fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fréttir

Alvarlegar ávirðingar í svartri Íslandsbankasátt – Lygar til viðskiptavina, alvarleg lögbrot, villandi upplýsingagjöf og óheiðarleiki

Ritstjórn DV
Mánudaginn 26. júní 2023 09:57

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslandsbanki gerði sátt við íslenska ríkið vegna útboðs á 22,5 prósenta eignarhlut ríkisins í bankanum, en sáttin fólk í sér sektargreiðslu upp á 1,16 milljarð. Sáttin hefur nú verið birt en má þar finna alvarlegar ávirðingar á framgöngu Íslandsbanka við útboðið og hefur bankinn með sáttinni skuldbundið sig til að gera úrbætur.

Rökstuðningur fyrir þessari háu sekt er sá að það sé mikilvægt að stjórnsýsluviðurlög vegna alvarlegra brota  hafi raunveruleg varnaðaráhrif.

Á fundi fjármálaeftirlitsnefndar þann 7. júní var komist að þeirri niðurstöðu að forsendur væru fyrir að ljúka málinu með sátt og greiðslu sektar ásamt kröfum um úrbætur vegna „brota gegn lögum um markaði fyrir fjármálagerninga og lögum um fjármálafyrirtæki“.

Alvarlegar brot

Í samantekt í samkomulaginu segir að skilvirkur fjármálamarkaður grundvallist á tiltrú fjárfesta á  honum, án trausts leiti fjármagn ekki inn á markaðinn. Háttsemi sú sem málið varðar, og tengist útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5 prósenta eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, taki til margra þátta. Stjórn Íslandsbanka og bankastjóri hafi ekki innleitt stjórnarhætti og innra eftirlit með fullnægjandi hætti. Hafi stjórn og bankastjóri sýnt af sér athafnaleysi vegna viðvarandi annmarka á skráningu og varðveislu símtala og stjórnarhættir bæru vott um skort á áhættuvitund.

Íslandsbanki hafi ekki gert allar viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða takast á við hagsmunaárekstra vegna þátttöku starfsmanna bankans í útboðinu. Hafi bankinn brotið gegn lagaskyldum sem á honum hvíldu þegar hann hvorki hljóðritaði né varðveitti símtalsupptökur og ekki hafi verið tryggt að starfsmenn ættu aðeins í samskiptum við viðskiptavini sem bankinn gæti varðveitt og afritað. Hafi hlítni við reglur um hljóðupptökur verið viðvarandi vandamál hjá bankanum um langt skeið.

Villandi upplýsingar og lygar til viðskiptavina

Hafi bankinn flokkað átta viðskiptavini sem fagfjárfesta án þess að skilyrði laga hafi verið  uppfyllt, en bankinn hafi ýmist haft frumkvæði að og/eða hvatt viðskiptavini til að óska eftir því að fá stöðu farfjárfestis og þar með afsala sér réttarvernd sem flokkun sem almennur fjárfestir veitir. Hafi bankinn líka breytt flokkun viðskiptavina sem tóku þátt í útboðinu sem hafi einungis við ætlað hæfum fjárfestum og hafi þessar breytingar átt sér stað eftir að útboðið hófst og staðið yfir allt þar til viðskiptin voru gerð upp.

Þar segir einnig:

„Málsaðili veitti Bankasýslu ríkisins villandi upplýsingar um fyrirliggjandi tilboð í tilboðsbókinni sem lögð var fyrir Bankasýsluna að kvöldi 22. mars 2022 með því að upplýsa ekki um að almennir fjárfestar stæðu að baki tilboði Eignastýringar málsaðila og að tilboðin hefðu verið lögð fram með sama hætti og tilboð viðskiptavina Verðbréfamiðlunar og Fyrirtækjaráðgjafar. Þar af leiðandi fékk Bankasýslan ekki upplýsingar um nöfn þátttakenda og fjárhæð tilboða frá hverjum og einum þrátt fyrir að upplýsingar þess efnis lægju fyrir hjá málsaðila. Bankasýslu ríkisins voru einnig veittar villandi upplýsingar um flokkun þátttakenda í útboðinu þar sem níu viðskiptavinir málsaðila sem stóðu að baki tilboðum í tilboðsbókinni sem lögð var til grundvallar rökstuddu mati Bankasýslunnar til fjármála- og efnahagsráðherra voru ekki flokkaðir sem fagfjárfestar á því tímamarki. Þá veitti málsaðili viðskiptavinum Eignastýringar rangar og villandi upplýsingar, geng betri vitund, í níu tilfellum um að lágmarksfjárhæð tilboða í útboðinu væri 20 milljónir króna þegar ekki var um slíka skilmála að ræða.“

Eins segir að bankinn hafi ekki uppfyllt skyldu um að starfa heiðarlega, af sanngirni og fagmennsku í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti með trúverðugleika fjármálamarkaðarins og hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi. Hafi almennum fjárfestum verið boðið að taka þátt í útboðinu og hafi bankinn með því farið gegn skilmálum útboðsins. Hafi háttsemin verið til þess fallin að hafa skaðleg áhrif á traust og trúverðugleika fjármálamarkaða.

Eins kemur fram að Íslandsbanki hafi ekki farið að innra verklagi sem bankinn hafðis jálfur sett sér við mat á umsóknum um flokkun fjárfesta í útboðinu, m.a. í tilvikum þar sem fjárfestar voru starfsmenn bankans. Þar með hafi bankinn, að mati fjármálaeftirlitsins, grafið undan trúverðugleika fjármálamarkaðarins og trausti fjárfesta.

Nöfnum sumra tilboðsgjafa leynt

Eins og fram kemur hér að ofan taldi fjármálaeftirlitið að bankinn hafi haldið eftir upplýsingum, eða með öðrum orðum ekki afhent Bankasýslunni, sem vörðuðu nöfn sumra fjárfesta og hvert tilboð þeirra hafi verið. Þetta hafi meðal annnars átt við um níu fjárfesta í útboðinu sem höfðu ekki fengið flokkun sem fjárfagfestar þegar útboðinu lauk. Hluti viðskiptavina hafi ekki uppfyllt skilyrði útboðsins um hæfa fjárfesta, þó svo bankinn hafi kynnt þá Bankasýslunni sem slíka. Íslandsbanki bar því við í vörunum sínum að þeirra skilningur væri sá að fjárfestar þyrftu ekki að vera skilgreindir sem hæfir fyrr en við uppgjör útboðs, en ekki við lok þess. Bankinn gekkst þó við því að að forstöðurmaður Eignastýringar hafi ranglega fullyrt við viðskiptavina að  lágmarksfjárhæð tilboða væri 20 milljónir. Fram kemur í sáttinni að forstöðumaður þessi hafi sérstaklega spurt Bankasýsluna út í lágmarksfjárhæð og fengið það svar að ekki væri gert ráð fyrir slíku þar sem aðeins hæfir fjárfestar mættu taka þátt.

Þrátt fyrir skilyrði um hæfa fjárfesta hafi Íslandsbanki beint útboðinu að 99 almennum fjárfestum í andstöðu við skilmála. Eins hafi bankinn vanrækt að fylgja reglum um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti stjórnenda, sem og eigin reglum um ráðstafanir vegna hagsmunaárekstra hvað varðaði þátttöku starfsmanna og stjórnenda bankans í útboðinu.

Símtöl ekki hlóðrituð í 88 prósent tilvia

Fram kemur eins að lengi hafi verið annmarkar á símanotkun og upptökum símtala hjá bankanum og meðal annars hafi Regluvarsla bankans haft áhyggjur af því að starfsmenn notuðu farsíma í samskiptum við viðskiptavini og þau símtöl því ekki hljóðrituð. Íslandsbanki hafi þó ekki verið búinn að gera úrbætur þegar útboðið fór fram og því vanti símtalsupptökur sem tengjast útboðinu í 88 prósent tilvika.

Starfsmenn bankans hafi átt símtöl, oftast að eigin frumkvæði, þar sem athygli var vakin á útboðinu. Starfsmenn Verðbréfamiðlunar hafi hringt 86 símtöl á útboðsdegi til viðskiptavina og hugsanlegra þátttakenda í útboðinu. Af þeim símtölum voru þrjú hljóðrituð. Starfsmen Eignastýringar hringdu 88 símtöl og voru 19 þeirra hljóðrituð. Fyrirtækjaráðgjöf átti 10 símtöl af þessu tagi og ekkert þeirra var hljóðritað. Skylt hafi verið að hljóðrita og varðveita þessi símtöl lögum samkvæmt. Ekki sé svo fyrir að fara upplýsingum um heildarfjölda símtala sem starfsmenn hafi móttekið í farsíma sína, heldur bara símtöl sem þeir hringdu sjálfir. Því sé líklegt að enn fleiri símtöl hafi átt sér stað sem hafi átt að varðveita. Samkvæmt reglum Íslandsbanka eigi starfsmenn að slíta símtali þegar hringt er í þá í farsíma og hringja aftur úr hljóðrituðum síma.

Segir um þetta í sáttinni:

„Fjármálaeftirlitinu þykir ljóst að málsaðili hafi um langan tíma vitað af alvarlegum brotalömum tengdum símtalsupptökum og hlítni við innri reglur um hljóðritun símtala sem giltu áður en lög um markaði fyrir fjármálagerninga tóku gildi.“

Stjórn bankans hafi ekki haft nægilegt eftirlit með framkvæmd útboðsins, en hefði slíkt verið fyrir hendi þá hefðu líklega þau brot sem bankinn gerðist sekur um ekki raungerst. Stjórnarhættir Íslandsbanka báru, að mati fjármálaeftirlitsins, með sér skort á áhættuvitund og ekki verið til þess fallnir að stuðla að skilvirkri og varfærinni stjórnun bankans.

 

Um sé að ræða alvarleg brot á mikilvægum lagaákvæðum. Hér má lesa sáttina í heild sinni. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Hraun hefur runnið yfir Njarðvíkuræð

Hraun hefur runnið yfir Njarðvíkuræð
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar