Myndband af sorphirðu í Kópavogi hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum í gær og í dag, en í því má sjá hvar öskubíll er að tæma ruslatunnur, nema hvað að bæði svarta tunnan og þær bláu eru tæmdar í sama bíl, en eins og flestir vita er bláa tunnan fyrir pappír, eða fyrir bæði pappír og plast.
Sjá einnig: Athyglisvert myndband úr Kópavogi vekur upp áleitnar spurningar um endurvinnslu og flokkun á sorpi
Í yfirlýsingu sem Íslenska gámafélagið sendi fyrir stuttu á fjölmiðla segir:
Í myndbandi sem gengur á samfélagsmiðlum af sorphirðu Íslenska gámafélagsins í Kópavogi sést hvar sótt er í einn bíl pappír, pappi og plast. Réttu verklagi er fylgt við söfnunina.
Í mörgum sveitarfélögum er unnið að aðgreiningu á pappír og plasti og á það við um Kópavog líka. Unnið er að innleiðingu þess kerfis og hluti af því er aðgreining í tunnur. Að auki fer svo fram flokkun hjá Íslenska gámafélaginu.
„Við erum afar stolt af faglegu flokkunar- og endurvinnsluferli okkar. Ef rýnt er í myndbandið sem fór í umferð sést að ekki er verið að sækja almennan úrgang, heldur það efni sem áður fór í græntunnuna, sem víða þekkist,“ segir Jón Þórir Frantzson, forstjóri Íslenska gámafélagsins.
Gert er ráð fyrir að innleiðingu á nýju flokkunarkerfi í Kópavogi verði lokið innan átta vikna og verður þá sérsöfnun á úrgangsflokkunum fjórum sem undir eru, plastumbúðum, pappír og pappa, matarleifum og blönduðum úrgangi.
Myndbandið er tekið upp í Þingahverfinu í Kópavogi sem var með fyrstu hverfum til að fá nýja kerfið, en íbúar í Kópavogi hafa hingað til verið með eina svarta tunnu fyrir almennt sorp og aðra bláa tunnu fyrir pappír, pappa og plast.
Jón Þórir svarar fyrirspurn Vísis í morgun, þar tekur hann þó ekki fram að svarta tunnan hafi innihaldið það sem átti að fara í grænu tunnuna.
„PR-lega séð hefði ábyggilega verið betra að losa á sitthvorum bílnum út af svona myndböndum, sem eru ódauðleg. En kerfið er ekki lagt af stað,“ segir Jón Þórir um myndbandið og fullvissar fólk um að það sé mikill tilgangur með flokkun sorps. Umtalsverð verðmæti séu í því.
„Bráðlega getum við hætt að urða ruslið í Álfsnesi. Við búumst við því að útflutningur á pappír, pappa og plasti geti aukist um þrjátíu prósent við þessa flokkun hjá okkur. Það eru nokkur hundruð skipagámar á ári,“