fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Fréttir

Rússar reyna að fylkja liði eftir uppreisn helgarinnar

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 26. júní 2023 17:00

Liðsmenn Wagner/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og kunnugt er gerðu Yevgeny Prigozhin og málaliðasveit hans, Wagner, tilraun til uppreisnar gegn Vladimir Putin, forseta Rússlands, og rússnsekum yfirvöldum um liðna helgi. Wagner sveitirnar stefndu óðfluga til Moskvu þegar snarlega var hætt við förina og ekkert varð af hinni boðuðu uppreisn eftir að samningar náðust að sögn fyrir milligöngu Alexander Lukhashenko, forseta Belarús.

Sjá einnig: Kokkur-Pútíns lét sér segjast fyrir milligöngu Lukashenkos – „Nú er sú stund runnin upp að blóði gæti verið úthellt“

Það sem af er þessa dags hafa rússnesk yfirvöld hafið herferð í því skyni að styrkja sess Putin á ný í hjörtum rússnesku þjóðarinnar og komast yfir þá veikleika sem óneitanlega varð vart við í brynju hans miðað við hversu greiðlega uppreisnartilraunin virtist ganga lengi vel.

Í fréttum BBC kemur fram að samkvæmt opinberum fréttaveitum í Rússlandi sé sakamál á hendur Prigozhin enn til meðferðar hjá yfirvöldum gagnstætt því sem fram kom í yfirlýsingum frá Kreml um helgina þar sem lýst var yfir að Prigozhin hlyti sakaruppgjöf.

Forsætisráðherra Rússlands, Mikhail Mishustin, hefur hvatt öll sem starfa í stjórnkerfinu til að fylkja sér á bak við Putin. Hann fullyrti að Rússland væri í stríði til að tryggja sér réttinn til að varða sína eigin leið en minnstist ekkert á að atburði helgarinnar mætti rekja til uppreisnar af hálfum fyrrum bandamanns Putin.

Putin kemur aftur fram

Fyrr í dag birtu rússnesk stjórnvöld myndband þar sem Vladimir Putin ávarpaði ráðstefnuna Verkfræðingar framtíðarinnar. Þar lofaði hann rússneskan iðnað fyrir að halda greininni í stöðugum rekstri þrátt fyrir hinar miklu áskoranir af hálfu utanaðkomandi aðila sem landið þyrfti nú að glíma við. Ekkert var minnst á Priogozhin og samkomulagið við hann. Óljóst er nákvæmlega hvenær ávarpið var flutt. Er það talið liður í tilraunum rússneskra stjórnvalda til að koma þeirri ímynd á framfæri að nú verði haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist.

BBC segir ávarpið hafa verið flutt í borginni Tula sem er suður af Moskvu en í borginni er einmitt umfangsmikil vopnaframleiðsla. Sveitir Wagner hefðu einmitt komið þangað á leið sinni til Moskvu til helgina en voru ekki komnar svo langt þegar hætt var við uppreisnina.

Wagner liðar höfðu borgina Rostov, sem er ein helsta miðstöð birgðaflutninga og skipulagningar vegna herðnaðar Rússa í Úkraínu, um tíma á valdi sínu um helgina og þar hafa nú birst skilti og plaköt þar sem hvatt er til samstöðu og að Rússar forðist blóðbað vegna innri átaka.

Í yfirlýsingu frá Kreml kom fram að forseti Íran, Ebrahim Raisi, hafi lýst yfir fullum stuðningi við rússneska ráðamenn í símtali við Putin. Talið er full víst að Íran hafi útvegað Rússlandi talsvert magn dróna og annarra vopna.

Putin ræddi einnig við Emírinn af Katar, Sheikh Tamim, en samkvæmt CNN ber stjórnvöldum í Rússlandi og Katar ekki saman um hvað fór þeim á milli. Rússar segja Emírínn hafa lýst yfir stuðningi við viðbrögð Putin við uppreisninni. Stjórnvöld í Katar segja hins vegar að Emírinn hafi hvatt til friðsamlegra lausna með samningaviðræðum og að fullveldi og landamæri Úkraínu yrðu virt.

Segjast rannsaka aðkomu vestrænna njósnara

Utanríkisráðherra Rússlands, Sergey Lavrov, segir að rannsókn standi yfir á því hvort að vestrænar leyniþjónustur hafi á einhvern hátt komið að uppreisnartilraun Wagner liða. Í frétt BBC kemur þó fram að Lavrov hafi sagt að Bandaríkin hefðu gefið ákveðin merki um að þau hefðu ekki komið að atburðum helgarinnar.

Talið var líklegt að Wagner sveitin yrði leyst upp en svo virðist ekki vera því að sveitin auglýsir nú eftir liðsmönnum bæði með plakötum og á Telegram. Í fréttum CNN kemur fram að skráningarstöðvar sveitarinnar hafi verið opnaðar á ný eftir að hafa lokað um helgina. Óljóst er hvað verður um hugmyndir um að sameina sveitirnar rússneska hernum.

Prigozhin sendi fyrir stuttu frá sér ávarp þar sem hann sagði að för Wagner liða til Moskvu hefði falið í sér mótmæli en ekki tilraun til uppreisnar.

Fréttaskýrendur telja stöðu Putin trygga eins og er. Leyniþjónustan FSB og herinn sýna honum enn tryggð. Hversu sterk staða hans raunverulega er á hins vegar eftir að koma í ljós.

Jens Stoltenberg, aðalritari NATO, hefur lýst því yfir að umrót helgarinnar sýni vel fram á veikleika rússneskra ráðamanna og hversu varasamt það sé að notast við sveitir málaliða sem taki þátt í stríðsátökum í því augnamiði að hagnast persónulega á þeim. Fleiri ráðamenn í Evrópu hafa tekið undir þetta og sagt hernaðarmátt Rússa augljóslega vera við það að bresta. Stoltenberg sagði uppreisnina hins vegar vera innanríkismál í Rússlandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Tókst að koma bát aftur að bryggju í hvassviðrinu

Tókst að koma bát aftur að bryggju í hvassviðrinu
Fréttir
Í gær

Trump fór mikinn og boðar landvinninga Bandaríkjanna

Trump fór mikinn og boðar landvinninga Bandaríkjanna
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Inga segir eiganda Lumex ljúga – Ítrekað hindrað aðgengi fatlaðra og rifið kjaft

Inga segir eiganda Lumex ljúga – Ítrekað hindrað aðgengi fatlaðra og rifið kjaft
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Listinn lengist – Þessir háttsettu Rússar hafa verið myrtir í Rússlandi

Listinn lengist – Þessir háttsettu Rússar hafa verið myrtir í Rússlandi
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Pútín gæti staðið frammi fyrir alvarlegum vanda á næsta ári

Pútín gæti staðið frammi fyrir alvarlegum vanda á næsta ári
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Allt brjálaðist hjá dularfullri rússneskri útvarpsstöð

Allt brjálaðist hjá dularfullri rússneskri útvarpsstöð