Minningarstund verður haldin í Egilsstaðakirkju klukkan 18.00 þriðjudagskvöld vegna þeirra sem létust í flugslysi á Austurlandi í gær. Neyðarboð barst frá flugvélinni á sjötta tímanum í gær og fannst vélin tæpum tveimur klukkustundum síðar. Þrjú voru í vélinni og voru þau úrskurðuð látin á staðnum. Þyrla Gæslunnar flutti hin látnu til Egilsstaða.
Sjá einnig: Þrír látnir eftir flugslys á Austurlandi
Slysið varð við Sauðahlíðar, suður af Skriðdal og vestur af Öxi og er rannsókn slyssins í höndum rannsóknarnefndar samgönguslysa og lögreglunnar á Austurlandi.
Lögregla veitir litlar upplýsingar um tildrög slyssins.
Samráðshópur almannavarna um áfallahjálp bendir á að hægt er að leita til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, kirkjunnar, hjálparsíma Rauða krossins og Félagsþjónustunnar í Múlaþingi og Fjarðarbyggð.