Rússneskur stjórnmálamaður á fimmtugsaldri, Pyotr Kucherenko, lést skyndilega um helgina eftir að hafa orðið veikur í flugvél á heimleið frá Kúbu þar sem hann var í opinberri heimsókn ásamt rússneskri viðskiptasendinefnd. Veikindi Kucherenko, sem gegndi embætti vararáðherra vísinda- og mennta, voru mjög skyndileg og í opinberri tilkynningu kemur fram að flugvélinni hafi verið lent í borginni Mineralnye Vody þar sem ráðherranum var komið undir læknishendur en allt kom fyrir ekki.
Þetta er eitt af mörgum dularfullum dauðsföllum í hópi rússnesku stjórnmála- og viðskiptaelítunnar. Í umfjöllun CNN kemur fram að rússneski blaðamaðurinn Roman Super, sem flúði frá Rússlandi skömmu eftir að stríðsátökin í Úkraínu hófust, fullyrti á Telegram síðu sinni að hann hafi rætt við Kucherenko skömmu fyrir flóttann og þar hafi stjórnmálamaðurinn hvatt hann til þess að flýja land því öryggi hans væri ekki tryggt.
Super fullyrt þá að hann hafi spurt Kucherenko hvort að hann ætlaði að sjálfur að flýja Rússland en því hafi stjórnmálamaðurinn svarað á þessa leið: „Það er ekki lengur möguleiki. Þeir taka af okkur vegabréfin. Og það er enginn staður í veröldinni þar sem fólk verður ánægt með rússneskan ráðherra eftir þessa fasísku innrás.“
Sagði Super ennfremur að Kucherenko upplifði sig sem gísl og að hann keyrði sig áfram á þunglyndis- og róandi lyfjum en þrátt fyrir það ætti hann erfitt með svefn og liði hræðilega.
Annars rússneskur blaðamaður, Roman Anin, greindi frá því í nýliðinni viku að rússneskir stjórnmálamenn mættu ekki segja af sér embættum sínum. Sumir hefðu reynt en verið skipað að halda áfram. Dmitry Peskov, talsmaður rússnesku ríkisstjórnarinnar, brást við þessum tíðindum með því að segja að um falsfréttir væri að ræða.
Skyndilegt andlát Kucherenko er ekki fyrsta dularfulla dauðsfallið meðal rússnesku elítunnar. Að minnsta kosti þrettán valdamiklir auðjöfrar hafa svipt sig lífi eða látist með torkennilegum hætti undanfarið árið, þar af tengjast sex þeirra tveimur stærstu orkufyrirtækjum Rússland.
Sjá einnig: Enn lengist listinn – Rússneskur forstjóri lést – DV
Stjórnmálamaðurinn Pavel Antov 65 ára, sem auðgaðist á kjötvinnslu, lést í Indlandi í desember eftir að hafa fallið út um glugga af þriðju hæð hótels sem hann dvaldist á. Tveimur dögum fyrr hafði ferðafélagi hans og vinur, Vladimir Budanov, látist af völdum hjartaáfalls í sömu ferð. Budanov var með undirliggjandi hjartavandamál en indverska lögreglan úrskurðaði að andlát Antov hefði verið sjálfsvíg.
Þá lést Ravil Maganov, stjórnarformaður Lukoil, í byrjun september eftir að hafa dottið út um glugga á spítala í Moskvu. Nokkrum mánuðum fyrr hafði Alexander Subbotin, kollegi hans hjá Lukoil, fundist látinn í höfuborginni en dánarorsök hans var ekki gefin upp.