fram en hún hljóðaði þannig að tímalaunin yrðu uppfærð milli ára í samræmi við launavísitölu Hagstofu Íslands og myndu því hækka um 9%. Hækkunin yrði fjármögnuð af lið 09205, ófyrirséð, í gildandi fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar.
„Ég flutti tillöguna fyrst á síðasta fundi borgarstjórnar fyrir sumarleyfi, 20. júní en þá hafnaði meirihlutinn því að hún yrði tekin á dagskrá. Ég flutti tillöguna því að nýju á fundi borgarráðs 22. júní og kaus meirihlutinn þá að fresta afgreiðslu hennar. Tillagan var loks afgreidd í dag eftir ítrekaða frestun og þá felldi meirihlutinn hana,“ segir Kjartan.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýstu yfir vonbrigðum sínum í neðangreindri bókun í Borgarráði.
,,Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir vonbrigðum með að meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar kjósi að fella tillögu Sjálfstæðisflokksins um að laun 13-16 ára unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur verði leiðrétt. Tillagan fól í sér að tímalaun unglinganna hækkuðu um 9% á milli ára eða í samræmi við launavísitölu. Slík launafrysting er sem blaut tuska í andlit yngsta starfsfólks Reykjavíkurborgar, sem sinnir mikilvægum verkefnum á sviði hreinsunar, fegrunar og viðhalds í borginni.“
Kjartan bendir á að um þrjú þúsund unglingar séu skráðir til vinnu í Vinnuskóla Reykjavíkur í sumar og að vinnuframlag þeirra sé mjög mikilvægt og vegi þungt í umhirðu viðkomandi sveitarfélaga. Það á ekki síst við um hverfi Reykjavíkur þar sem víða er þörf á að auka umhirðu.
Öll sveitarfélög hafi hækkað vinnuskólalaun verulega milli ára en ungmenni í Reykjavíki sitji eftir með langlægstu launin.
„Svo virðist sem meirihluti borgarstjórnar telji sig þannig hafa fundið breiðu bökin, sem eiga að axla byrðarnar í baráttunni við verðbólguna,“ segir Kjartan.