Alríkisdómari í Bandaríkjunum hefur komist að þeirri niðurstöðu að vísa skaðarbótamáli bandaríska stórmeistarans Hans Niemann gegn kollega sínum, Magnus Carlsen, sterkasta skákmanni heims frá dómi. Niemann fór fram á 100 milljónir dollara, rúmlega 13 milljarða, í skaðabætur fyrir meintan orðsporsmissi en auk norska snillingins var fyrirtækið Play Magnus Group kært sem og bandaríski stórmeistarinn Hikaru Nakamura, skákvefsíðan vinsæla Chess.com og einn stjórnandi hennar Daniel Rensch.
Dómarinn var hins vegar á því að ýmsir tæknilegar ágallar væru á kæru bandaríska stórmeistarans og vísaði málinu því frá.
Segja má að alþjóðlega skáksamfélagið hafi farið á hliðina í september 2022 þegar Carlsen hætti í einu sterkasta skákmóti heims eftir að hafa tapað skák sinni gegn Niemann sem var nánast óaðfinnanlega tefld af bandaríska stórmeistaranum.
Hávær orðrómur fór í gang um að Carlsen væri þeirrar skoðunar að Niemann hefði hreinlega gerst sekur um svindl og var það stórmeistarinn Nakamura sem gerði sitt í að dreifa þeim orðrómi en hann er einn vinsælasti skáklýsandi heims á samfélagsmiðlum.
Málið vatt hratt upp á sig og fljótlega viðurkenndi Niemann í viðtali að hafa svindlað í óopinberum skákum á netinu þegar hann var á barnsaldri en hann hefði bætt ráð sitt. Þær fullyrðingar voru hins vegar dregnar í efa þegar Niemann var skyndilega bannaður á vefsíðunni Chess.com sem taldi sig hafa sannanir fyrir nýlegu svindli skákmannsins.
Segja má svo að málið hafi sprungið gjörsamlega út í stærstu fjölmiðlum heims þegar að sú kenning fór á flug að Niemann hefði svindlað á Carlsen með hjálp fjarstýrðra endaþarmskúlna. Sagan var góð, þó ekkert bendi til þess að neinn fótur sé fyrir henni, og skyndilega var skák á allra vörum.
Málinu er hins vegar nú lokið, í bili, þó ekki sé útilokað að Niemann geti höfðað mál í undirrétti, sérstaklega ef að lögfræðingar hans geta sýnt fram á ný gögn í málinu.