Valgeir Reynisson hefur höfðað mál fyrir dómi á hendur sjónvarpsmanninum Sindra Sindrasyni, Sýn hf. og Barnavernd Reykjavíkur vegna framleiðslu og sýningar þáttar í þáttaröðinni Fósturbörn á Stöð 2. Í þættinum kom fram sonur Valgeirs, sem var á þeim tíma fjögurra ára gamall. Var þetta gert án vitundar Valgeirs og móður drengsins, og án heimildar þeirra, en á þessum tíma fóru þau enn með forsjá drengsins sem hafði verið vistaður tímabundið utan heimilis af hálfu Barnaverndarnefndar Reykjavíkur.
Valgeir sakar Sindra, Sýn og Reykjavíkurborg um gróf brot á friðhelgi einkalífs hans, sem og gróf meiðyrðabrot en hann segir þáttinn hafa verið sér og móður drengsins gífurlegt áfall, sem hafi valdið honum örorku og henni ótímabærum dauða.
DV hefur stefnu málsins undir höndum, sem lögmaður Valgeirs, Sara Pálsdóttir, ritar. Auk friðhelgis- og meiðyrðabrota eru Sindri, Sýn og Reykjavíkurborg sökuð um óeðlileg hagsmunatengsl og hagsmunagæslu í málinu og samantekin ráð um að koma barni Valgeirs í varanlegt fóstur til konu sem var, að sögn, starfsmaður Sýnar á þeim tíma þegar þátturinn var gerður.
Barnið var neyðarvistað í kjölfar atviks sem átti sér stað þann 13. júní árið 2018 á heimili Valgeirs. Tilefnið voru ásakanir um skotvopnaburð Valgeirs og brot á barnaverndarlögum. Í stefnunni segir um þetta: „Þann 13. júní hafði gestkomandi aðili á heimili stefnanda hringt í lögreglu með falskar ásakanir um skotvopnaburð og fíkniefnasölu. Í framhaldi mætti sérsveit lögreglu á heimili til stefnanda, kallað var til barnaverndar en stefnandi var handtekinn.“
Var drengnum, sem þá var fjögurra ára, komið fyrir á vistheimili. Faðir drengsins, Valgeir, hafði á þessum tíma verið edrú frá því í nóvember 2017. Rannsókn lögreglu á ásökunum um vopnaburð og brot á barnaverndarlögum leiddi ekkert saknæmt í ljós og síðar voru Valgeiri greiddar bætur fyrir ólöglega handtöku og aðgerðir lögreglu þennan dag.
Barnavernd gerði kröfu um að drengurinn yrði vistaður utan heimilis í sex mánuði, eða fram til 20. desember 2018. Fram að því átti Barnavernd Reykjavíkur að aðstoða foreldrana, styrkja þá og styðja við edrúmennsku þeirra, og búa foreldrana sem best undir að taka aftur að sér umsjá og umönnun sonar síns. Hins vegar telur Valgeir að ekkert af þessu hafi verið gert af hálfu Barnaverndar, heldur þvert á móti hafi stofnunin beitt foreldrana ofbeldi og illri meðferð á umræddu tímabili.
Samkvæmt stefnunni hófst samstarf starfsmanna Barnaverndar við Sýn og Sindra um gerð sjónvarpsþáttar um drenginn strax í kjölfar þess að hann var tekinn af heimili foreldra sinna og settur á vistheimili. Um var að ræða tvo þætti um einstæða konu, Maríu Dröfn Egilsdóttur, sem þráði að eignast barn eftir margar misheppnaðar tilraunir. Í stefnunni er fullyrt að María hafi á þessum tíma verið starfsmaður Sýnar. Starfsmenn Barnaverndar komu fram í þáttunum og tjáðu sig um málefni drengsins og foreldra hans. Meðal þeirra var Lilja Björk Guðrúnardóttir, þáverandi ráðgjafi foreldra drengsins og starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur.
Í stefnunni er látið að því liggja að ákvörðun um að svipta Valgeir og móður drengsins forsjá yfir honum og gera Maríu Dröfn að fósturmóður hans hafi verið í tengslum við þáttagerðina og hagsmunatengsl sem þar mynduðust. Í stefnunni segir:
„Það liðu ekki nema tæpir 6 mánuðir frá því að vistun barnsins utan heimilis hófst, þann 13. júní 2018, og þar til ákvörðun er tekin af starfsmanni barnaverndar, væntanlegu Lilju Björk, einni af aðalstjörnu sjónvarpsþáttarins og ráðgjafa stefnanda og eiginkonu hans hjá barnavernd, um forsjársviptingu. Þar að auki var ákveðið að drengurinn skyldi vistast í varanlegu fóstri hjá Maríu, starfsmanni Stöðvar 2. Í millitíðinni höfðu starfsmenn barnaverndar og Sýn hf. gert sjónvarpsþátt um barn stefnanda, og sá þáttur síðan sýndur í sjónvarpi fyrir alþjóð 30. september 2018, þremur mánuðum eftir að drengurinn var vistaður utan heimilis og rúmum tveimur mánuðum áður en drengurinn átti að fara aftur í umsjá foreldra sinna.
Á umræddu tímabili hafði barnavernd ekkert gert til að aðstoða þessa foreldra eða styðja við þá. Þvert á móti voru allar aðgerðir barnaverndar til þess fallnar að brjóta foreldrana niður, eyðileggja líf þeirra og hrinda þeim fram af bjargbrúninni.“
Fram kemur að Valgeir og kona hans höfðu ekki hugmynd um gerð þáttarins fyrr en eftir að hann hafði verið sýndur á Stöð 2. Segir Valgeir að þessi tíðindi hafi verið honum og konu hans mikið áfall. Segir hann áfallið hafa leitt til þess að kona hans féll í edrúmennsku sinni en hún var edrú þegar þátturinn var sýndur og hafði lokið meðferð. Hún lést árið 2019 af ofskammti og rekur Valgeir það til afleiðinga af því áfalli sem Fósturbarnaþátturinn um son þeirra hafi verið henni.
Samkvæmt stefnunni stóð til að drengurinn færi aftur til foreldra sinna tveimur mánuðum eftir sýningu þáttarins umdeilda. Andleg og líkamleg heilsa foreldranna versnaði hins vegar til muna í kjölfar sýningu þáttarins og Barnavernd tók þá ákvörðun um að drengurinn færi í varanlegt fóstur til Maríu Drafnar Egilsdóttur. Í stefnunni er látið að því liggja að þetta hafi verið fyrirfram skrifað handrit. Enn fremur er sú staðreynd tíunduð að Sindri Sindrason er sjálfur fósturforeldri og var úthlutað fósturbarni af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur. Er því haldið fram í stefnunni að þetta geri hann vanhæfan til að fjalla um fósturmál og barnaverndarmál í sjónvarpsþætti.
Einnig er gagnrýnt í stefnunni að Barnavernd hafi ekki sinnt beiðnum um að drengurinn yrði settur í fóstur til föðursystur hans, eins og foreldar hans óskuðu, en hennar í stað valið Maríu Dröfn Egilsdóttur, stjörnuna úr Fósturbarnaþáttunum, til að öðlast barnið sem hún hafði alltaf þráð. Hefði hitt verið í samræmi við meðalhófsreglu barnaverndarlaga og segir að Barnavernd hafi borið skylda til að færa forsjána yfir til föðursysturinnar. Hafi Barnavernd þar brotið gegn hagsmunum drengsins um að fá að alast upp innan fjölskyldu sinnar. Í framhaldinu hafi verið slitið á tengsl drengsins við föður sinn og föðurfjölskyldu, sem hafi síðan lítið sem ekkert fengið að hitta drenginn. Þá hafi María Dröfn allar götur síðan barist harkalega gegn því að drengurinn fái að hitta föður sinn og alist drengurinn því upp án föðurímyndar.
Í stefnunni er því haldið fram að Barnavernd Reykjavíkur hafi m.a. beitt blekkingum við að forsjársvipta Valgeir. Þar er fullyrt að í stefnu í forsjársviptingarmálinu hafi atvikið þann 13. júní 2018, þegar sérsveit lögreglu kom á heimili Valgeirs vegna ásakana sem hann var skömmu síðar hreinsaður af, samt sem áður verið notað gegn Valgeiri til að svipta hann syni sínum. Er í því sambandi vísað til þess að í stefnu lögmanns barnaverndarnefndar hafi verið fullyrt að aðstæður á heimili drengsins hafi verið svo slæmar að það hafi þurft að kalla til sérsveit lögreglu í júní 2018. Ekki er minnst á þá staðreynd að um falskar ásakanir var að ræða líkt og rannsókn lögreglu leiddi í ljós strax í kjölfarið. Þannig sé dregin upp röng mynd af heimilisaðstæðum drengins í stefnu í dómsmáli þar sem Valgeir var sviptur drengnum sínum, þrátt fyrir að Barnavernd hafi vitað að ekkert saknæmt kom út úr rannsókn lögreglu.
Andlit sonar Valgeirs var hulið í þættinum en rödd hans heyrðist, föt hans þekktu foreldrarnir og aðstæður hans voru tíundaðar. Er því haldið fram að allir sem þekktu eitthvað til fjölskyldunnar hafi áttað sig á því hvaða barn ætti í hlut enda var það með símtali kunningjafólks sem Valgeir fékk vitneskju um að sonur hans væri í sjónvarpinu.
Í þættinum var fullyrt að drengurinn hefði verið vanræktur, sýnt var inn í herbergi hans, rúm hans og leikföng blasa við áhorfendum. Ennfremur segir María Dröfn í viðtali við Sindra að hún voni að drengurinn fari ekki aftur til foreldra sinna. Einnig segir hún að hún óttist að senda hann til foreldranna.
Valgeir sakar Sindra, Sýn og Barnavernd Reykjavíkur um alvarleg lögbrot með gerð og sýningu þáttarins. Sindri og Sýn eru meðal annars sökuð um brot gegn 1. málsgrein 26. greinar fjölmiðlalaga, en hún hljóðar svo:
„Fjölmiðlaveita skal í starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og standa vörð um tjáningarfrelsi. [Hún skal virða mannréttindi og jafnrétti, og einnig friðhelgi einkalífs nema lýðræðishlutverk fjölmiðlaveitu og upplýsingaréttur almennings krefjist annars.] 1) Fjölmiðlaveita skal gæta þess að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni [í fréttum og fréttatengdu efni] 1) og gæta þess að mismunandi sjónarmið komi fram, jafnt karla sem kvenna.“
Starfsmaður Barnaverndar sem kemur fram í þættinum og tjáir sig opinskátt um drenginn og aðstæður hans, Lilja Björk Guðrúnardóttir, er sökuð um brot á 230. grein almennra hegningarlaga, sem hljóðar svo:
„Ef maður, sem hefur eða haft hefur með höndum starf, sem opinbera skipun, leyfi eða viðurkenningu þarf til að rækja, segir frá einhverjum einkamálefnum, sem leynt eiga að fara og hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu, þá varðar það sektum eða [fangelsi allt að 1 ári]. 1) Sömu refsingu varðar einnig sams konar verknaður þeirra manna, sem aðstoðað hafa ofangreinda menn í starfi þeirra.“
Allir aðilar eru auk þess sakaðir um brot gegn 1. málsgrein 228. greinar almennra hegningarlaga:
„Hver sem brýtur gegn friðhelgi einkalífs annars með því að hnýsast í, útbúa, afla, afrita, sýna, skýra frá, birta eða dreifa í heimildarleysi skjölum, gögnum, myndefni, upplýsingum eða sambærilegu efni um einkamálefni viðkomandi, hvort heldur sem er á stafrænu eða hliðrænu formi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári, enda sé háttsemin til þess fallin að valda brotaþola tjóni.“
Einnig eru ásakanir um brot gegn 71. grein Stjórnarskrárinnar: „Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.“
Ennfremur eru aðilar sakaðir um að hafa brotið gegn Mannréttindasáttmála Evrópu og Barnasáttmálanum.
Valgeir heldur því einnig fram að athæfi Sýnar og Barnaverndar hafi falið í sér pyntingar og ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 68. greinar stjórnarskrárinnar og 3. greinar Mannréttindasáttmála Evrópu. Í stefnunni segir um þetta:
„Með gerð þáttarins og sýningu hans hafi stefnanda og fjölskyldu hans verið vísvitandi valdið bæði líkamlegum, tilfinningalegum og andlegum sársauka og þjáningu. Athafnir stefndu hafi verið framkvæmd af ásetningi og hafi valdið stefnanda og eiginkonu hans alvarlegum þjáningum og sársauka. Í dómi MDE í málinu Írland gegn Bretlandi skýrði MDE hugtakið pyntingar sérstaklega, og vísaði til þess að um væri að ræða ómannúðlega meðferð framkvæmda af ásetningi sem valdi alvarlegum þjáningum.“
Valgeir gerir kröfur á hina stefndu um annars vegar fjórar milljónir króna í miskabætur fyrir ófjárhagslegt tjón, hins vegar gerir hann skaðabótakröfu upp á rétt tæplega fjórar milljónir króna fyrir heilsufarslegt tjón. Hann hefur verið greindur með alvarlega áfallastreituröskun og þunglyndi sem rakið er til áhrifa af þættinum. Er hann metinn með 25 miskastig.
Margítrekað er því lýst í stefnunni hvaða skelfilegu andlegu áhrif þátturinn hafi haft á Valgeir og eiginkonu hans en þau höfðu enga hugmynd um þáttagerðina og því síður var leitað leyfis eða álits þeirra þó að þau færu með forsjá drengsins þegar þátturinn var gerður.
Einnig er á það bent að fréttir upp úr þættinum hafi verið skrifaðar og birtar á Vísir.is og þar sé þátturinn enn aðgengilegur. Drengurinn sem við sögu kemur er nú 8 ára og eru leiddar líkur að því að hann eigi fyrr eða síðar eftir að sjá þáttinn og verða fyrir áfalli vegna efnisins.
DV hafði samband við Sindra Sindrason dagskrárgerðarmann og Þórhall Gunnarsson, framkvæmdastjóra fjölmiðla Sýnar, og óskaði eftir viðbrögðum. Þeir höfðu ekki haft ráðrúm til að kynna sér efni stefnunnar og sögðust því ekki geta tjáð sig að sinni, en málið var höfðað með birtingu stefnu þann 31. maí. Andsvör þeirra munu í öllu falli birtast í formi greinargerðar lögmanns Sýnar.
Valgeir gerði miskabótakröfu á hendur Sýn og Barnavernd Reykjavíkur árið 2021 og urðu einhverjar sáttaviðræður milli aðila í kjölfarið. Niðurstaðan var þó sú að Sýn hafnaði kröfum og byggði á fjölmiðlafrelsi. Samkvæmt stefnu viðurkenndi framkvæmdastjóri Barnaverndar hins vegar á fundi með lögmanni Valgeirs, Söru Pálsdóttur, um mitt ár 2021, að brot hefðu verið framin. Ekki hefur sú viðurkenning þó leitt til sátta milli Barnaverndar Reykjavíkur og Valgeirs. Allt bendir til núna að málið verið útkljáð fyrir dómstólum.
DV leitaði viðbragða hjá Barnavernd Reykjavíkur sem vísaði til embættis Borgarlögmanns, þar sem málið væri orðið að dómsmáli. Borgarlögmaður hafnaði boði um að tjá sig um málið og benti á að Reykjavíkurborg tjáir sig almennt ekki um mál sem eru til meðferðar hjá dómstólum.
Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 6. júní næstkomandi.
Á morgun verður birt í DV ítarlegt viðtal við föðurinn sem höfðað hefur málið, Valgeir Reynisson.