fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fréttir

Max er nauðsynlegt hjálpartæki Más – Himinhár kostnaður við að koma heim og mega aðeins fljúga fyrir kl. 16 virka daga – „Ekki dæma mig í margra ára útlegð frá fjölskyldu minni“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 18. júní 2023 13:15

Vinirnir Már og Max

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Már Gunnarsson, tónlistarmaður, hélt haustið 2022 til náms í Bretlandi. Með honum í för var hjálparhundurinn hans Max, en Már er blindur og því háður aðstoð félaga sína. Komu þeir heim til Íslands fyrir nokkru í sumarfrí og segir Már að vegna himinhás kostnaðar við að flytja Max heim með sér og óliðlegheita og engra svara frá MAST og ráðuneytum sjái hann fram á að þurfa að láta besta vin sinn frá sér.

„Ég vissi fyrirfram að þetta yrði áskorun fyrir okkur að koma heim. Þannig að strax í janúar byrjaði ég að heyra í ráðuneytum, hafa samband við ráðherra og vekja athygli á því að við værum að koma heim og bara hvernig ætlið þið að taka á móti okkur,“ segir Már í samtali við DV. Már, sem er 23 ára gamall, fæddist með sjúkdóm í augnbotnum sem gerði það að verkum að sjónin minnkaði með árunum þar til hann varð blindur. 

Félagsmálaráðuneytið stakk upp á að sækja styrk til góðgerðarsamtaka

Már segist hafa fengið lítið af svörum tilbaka. „Félagsmalaráðuneytið sagði mér að tala við Lions; „geturðu ekki sótt um styrk hjá þeim eða Blindrafélaginu,“ sem mér þykir ótrúlega sorglegt að þau bendi mér á góðgerðarsamtök sem lögðu mikið á sig til að safna fyrir Max og ætlast bara til þess að þau greiði þetta líka,“ segir Már og bætir við að Félagsmálaráðuneytið eigi hundinn í rauninni þar sem Sjónstöðin heyrir undir það ráðuneyti.

„MAST heyrir undir Matvælaráðuneytið og ég var í mestum samskiptum við þau um hvernig ég ætti að flytja Max inn. Þegar ég nefndi kostnaðinn þá sagði MAST mér að heyra í Matvælaráðuneytinu sem svarar mér ekki.“ 

Max er skilgreindur sem hjálpartæki í eigu hins opinbera, og kostaði það Má um 600 þúsund krónur að taka hann með sér heim í sumarfrí. Már þarf að fljúga heim á virkum degi og lenda fyrir klukkan 16:

„Ástæðan fyrir því að við megum bara koma heim milli kl. 9-16 virka daga er að MAST vinnur bara milli kl. 9-16. Til að uppfylla kröfur MAST og mega koma með Max heim og í heimasóttkví. Þurfum við að láta dýralækni úti fylla út allskonar gögn og taka sýni af hinu og þessu. Einnig þurftum við að sérpanta eitthvað lyf til að gefa Max. Umrætt lyf hefur dýralæknastofan á Englandi hætt að nota því það er orðið gamalt og nýtt og betra lyf komið í staðinn sem MAST samþykkir ekki. Við þurftum að greiða fyrir innflutningsgjald til MAST og að fyrirskipan MAST ráða utanaðkomandi lækni til að fylgjast með heimasóttkvínni, þó að þónokkrir dýralæknar sem vinna hjá Mast þekkja þeirra eigin reglur og kröfur. Einnig þar sem Mast skikkar okkur að lenda á virkum degi á milli kl. 9 til 16 þurftum við að kaupa flugmiða fyrir 110 þúsund krónur í staðinn fyrir 30 þúsund krónur með kvöldvélinni.

Hér neðst í greininni má sjá tölvupóst sem Már sendi til MAST fyrir nokkrum vikum. Þar bendir hann á kostnað við að flytja Max til landsins og bendir á að einstaklingar sem þurfa á hjólastól eða slíkum hjálpartækjum að halda þurfi ekki að greiða fyrir að flytja þau með sér. Einnig nefnir Már þar greiðslu upp á 2000 pund, en hann segir í samtali við DV að sú tala hafi einungis hækkað vegna aukins kostnaðar. 

Már og Max
Mynd: Facebook

Fékk sjónina aftur með Max

„Ég á erfitt með að lýsa í orðum hve Max hefur aukið við lífsgæði mín og tilveru allt frá fyrsta degi. Saman höfum við sigrast á ótal áskorunum á ferðum okkar hérlendis og erlendis,“ segir Már í færslu á Facebook þar sem hann vekur athygli á málinu. 

„Eftir að hafa gengið um óöruggur í myrkrinu án þess að gera mér grein fyrir hversu svart það raunverulega var öðlaðist ég nýtt líf. Ég eignaðist minn besta vin sem hefur af heilum hug gefið mér aðgang að agunum sínum. Með honum er lífið stórkostlegt ferðalag sjálfsöryggis og gleði hvern einasta dag. Ég er að tala um leiðsöguhundinn Max.

Þess vegna er ég ekki einungis dapur heldur er mér verulega brugðið yfir því hve íslenskum stjórnvöldum stendur á sama um okkur. Stjórnvöld sem með vitund og vilja reisa hindranir sem verða mér óyfirstíganlegar í framtíðinni og gera mér ókleift að hafa Max hjá mér,“ segir Már.

Már segir í samtali við DV að hann muni stunda nám sitt erlendis minnsta kosti fjögur ár í viðbót. „Max er rosalega mikilvægur og ég gæti ekki hugsað mér að vera úti í þessum stóra heimi án þess að hafa hann með mér. Ef þetta leysist ekki þá á ég ekki annarra kosta völ en að láta Max frá mér sem væri skelfilegt.“

Í færslunni á Facebook bendir Már á að himinhár kostnaður komi í veg fyrir að hann getið komið árlega heim um sumar og jól með Max. Segist hann farinn að upplifa vonleysi og höfnun þar sem hann hefur þvælst um í kerfinu án þess að fá nokkra einustu hjálp. 

„Matvælaráðuneytið hunsar mig og Mast og Sjónstöðin benda á einhverja aðra. Það er sorglegt að blindum einstaklingum sé mismunað svo grimmilega með þessum hætti. Okkur gert nánast ómögulegt að koma með augun okkar heim!

Ég upplifi það nú sem aldrei fyrr, hve stjórnvöld bera lítla virðingu fyrir fötluðum. Við erum óumdeilt sett í neðsta þrepið. Ég vil ekki trúa því að nokkur stjórnvöld séu svo grimmlynd að ætla að taka frá mér ljósið og lífið sem Max hefur gefið mér. Að reisa það háan múr á milli okkar að hann verði ekki klifinn og ég aftur kominn í myrkrið sem Max hefur lýst upp fyrir mig. Blindir eru líka fólk, í okkur býr mannauður eins og öllum öðrum.

Ekki dæma mig í margra ára útlegð frá fjölskyldu minni og fallega landinu mínu þrátt fyrir að ég sé erlendis í háskólanámi. Ekki taka augun mín frá mér. Ekki setja mig í þá aðstöðu að þurfa að velja þar á milli.“

Bréf Más til MAST:

Sæl Hrund.

Ég held að það sem við erum að glíma við er að það eru ekki fordæmi fyrir því að blindir Íslendingar eru að ferðast erlendis með leiðsöguhund, og kerfið kann ekki að vinna úr þessu!

Í lögum alþingis stendur vissulega-

Þingskjal 1831, 151. löggjafarþing 588. mál: þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnaskerðingu (leiðsöguhundar). Lög nr. 106 25. júní 2021. Lög um breytingu á lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, nr. 160/2008 (leiðsöguhundar).

1. gr. Á eftir II. kafla laganna kemur nýr kafli, II. kafli A, Leiðsöguhundar, með einni nýrri grein, 8. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi: Leiðsöguhundar. Ríkissjóður skal tryggja árlega fjármagn til að afla, þjálfa og flytja inn leiðsöguhunda til samræmis við eftirspurn hverju sinni. Þjónustu- og þekkingarmiðstöð sér um öflun leiðsöguhunda í samstarfi við Blindrafélagið. Notendur skulu ekki bera kostnað sem hlýst af öflun og þjálfun slíkra hunda eða vegna flutnings slíkra hunda til og frá landi hverju sinni.

Í öðrum reglum segir, Má notandi fara með leiðsöguhund á alla staði sem opnir eru almenningi. Notandi á ekki að þurfa að borga undir leiðsöguhundinn þegar ferðast er með hann í samgöngutækjum T.d í flugvél.

https://midstod.is/frodleikur-og-baeklingar/ymislegt-um-leidsoguhunda/

Ég get hreinlega ekki komið heim til Íslands án hjálpartækisins. Og miðað við að notendur meiga fara hvert sem er opið almenningi, notendur bera ekki kostnað af flutningi til eða frá landi, og notendur bera ekki kostnað af því að ferðast í samgöngutækjum.

Mér þykir það augljóst, með því að krefjast greiðslu fyrir það að koma með hjálpartæki (í ríkiseigu) aftur heim til Íslands og að fara framá dýralæknisþjónustu og láta blinda notendur taka á sig kostnaðinn- jafngyldir því að meina okkur aðgang heim nema við borgum!

Núþegar hef ég greitt um 1000 pund í dýralækniskostnað hér úti til að uppfylla reglur Mast, þá á eftir að greiða Mast fyrir leyfið og eftirlit dýralæknis á Íslandi. Líklega bætast þarna við önnur 1000 pund. Ekki er fólk rukkað fyrir að koma með hjólastóla til landsins eða önnur hjálpartæki. Því er það með öllu óeðlilegt og siðlaust að blindir þurfa að reikna með 350000kr aukalega í ferðalögum.

Ég kem til með að læra erlendis næstu 5 árin, er þetta eitthvað sem ég mun þurfa að greiða á hverju ári? Það eru gríðarlegir peningar sem bætast ofan á skólagjöld uppihald og annan tilheyrandi kostnað sem Sjáandi einstaklingar lenda ekki í. Það er mismunun! Að mínu mati!

Ég vil vísa til jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem gerir stjórnvöldum óheimilt að beita mismunun, til dæmis á grundvelli fötlunar. Ég vona að þetta varpi ljósi á mitt sjónarhorn og þau lög sem eru til staðar í dag og til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að ryðja þessari hindrun úr vegi.

Hlakka til að heyra ykkar mat og álit. Már

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Árekstur þriggja bíla við Hamraborg – Dælubíll og þrír sjúkrabílar sendir á vettvang

Árekstur þriggja bíla við Hamraborg – Dælubíll og þrír sjúkrabílar sendir á vettvang
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Fjárfestar hafa sölsað undir sig tæplega 90% seldra íbúða á árinu – „Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt“

Fjárfestar hafa sölsað undir sig tæplega 90% seldra íbúða á árinu – „Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt“
Fréttir
Í gær

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins styður ekki Coda Terminal verkefnið við Vellina – Þyrfti aðkomu minnihlutans til að koma málinu í gegn

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins styður ekki Coda Terminal verkefnið við Vellina – Þyrfti aðkomu minnihlutans til að koma málinu í gegn
Fréttir
Í gær

Líkfundur á Tenerife í tengslum við leitina að Jay Slater

Líkfundur á Tenerife í tengslum við leitina að Jay Slater
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Harmleikur í hitabylgju – Gleymdi tveggja ára dóttur sinni úti í bíl með hræðilegum afleiðingum

Harmleikur í hitabylgju – Gleymdi tveggja ára dóttur sinni úti í bíl með hræðilegum afleiðingum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Guðrún ætlar ekki að flytja inn í Biskupsgarð – Agnes flytur út og glæsihýsið verður selt

Guðrún ætlar ekki að flytja inn í Biskupsgarð – Agnes flytur út og glæsihýsið verður selt