Eins og DV greindi frá í gær þá vakti spjall tveggja starfsmanna Reykjavíkurborgar sem stóð yfir á meðan fundi íbúaráðs Laugardals stóð þann 12. júní síðastliðinn mikla athygli.
Á meðan fundinum stóð áttu Eiríkur Búi Halldórsson, verkefnastjóri verkefnisins Hverfið mitt sem var viðstaddur fundinn, og Guðný Bára Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Lýðræðis- og mannréttindastofu borgarinnar í samskiptum í gegnum Facebook. Fundurinn var sýndur beint á Youtube-síðu borgarinnar og upptaka af honum var aðgengileg á síðunni þar til í gær.
Eiríkur, sem ritaði fundargerðina, varpaði skjámynd af tölvuskjá sínum á Youtube-síðuna þannig að öll sem horfðu á útsendinguna og upptökuna gátu séð hvað fram fór í tölvu hans á meðan fundinum stóð.
Hann var með á skjá sínum meðal annars fundargerð síðustu funda ráðsins og fyrirspurn um stöðu leikskólamála sem Íbúasamtök Laugardals lögðu fyrir fundinn. Eiríkur virðist hins vegar ekki hafa áttað sig á því að á skjámyndinni af skjánum hans mátti einnig sjá Facebook-spjall hans við Guðnýju.
Í spjallinu lagði Guðný nokkuð fast að Eiríki að hefta eins og mögulegt væri umræðu á fundinum um stöðu leikskólamála í hverfinu. Virtust þau sammála um að best væri að sem mest þögn ríkti um þetta viðfangsefni sem lengi hefur verið til umræðu meðal íbúa Laugardals sem og íbúa annarra hverfa í Reykjavík.
Nánar má lesa um spjall þeirra í frétt DV frá því í gær:
Þegar frétt DV var birt í gær var upptakan af fundinum enn aðgengileg á Youtube-síðu borgarinnar. Hún var í kjölfarið fjarlægð af síðunni en hefur nú verið gerð aðgengileg aftur en með þeim breytingum að skjámyndin sem sýndi það sem fram fór á tölvuskjá Eiríks hefur verið hulin með gráum fleti. Þar af leiðandi fá íbúar borgarinnar nú að sjá takmarkaða útgáfu af því sem fram fór á fundinum sem átti að vera öllum opinn.