fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

Sævar Þór opinberaði erfiða æsku sína og kynferðislega misnotkun – Útilokaður af fjölskyldunni – „Mikil sjálfsvinna að gera svona alvarleg áföll upp“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 18. júní 2023 17:59

Sævar Þór Jónsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sævar Þór Jónsson lögmaður gaf árið 2021 út bókina Barnið í garðinum, þar sem hann segir frá æsku sinni, erfiðum heimilisaðstæðum, drykkju, neyslu og framhjáhaldi, og alvarlegri kynferðislegri misnotkun sem hann var beittur átta ára gamall þegar þrír einstaklingar nauðguðu honum í vöruskemmu.

Sævar Þór hefur áður stigið fram með sögu sína í viðtölum. „Ég hlífi engum. Ég hlífi ekki sjálfum mér, ég hlífi ekki fólkinu mínu og ég bara segi hlutina eins og þeir eru,“ sagði Sævar í viðtali í Íslandi í dag vorið 2021. Í kjölfar þess að stíga fram opinberlega missti Sævar Þór sambandið við fjölskyldu sína. 

Sjá einnig: Sævar var útilokaður frá eigin fjölskyldu – Þurfti að „læðast í felum“ í jarðarför föður síns

„Þetta er mín saga. En ég segi líka aftur að hver og einn verður að gera það upp við sjálfan sig hvort fólk vill opinbera hlutina eða ekki. Því þeim geta fylgt afleiðingar eins og hefur verið hjá mér. Það sem þessi reynsla hefur í raun kennt mér er að það er ekkert sjálfsagt í lífinu.  Lífið er samt það stutt að ég tel mikilvægt að við reynum að lifa því eins heiðarlega og hægt er hvað okkur sjálf varðar, það er að segja að vera heiðarleg við okkur sjálf um hvað við erum,“

segir Sævar Þór í viðtali við Vísi í dag, þar sem hann ræðir hvaða áhrif það hefur haft á hann og samband hans við fjölskyldu hans að segja opinberlega frá.

„Það þarf reyndar hver og einn að gera það upp við sig hvort hann eða hún segir frá. Það er ekki mitt að segja fólki að segja frá. Þetta er líka erfið sjálfsvinna að fara í gegnum. Ég til dæmis veit hver einn af mínum gerendum er og það tók mig mjög langan tíma að takast á við það. Það felst í því mikil sjálfsvinna að gera svona alvarleg áföll upp, enda breytti þetta mér mikið og ég varð aldrei sama barn eftir að þetta gerðist. Þetta veit ég reyndar að margir í fjölskyldunni hafi áttað sig á. Ég breyttist sem barn og þarna var loksins komin skýring. Þannig að í fjölskyldunni minni hefur það verið beggja blands, sumir styðja mig á meðan aðrir hrista hausinn eða trúa því ekki.“

Og alltaf elti skugginn

„Sæv­ar Þór Jóns­son lögmaður var gróf­lega mis­notaður kyn­ferðis­lega af þrem­ur ókunn­ug­um ein­stak­ling­um þegar hann var aðeins átta ára. Í stað þess að segja frá þagði hann og gróf at­vikið dýpra og dýpra í sál­ar­líf sitt. Upp­gjörið kom ekki fyrr en um þrjá­tíu árum síðar en þá sá Sæv­ar að hann yrði aldrei heill maður nema hann tæk­ist á við skugga fortíðar sinn­ar. Það sem hjálpaði hon­um mest í þeirri glímu var fyr­ir­gefn­ing­in. Hann hef­ur fyr­ir­gefið níðing­un­um.

Hann er átta ára gam­all, einn að leik í vest­ur­bæn­um í Reykja­vík. Sak­laus, sæll og glaður. Illska heims­ins eins óviðkom­andi hon­um og hún get­ur mögu­lega orðið. Á vegi hans verður ókunn­ug kona sem biður hann vin­gjarn­lega um að koma með sér inn í gam­alt vöru­hús í grennd­inni. Hann hreyf­ir eng­um and­mæl­um enda van­ur því að geta treyst full­orðnu fólki. Inni í vöru­hús­inu bíða hans tveir ókunn­ug­ir karl­menn og fljótt kem­ur í ljós að fólkið hef­ur ekk­ert gott í huga. Í sam­ein­ingu nauðgar það drengn­um, karl­arn­ir tveir og kon­an. Setja hann að því búnu aft­ur út á götu. Barnæsk­unni fá­tæk­ari.“

Þannig hefst viðtal við Sævar Þór í Morgunblaðinu árið 2019, með yfirskriftinni Og alltaf elti skugginn, en Orri Páll Ormars­son var til­nefnd­ur fyrir Viðtal árs­ins.

Saknar móður sinnar

„Eftir að ég sagði frá þessu fyrst í viðtali við Moggann kom mamma til mín. Með þau skilaboð frá pabba að honum fyndist nú algjör óþarfi að vera að bera svona mál á torg. Þetta er viðhorf margra. En það er heilun þolandans sem skiptir meira máli og mikilvægt að hver og einn fái að ákveða það sjálfur hvort viðkomandi vill stíga fram og segja frá eða ekki. Mitt val var að segja frá og ég sé ekki eftir því. Ég sakna mömmu rosalega mikið. Ég elska mömmu rosalega mikið. Og sakna hennar. Þegar verið var að gera upp arfinn eftir pabba bað ég lögmanninn minn um að koma þeim skilaboðum til mömmu í gegnum lögmanninn hennar, að ég elskaði hana mjög mikið,“

segir Sævar Þór við Vísi, en faðir hans lést stuttu eftir viðtalið í Morgunblaðinu og segist hann ekki hafa verið látinn vita af andlátinu og ekki hafa fengið að fara í jarðarför föður síns. „Ég fékk síðan þau skilaboð til baka að mamma elskaði mig líka mjög mikið og bæði fyrir mér daglega. Það þótti mér vænt um. En þarna er gott dæmi um hvernig tveir lögmenn sem tengjast málinu ekki neitt, eru milligöngumenn um að láta vita af því að við elskum hvort annað.“

Kvaddi föður sinn í einkaathöfn

Málamiðlunin var sú að Sævar Þór fékk að halda einkaathöfn þar sem hann kvaddi föður sinn. „Samkvæmt lögum í víðum skilningi eiga allir rétt á að mæta í jarðaför foreldra sinna. Hins vegar er það þannig að þegar að maður veit að fólkið vill mann ekki þar, þá langar manni ekki að fara. Þannig var það í mínu tilviki. Séra Sigurður Árni Þórðarson fyrrverandi prestur í Hallgrímskirkju kom með þessa hugmynd. Og ég var honum mjög þakklátur. Því að sonur okkar heitir í höfuðið á pabba og mér fannst mikilvægt að hann fengi tækifæri til að kveðja hann,“ segir Sævar Þór, sem segist búinn undir það að sama gerist þegar móðir hans, sem er háöldruð, falli frá. „Ég er bara sáttur við að henni líði sem best og að hlutirnir verði þá eins og fjölskyldunni finnst þægilegast. Þótt ég sakni hennar.“

„Já, ég hef alveg farið í gegnum það. Fór í gegnum það fram og til baka. Hvort ég hefði betur átt að sleppa þessu. Frekar átt að þegja,“ segir hann aðspurður um hvort hann sjái eftir að segja sögu sína. „En ég fann bara mjög sterka þörf hjá mér fyrir því að ég ætti að segja söguna og fylgdi þeirri sannfæringu eftir. Ég held að á endanum sé ekkert annað sem maður getur gert, en að standa á sínu og fylgja því sem okkar eigið hjarta segir,“

segir Sævar Þór aðspurður um hvort hann sjái eftir að segja sögu sína opinberlega. Segir hann hluta fjölskyldu hans ekki vilja horfast í augu við að kynferðisbrotið hafi átt sér stað. „Sem mér finnst furðulegt og hef meira að segja velt fyrir mér hvort ein skýringin sé sú að einhver annar í fjölskyldunni sé að fela sambærilegt gamalt leyndarmál.  Því ef svo er, getur verið skiljanlegt að bregðast illa við að ég sé að gera svona mál upp. En auðvitað er svona frásögn ekki uppspuni,“ segir Sævar Þór. Segir hann viðbrögð annarra hafa verið ólík, margir hafi sýnt honum stuðning, en lögmannsstéttin hafi brugðist við á neikvæðari hátt en hann átti von á.

Viðtalið við Sævar Þór má lesa í heild sinni hér, en hann segir meðal annars frá að hann hafi óvart eignast nýja fjölskyldu þegar hann kynntist nýlega frænku sinni, sem hann vissi ekki af. Sævar Þór segir jafnframt frá edrúmennskunni, hvernig hann dró að opinbera samkynhneigð sína í margra ára sambandi þeirra Lárusar, og syninum, sem er ættleiddur og áfallabarn. 19. desember 2013 hittu þeir soninn í fyrsta sinn á vistheimili. „En svo leið að jólum og þá kom ekki til greina að hann væri á vistheimilinu. Fyrstu jólin okkar saman kom hann sem lítil jólagjöf heim til okkar.“ 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Auglýsingar 20Bet að gera Íslendinga sturlaða – „Ég er við það að hætta alveg að horfa á YouTube“

Auglýsingar 20Bet að gera Íslendinga sturlaða – „Ég er við það að hætta alveg að horfa á YouTube“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Illugi furðar sig á Mannanafnanefnd – „Ætti að vera fyrsta sparnaðarleið Kristrúnar Frostadóttur að leggja niður þessa idjótísku nefnd“

Illugi furðar sig á Mannanafnanefnd – „Ætti að vera fyrsta sparnaðarleið Kristrúnar Frostadóttur að leggja niður þessa idjótísku nefnd“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bryggjan brugghús komið á sölu

Bryggjan brugghús komið á sölu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur