Séra Karl V. Matthíasson, fyrrum alþingismaður, var hætt kominn á dögunum þegar hann féll í sjóinn við höfnina á Arnarstapa. Þetta kemur fram í frétt á vefmiðlinum Auðlindin. Karl, sem er 71 árs gamall var að klöngrast milli báta eftir róður, þegar óhappið átti sér stað.
„Ég var búinn að vera á sjó í 12 tíma og var dauðþreyttur. Einbeitingin var ekki mikil en ég var búinn að klifra yfir sex báta. Ég var ekki með neitt til að halda mér í þegar mér skrikaði fótur og datt á bólakaf í sjóinn,“ segir hann í samtali við vefmiðilinn.
Karl hefur stundað róður um árabil og svo heppilega vildi til að félagi hans, Birkir Atlason, var skammt frá og varð var við fallið. „Hann er yngri en ég og liprari. Hann gat klifrað til baka og teygt sig niður til mín. Hann hélt í mig þar til aðrir menn komu til aðstoðar og hjálpuðu mér upp,“ segir Karl.
Hann segist fullviss um að ef Birkir hefði ekki orðið hans var hefði getað farið illa því hann hefði ekki haft þrek til að synda út fyrir bátana í höfninni til þess að komast að björgunarstigum þeirra. Hann þakkar félaga sínum og guði almáttugum lífsbjörgina. „Hann bjargaði lífi mínu,“ segir Karl.
Í umfjöllun Auðlindarinnar kemur fram að slysið sé afleiðing af bágborinni hafnaraðstöðu víða á Vesturlandi sem er vinsælasta strandveiðisvæði landsins. Hafnirnar séu þéttsetnar og margir bátar bundnir saman sem gerir það að verkum að sjómenn þurfi oft á tíðum að klifra yfir 12 til 15 báta til að komast á sjó á morgnanna, eða upp á bryggju eftir róður. Þá séu mörg dæmi þess að sjómenn sofi í bátum sínum og það vekur upp spurningar um brunavarnir og önnur öryggismál.
Haft er eftir Matthíasi Páli Gunnarssyni, slökkviliðsstjóra í Snæfellsbæ, að afar illa geti farið ef eldur kviknar í bát sem er í langri röð annarra plastbáta. Þá lýstir ónefndur heimamaður að höfnin á Arnarstapa sé „tifandi tímasprengja“.
Hér má lesa greinina í heild sinni á vef Auðlindarinnar.