fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Segir forsíðuviðtal DV við Árna Johnsen sitja fast í minninu út lífið – Syrgði tvo syni – „Það er ekkert til sem er eins sárt og sorgarsársauki, ekkert“

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 8. júní 2023 15:30

Árni Johnsen Mynd: Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árni Johnsen, fyrrverandi alþingismaður, lést 6. júní á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum,  79 ára að aldri.

Forsíðuviðtal við Árna sem birtist í helgarblaði DV 27. apríl 2018 er líklega með síðustu stærri viðtölum sem Árni fór í, en Kristinn Haukur Guðnason sem starfaði þá sem blaðamaður DV og síðar fréttastjóri miðilsins, tók viðtalið. Kristinn Haukur starfar nú sem blaðamaður á Vísi og rifjar í dag upp aðdragandann að viðtalinu, sem hann segir lifa í minni hans alla tíð. 

Forsíðuviðtalsefni vantaði þessa viku fyrir helgarblaðið og kom viðtalið við Árna upp með stuttum fyrirvara og þurfti að bregðast snöggt við eins og oft þarf í starfi blaðamanns. Kristinn Haukur fékk símtal frá ritstjóranum á þriðjudagskvöldi og brottför var til Vestmannaeyja klukkan sex morguninn eftir. 

„Vitaskuld sagði ég já. Hér var um að ræða eina af stærstu persónum í íslensku þjóðlífi undanfarna áratugi. Dáðan en jafn framt umdeildan mann. Mann sem hafði komið víða við og hefði frá nógu að segja. Ég vissi jafnt framt að þetta verkefni yrði ekkert auðvelt því þennan vetur hafði Árni misst bæði son sinn og stjúpson. Tíminn var líka af skornum skammti því að viðtalið þurfti að vera komið í prent á fimmtudeginum,“

rifjar Kristinn Haukur upp, en Jóhanna Andrésdóttir ljósmyndari fór með honum til að mynda Árna. Á leiðinni kynnti blaðamaðurinn sér Árna og feril hans. Þegar í Landeyjahöfn var komið kom upp úr dúrnum að Herjólfur lá bilaður við höfnina, ekki gekk að redda flugi og náði Kristinn Haukur að redda ferð með dráttarbátnum Lóðsinn. 

Syrgði tvo syni

Þegar hann hitti Árna var ljóst að dregið var af honum, Árni hafði glímt við mikinn heilsubrest vegna sykursýki og hann og Halldóra Filippusdóttir, eiginkona hans, höfðu misst svo syni um veturinn. Um veturinn hafði Haukur Clausen, sonur Halldóru, orðið bráðkvaddur aðeins 58 ára gamall. Um vorið lést Breki Johnsen, sonur þeirra beggja, eftir baráttu við fíknivandamál fertugur að aldri.

„Ég er búinn að vera að slást svolítið í eitt ár en þetta er nú loksins að koma og ég verð bráðum alveg djöfullegur,“ sagði Árni brattur. Hann sagðist hafa verið mikið rúmliggjandi með lungnavandamál. Fór í aðgerð til þess að láta „múra“ lungun að innan. „Síðan er ég með áunna sykursýki. Það er sykurinn, pastað og kartöflurnar sem eru að trufla og ég þarf að passa hvað ég set ofan í mig,“ sagði Árni í viðtalinu við DV. Árni sagði líkamlegu meinin þó augljóslega hjómið eitt miðað við sorgina sem fylgdi sonamissinum.

„Já, veturinn er búinn að vera erfiður, svakalegur,“ sagði Árni. „Það er ekkert til sem er eins sárt og sorgarsársauki, ekkert. Þetta er það alversta sem ég hef lent í og hef ég lent í mörgu. Hitt er allt saman smámunir og hjóm, alveg sama hvað það hefur verið þungbært á hverjum tíma. Ég get líkt þessu við að vera hent undir skriðjökul. Þá verður maður að reyna að standa á fótunum.“ Árni sagði að tvennt hefði hjálpað mikið til að komast í gegnum sorgina. Annars vegar að finna fyrir ótrúlegri umhyggju og vinarþeli frá hundruðum manna úr Eyjum og öllu Íslandi. Hins vegar var það trúin og aðstoð prestanna í Eyjum.

Árni og Kristinn Haukur í stofunni heima hjá Árna Mynd: Hanna

Blaðamennskan skemmtilegust

Árni bankaði upp á hjá Matthíasi Johannessen, ritstjóra Morgunblaðsins, og fékk þar vinnu sem blaðamaður og því starfi átti hann eftir að sinna í 24 ár, eða til ársins 1991, og um tíma var hann fréttastjóri blaðsins. Á sama tíma var hann einnig dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu, bæði í sjónvarpi og útvarpi, og stjórnaði meðal annars fyrsta helgarþættinum, Í vikulokin.

„Þetta var það skemmtilegasta sem ég hef gert um ævina. Ég var mest í innlendum fréttum og karakterviðtölum. En ég sá einnig um slysafréttir og önnur stór mál þar sem þurfti að fara á vettvang.“

Þú hefur væntanlega séð um gosið hér 1973?

„Já. Móðir mín hringdi í mig þremur mínútum eftir að gosið hófst, klukkan tvö um nóttina, og sagði mér að það væri soldið að ske austur í Eyjum. Ég var á vakt þá og hringdi í Styrmi Gunnarsson, sem var þá nýorðinn ritstjóri, og sagði honum að við þyrftum að stoppa blaðið. Ég yrði að fara út í Eyjar af því að það væri að byrja gos og við þyrftum að setja nýja forsíðu á blaðið. Eftir þetta samtal hringdi Styrmir í Björn Jóhannsson, fréttastjóra, og spurði hvort ég væri byrjaður að drekka.“

Hvernig varð þér við að sjá heimabyggðina loga?

„Mér bregður aldrei en þetta var sérkennilegt. Fólkið var ekki hrætt og það tók þessu með yfirvegun. Fyrst héldu margir að þetta væri flugeldasýning á bænum Kirkjubæ af því að það var afmæli þar. Ég fór beint af flugvellinum upp á Helgafell til að ná sem bestu útsýni og svo niður í bæ þar sem ég skrifaði stanslaust um hvað var að gerast. Síðan gaf ég út bók sem Ómar Ragnarsson kallaði stóru kokkabókina. Hún hét Eldar í Heimaey og Ómar leit svo á að ég væri að elda í Heimaey,“ segir Árni kíminn.

„Við höfum fundið fyrir alveg ótrúlegri umhyggju og vinarþeli frá hundruðum manna úr Eyjum og öllu landinu“
Mynd: Hanna

Þekktastur fyrir stjórnmálaferilinn

Árni er þekktastur fyrir ferilinn í stjórnmálum, sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá 1983 til 2013 með hléum. Um tíma sagði hann af sér þingmennsku vegna dóms sem hann hlaut fyrir misferli með reikninga. Hann fór inn í pólitíkina á sínum tíma til að vinna fyrir Vestmannaeyjar og var ekkert að fela það. „Mér fannst Eyjamenn fara svo illa út úr kerfinu. Þeim var ekki hjálpað eins og til stóð eftir gosið en það hefur verið þannig alla tíð. Við áttum að vinna fyrir öllu en fá ekkert í staðinn.“

Árni sat lengi í fjárlaganefnd en varð aldrei ráðherra. Hann sagðist hafa verið frekur og komið ýmsu í gegn, til dæmis krabbameinsdeild, fjarkennslu og tilkynningarskyldu sjómanna. Samvinna við aðra þingmenn óháð flokkum hafi þó verið mikilvæg.

Í lok viðtalsins bólaði ekkert enn á Herjólfi. 

„Viðtalið þurfti að skrifast og það sem fyrst þannig að Árni bauð mér að setjast inn í lítinn torfbæ sem kallast Húsið, við hliðina á Höfðabóli, og skrifa þar. Eftir tveggja tíma skriftir fékk ég þau skilaboð að Herjólfur myndi sigla um kvöldið,“ segir Kristinn Haukur. 

„Við keyrum fram hjá Stafkirkjunni á Skansinum sem Árni lét byggja og síðan að Herjólfi þar sem við kvöddum Árna og Halldóru. Viðtalið um hið magnaða lífshlaup Árna kláraði ég svo að skrifa um borð í Herjólfi, í bílnum á leiðinni heim og heima við fram á nótt. Það var ekki hægt að stoppa þangað til það var klárað og tilbúið til prentunar.“

Viðtalið í DV má lesa í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Ekkert lát á hreinsunum hjá Sýn – Nú er Steinn Kári farinn

Ekkert lát á hreinsunum hjá Sýn – Nú er Steinn Kári farinn
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
Fréttir
Í gær

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“