Ástæðan fyrir því að hinn þekkti athafnamaður, Sigmar Vilhjálmsson, hefur ákveðið að taka upp bíllausan lífsstíl í sumar og fara allra ferða sinna á reiðhjóli er sú að hann missti ökuprófið, samkvæmt frétt Vísis, þar sem byggt er á viðtali úr Bakaríinu á Bylgjunni.
Sigmar rekur þar kosti og galla langra hjólreiðaferða og segir svo um hjólreiðar sínar til og frá vinnu á föstudaginn:
„Ég viðurkenni það að ég er með ögn rasssæri eftir daginn í gær,“ segir hann. Ég ætla að vona að þetta sé svona eins og með harðsperrurnar, þegar maður fær harðsperrur þá þarf maður bara að fara út að hlaupa til að losa sig við þær og ég er að fara aftur að hjóla.“
Undir lok viðtalsins fékk Sigmar þessa spurningu:
„Simmi, það er ekki lygaramerki á tánum og svartur blettur á tungunni – misstirðu ekki bara prófið?“
Sigmar svaraði játandi. – Hann segir að hjólreiðar föstudagsins hafi gengið vel en þær aðstæður geti komið upp að erfitt sé að hafa reiðhjól sem eina farartækið:
„Ég held hins vegar, eftir gærdaginn, að þegar þú ert að vinna, það kemur eitthvað upp á og þú ert staddur á hjóli – það er ekkert rosalega þægileg staða, bara svo það sé sagt.“
Fram kemur í viðtalinu að hann verður aftur kominn á bíl í ágúst.