Níu ökumenn voru stöðvaðir í nótt á höfuðborgarsvæðinu vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Tveir þeirra voru einnig án ökuréttinda. Kemur þetta fram í dagbók lögreglunnar eftir næturvaktina.
Einn einstaklingur gistir fangageymslu vegna brots á nálgunarbanni.
Umferðaróhapp varð í umdæmi Hafnarfjarðar/Garðabæjar, þar sem bifreið valt. Fjórir voru í bílnum og komust úr honum án aðstoðar. Minniháttar áverkar voru á einum einstaklingi.
Í umdæmi Kópavogs/Breiðholts var rafhlaupahjóli ekið á gangandi vegfaranda, hlaut hann minniháttar meiðsli.
Í umdæmi Grafarvogs/Árbæjar/Mosfellsbæjar var tilkynnt um innbrot og skemmdarverk í skóla. Málið telst upplýst og var Barnavernd tilkynnt um málið þar sem grunaðir eru yngri en 18 ára.