Sátt íslenska ríksisins við Íslandsbanka vegna framgöngu bankans við sölu á 22,5 prósenta eignarhluta ríkisins í bankanum hefur verið birt, en farið er yfir helstu atriði sáttarinnar hér. Sáttin felst í sektargreiðslu upp á rúman milljarð og auk þess hefur bankinn skuldbundið sig til að ráðast í úrbætur til að tryggja að sambærilegar aðstæður komi ekki upp aftur.
Meðal þeirra fjölmörgu ávirðinga sem finna má í tæplega 100 síðna sáttinni er umfjöllun um 13 tilvik þar sem viðskiptavinir voru flokkaðir sem fjárfagfestar þegar þeir með réttu, að mati fjármálaeftirlitsins, hefðu ekki átt að á slíka flokkun.
Hér verða þessi tilvik rakin eins og þeim hefur verið gerð skil í sáttinni, og eins rakin samskipti forstöðumanna og starfsmanna bankans við viðskiptavini þar sem aðilar, sem ekki töldust fagfjárfestar, voru hvattir til þátttöku. Rétt er að taka fram að umræddir viðskiptavinir eru ekki nafngreindir í umfjöllun fjármálaeftirlitsins í téðri sátt, en upplýsingar um nöfn félaga, starfsmanna bankans og annarra hafa verið afmáð.
Tilvik 1
Félag, sem í sáttinni er nefnt A, var flokkað sem almennur fjárfestir þegar það tók þátt í útboðinu sem fór fram þann 22. mars á síðasta ári. Forsvarsmaður félagsins sótti um að félagið fengi stöðu fagfjárfestis þremur dögum eftir að útboðið hófst, eða 25. mars. Bankinn breytti flokkun félagsins samdægurs. Forsvarsmaður félagsins undirritaði umsóknina, um að teljast fagfjárfestir, klukkan 18:18. Íslandsbanki sendi tilkynningu um breytta flokkun 18:36, eða 18 mínútum eftir að umsóknin barst.
Fjármálaeftirlitið rakti að hvergi hafi verið tekið fram að skilyrði laga um flokkun sem fagfjárfestir hafi verið uppfyllt og hafi fylgigögn með umsókn verið hálf glötuð, eða skjáskot af verðbréfaeign þar sem litlar upplýsingar var að finna og svo kvittun um viðskipti við annan banka. Engin gögn hafi verið um skuldastöðu félagsins og ekki að sjá að slíkt hafi verið haft til hliðsjónar við mat. Þar með hafi Íslandsbanki ekki kannað með fullnægjandi hætti hvort nettó-eign félagsins hafi uppfyllt kröfur laga. Fjármálaeftirlitið telur að félagið A uppfylli ekki þessar kröfur og hefði ekki átt að flokka það sem fagfjárfesti.
Tilvik 2
Varðandi Félag B hafi aðili tengdur eiganda félagsins lagt inn tilboð í útboðinu og þá undirritað umsókn um að félagið hefði stöðu fagfjárfestis, en umsóknin var lögð fram þremur dögum eftir útboðið. Fjármálaeftirlitið leit til þess hvenær félagið var stofnað, en þær upplýsingar hafa verið svart strikaðar í sáttinni svo ekki er ljóst hvaða dagsetning er um að ræða. Miðað við stofnun félagsins taldi fjármálaeftirlitið þó ljóst að félagið gæti ekki uppfyllt skilyrði laga um fjölda eða umfang viðskipta á næstliðnum fjórum ársfjórðungum.
Fjármálaeftirlitið hafi engin gögn fengið með umsókn félagsins, hvorki um verðbréfaeign eða skuldastöðu. Í umsókn eru þó tilteknar upplýsingar um starfsreynslu þessa ónefnda aðila sem tengist eiganda félagsins, en tengslin hafa verið afmáð úr sáttinni. Lögfræðideild Íslandsbanka hafi samþykkt umsóknina um að teljast fagfjárfestir með tölvupósti þann 25. mars klukkan 13:27, en þá hafi hvorki legið fyrir undirrituð umsókn frá félaginu um slíka flokkun, né umboð fyrir þennan aðila tengdum eigandanum, til að taka ákvarðanir fyrir félagið.
Ýmist væri fyrir að fara engum eða ófullnægjandi gögnum um hvort félagið uppfyllti skilyrði fyrir skráningu. En fjármálaeftirlitið telur ljóst að félagið hafi uppfyllt ekkert af skilyrðunum og hefði því ekki átt að flokkast sem fagfjárfestir. Íslandsbanki lagið fram ný gögn sem áttu að réttlæta skráninguna, en þar kom fram að áðurnefnt umboð hafi verið undirritað klukkan 14:36 þann 25. mars, eða rúmri klukkustund eftir að bankinn samþykkti umsókn um skráningu sem fagfjárfestir, en umsókn sú var þó ekki undirrituð fyrr en 14:43. Fjármálaeftirlitið benti á að bankinn hafi ekki afhent sjálft umboðið, og því hafi ekki verið sýnt fram á í hverju umboðið fólst þó að fjármálaeftirlitið hafi óskað eftir þeim upplýsingum og slík gögn hafi verið afhent í öðrum tilvikum.
Tilvik 3
Forsvarsmaður félaga A og B hafi lagt inn tilboð fyrir félagið C í útboðinu. Hafi eigandi félagsins veitt þessum forsvarsmanni umboð til að taka ákvarðanir um viðskipti með fjármálagerningar fyrir félagið sama dag og umsókn um breytta flokkun hafi verið send bankanum, eða þremur dögum eftir að félagið hafi gert tilboð í útboðinu. Hafi bankinn enga athugasemd gert við að þessi forsvarsmaður hafi lagt tilboðið fram án þess að hafa umboð. Engin gögn hafi fylgt umsókninni um breytta flokkun. En fjármálaeftirlitið segir að í ljósi þess hvenær félagið var stofnað, sem er afmáð úr sáttinni, sé ljóst að það hafi ekki uppfyllt skilyrði um fjölda eða umfang viðskipta á næstliðnum fjórum ársfjórðungum. En ætla má að í þessu felist að félagið hafi nýlega verið skráð.
Engin gögn hafi borist um skuldastöðu félagsins. Aftur hafi breytt flokkun verið samþykkt áður en umsókn hafi verið undirrituð og áður en umboð hafi verið undirritað.
Tilvik 4
Eigandi félags D hafi sótt um að það fengi flokkun sem fagfjárfestir á útboðsdegi. Samkvæmt gögnum máls, eða tölvupóstsamskiptum Lögfræðideildar Íslandsbanka við starfsmann málsaðila hafi komið fram að félagið uppfyllti ekki skilyrði fyrir breyttri flokkun. Svo virðist sem að bankinn hafi samt komist að þeirri niðurstöðu að félagið uppfyllti skilyrði um eignastöðu án þess að verðgildi fjármálagerninga eða innistæðna sé tilgreint í umsókn. Fjármálaeftirlitið hafi óskað eftir frekari gögnum og bara fengið hreyfingayfirlit fyrir vörslureikning, en engin gögn um skuldastöðu.
Í þessu tilviki hafi jafnframt verið ljóst að Íslandsbanki vissi vel að félag D gæti ekki talist fagfjárfestir þar sem skilyrði væru ekki uppfyllt.
Tilvik 5
Þetta tilvik virðist varða aðila sem tengist Íslandsbanka, en tengslin hafa verið afmál úr sáttinni. Þessi aðili hafi sótt um að teljast fagfjárfestir í tölvupósti þann 22. mars, undirritað umsóknina 18:19 og umsóknin var samþykkt tveimur mínútum síðar. Þessi aðili hafi átt töluverð viðskipti með gjaldeyri, en með umsókninni fylgdi hreyfingarlisti fyrir tímabilið janúar-nóvember 2021. Þar hafi þó ekki verið að finna nægilega skýrar upplýsingar, ekki væri sýnt fram á að umfang viðskipta væri nægilega mikið, ekki tekið fram hvaða stöðu þessi aðili hafi gegnt á fjármálamarkaði, og ekki nægilega sýnt fram á að þessi aðili hefði nægilega þekkingu og reynslu til að taka sjálfur ákvörðun um fjárfestingar og til að skilja þá áhættu sem í þeim felst.
Tilvik 6
Þetta tilvik varðar einnig aðila sem tengist Íslandsbanka. En sá aðili sendi tölvupóst til samstarfsmanns síns klukkan 17:55 á útboðsdegi og óskaði eftir því að vera fagfjárfestir. Samstarfsmaðurinn hafi fyllt út umsóknina sem var svo undirrituð 21:36 um kvöldið og var umsóknin samþykkt nokkrum mínútum síðar, eða 21:42.
Gögn sem fjármálaeftirlitið hafi fengið hafi verið misvísandi. Starfsmenn Íslandsbanka hafi metið með mismunandi hætti hversu mörg viðskipti lægu fyrir í yfirlitum. Viðskiptin hafi verið metin umtalsverð af Íslandsbanka en fjármálaeftirlitið tekur fram að sex þeirra hafi verið viðskipti að fjárhæð 30 þúsund og hafi aðeins 13 viðskipti numið milljón krónum eða meira. Þetta hafi ekki verið nægilega mörg eða umtalsverð viðskipti til að uppfylla skilyrði fyrir breyttri skráningu.
Tilvik 7
Þetta tilvik varðar starfsmann Íslandsbanka. Sá hafi tekið þátt í útboðinu og sent tölvupóst 16:53 á útboðsdegi til samstarfsmanna sinna og óskað eftir því að vera fagfjárfestir. Umsóknina undirritaði hann 17:05 og var hún samþykkt þremur mínútum síðar. Ljóst sé að eignir þessa aðila, umfang og fjölda viðskipta, uppfylli ekki skilyrði. Íslandsbanki viðurkenndi það að þessi starfsmaður hafi ekki uppfyllt skilyrði hvað fjárhæðarmörk varðar.
Segir um þetta tilvik í sáttinni:
„Við greiningu gagna sem málsaðili hefur lagt fram og matið byggir á eru m.a. 28 viðskipti með hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóðum að fjárhæð 15.000 krónur. Þá eru tvenn viðskipti mjög óvenjuleg að umfangi en um er að ræða kaupa á hlutdeildarskírteinum í [upplýsingar afmáðar] að fjárhæð 27,8 milljónir króna hinn [upplýsingar afmáðar] og sala á hlutdeildarskírteinum í sama sjóði að fjárhæð rúmar [afmáð] milljónir króna [afmáð]. Þessi tvenn viðskipti notar málsaðili til þess að reikna heildarveltu og meðalfjárhæð viðskipta.“
Tilvik 8
Hér er eins um að ræða aðila sem tengist bankanum. Sá sótti um að vera flokkaður sem fagfjárfestir klukkan 21:10 á útboðsdaginn og var umsóknin samþykkt sex mínútum eftir að hún var send. Bankinn hafi á fyrri stigum athugunar fjármálaeftirlitsins ekki lagt fram nein gögn til að staðfesta verðbréfaeign og innistæður aðilans, og ekki heldur gögn um skuldastöðu. Hefði ekki átt að samþykkja skráningu sem fagfjárfestir.
Í ofangreindum átta tilvikum hafi félög og einstaklingar verið flokkuð sem fagfjárfestar án þess að uppfylla minnst tvö af þremur skilyrðum laga fyrir slíkri skráningu.
Fjármálaeftirlitið tekur fram að það hafi vakið athygli eftirlitsins hversu margir fjárfestar hafi óskað eftir flokkun sem fagfjárfestar í aðdraganda útboðsins, á meðan á því stóð og allt fram að uppgjöri viðskiptanna. Af tölvupóstum starfsmanna Íslandsbanka sjáist að þeir hafi í mörgum tilvikum haft frumkvæðið að eða hvatt almenna fjárfesta til að óska eftir því að vera skráðir sem fagfjárfestar. Hafi starfsmenn Íslandsbanka haft samband við 21 viðskiptavin og hvatt til að sækja um breytta skráningu til að geta tekið þátt í útboðinu.
Forstöðumaður hjá Íslandsbanka hafi sent 10 viðskiptavinum tölvupóst sem voru flestir svohljóðandi:
„Sæl/sæll [nafn forsvarsmanns], Langar að benda þér á neðangreinda umsókn í tengslum við að félagið þitt [nafn fyrirtækis] yrði flokkað sem fagfjárfestir. Bið þig um að skoða það á morgun og hafa samband við [nafn starfsmanns málsaðila] og [nafn starfsmanns málsaðila] (cc-d) til að framkvæma það.“
Þessir tölvupóstar hafi verið sendir milli 21:33 og 23:53 daginn fyrir útboðið. Þar með hafi Íslandsbanki haft frumkvæðið að og hvatt til að viðskiptavinir sæktu um að fá flokkun.
Sami forstöðumaður hafi sent tveimur viðskiptavinum eftirfarandi klukkan 00:04 aðfaranótt útboðsins.
„Sælir strákar, gaman að hitta ykkur í dag þó svo ég hafi þurft að hlaupa í fyrra fallinu. Þar sem við ræddum aðeins um Íslandsbanka þá skoðaði ég aðeins kerfin í dag og hjó eftir að félögin ykkar [nafn fyrirtækis] eru ekki sett upp til að eiga verðbréfaviðskipti hjá bankanum. hér að neðan eru allar upplýsingar til að setja félögin upp með rafrænum hætti auk þess að sækja um að félögin verði flokkuð sem fagfjárfestir (gerð krafa um það í sumum útboðum). Ekki hika við að hafa samband við [nafn starfsmanns málsaðila] og [nafn starfsmanns málsaðila] (bæði í CC) ef eitthvað er óljóst varðandi uppsetninguna.“
Klukkan 04:12 um nóttina hafi forstöðumaðurinn sent tölvupóst á fjármálastjóra viðskiptavinar og bent honum á að sækja um breyta skráningu. Samskipti morguninn eftir hafi sýnt að sá viðskiptavinur uppfyllti ekki skilyrði. Forsvarsmaður þess hafi þá sent inn umsókn fyrir eigið félag og spurt hvort það gæti verið fagfjárfestir. Forstöðumaðurinn hafi þá sent öðrum starfsmanni bankans tölvupóst og spurt hvort búið að væri að græja þetta fyrir téð félag. Starfsmaður sá hafi svarað því til að skilyrði væru ekki uppfyllt, en hann ætlaði að senda þá inn umsókn fyrir félag D sem uppfyllti skilyrði um eignir, en ekki um færslufjölda og starfsreynslu. Ætlaði starfsmaðurinn að hafa samband við forsvarsmann félagsins og „kanna hvort hann geti gefið eitthvað meira kjöt á beinin varðandi starfsreynsluna.“
Í sex tilvikum þeirra sem greint er frá hér að ofan hafi Íslandsbanki átt frumkvæðið að breyttri skráningu. Forstöðumaður hjá Íslandsbanka hafi sent tölvupóst á erlenda umsjónaraðila útboðsins daginn áður en það fór fram. Þar gerði hann athugasemd við drög að tilkynningu Bankasýslunnar um upphaf útboðsins og vildi að hugtakið „hæfir“ fjárfestar yrði fjarlægt svo ekki væri verið að takmarka hvaða aðila Íslandsbanki gæti haft samband við.