fbpx
Laugardagur 28.desember 2024
Fréttir

„Rjúfa vítahringinn sem upp er kominn, þar sem fólk hefur ekki efni á að borga fyrir húsnæði og halda heilsunni“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 1. maí 2023 15:38

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar Mynd: Baldur Kristjánsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar flutti 1. maí ræðu sína núna upp úr klukkan 15 í Portinu við Bankastræti 2. Á undan henni flutti Kristján Þórður Snæbjarnarson forseti Rafiðnaðarsambandsins og einn varaforseta Alþýðusambandsins einnig ræðu.

Kristrún fjallar í ræðu sinni meðal annars um valdeflingu fjöldans og virkni samstöðunnar. Segir hún sögu verkalýðshreyfingarinnar samofna sögu velferðarkerfisins á Íslandi og sögu Samfylkingarinnar. 

Verkalýðshreyfingin, líkt og Samfylkingin, skilur að velferðarkerfið er nauðsynlegur hluti af kjörum fólks. Efnahagslegur og félagslegur stöðugleiki þarf þrjá fætur til að standa á: ríki, verkalýðshreyfingu og atvinnurekendur. Sameiginleg ábyrgð, samtal og samvinna þarna á milli er órjúfanlegur hluti af uppbyggingu velferðarsamfélags,“ segir Kristrún og segir einn aðila hafa sagt skilið við sáttmálann, ríkið. „Ráðherrar segja að stjórnvöldum komi kjarabarátta ekki við – að staðan á vinnumarkaði tengist bara samskiptum tveggja aðila, ekki þriggja.“ 

Í ræðu sinni segir Kristrún skorta tilfinnanlega forystu í landið sem treystir sér til að brjótast út úr rammanum þegar kemur að húsnæðis- og heilbrigðismálum. Rjúfa vítahringinn sem upp er kominn, þar sem fólk hefur ekki efni á að borga fyrir húsnæði og halda heilsunni.“ 

Kristrún segir Samfylkinginu hafa einsett sér að rífa sig í gang og komast í ríkisstjórn. 

Við ætlum að endurreisa velferðarkerfið á Íslandi, fyrir fólkið sem hér býr. Og erum þegar byrjuð að undirbúa störf okkar í næstu ríkisstjórn.

Mynd: Aðsend

Ræðu Kristrúnar má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

SAMSTAÐA 

Kæru félagar — launafólk um land allt: 

Þessi dagur snýst um valdeflingu. Að valdefla fjöldann og virkja samstöðuna. Í 100 ár hefur íslenskt launafólk komið saman 1. maí til að setja fram kröfur sínar — í krafti samstöðu, til að fagna þeim sigrum sem unnist hafa og til þess að taka stöðuna fyrir framhaldið. Þetta gerum við hér í dag.  

Kæru félagar um land allt í verkalýðshreyfingunni og í Samfylkingunni – Jafnaðarflokki Íslands: Gleðilegan 1. maí! 

 II.

Ég vil byrja á að þakka Kristjáni Þórði Snæbjarnarsyni, forseta Rafiðnaðarsambandsins og einum af varaforsetum Alþýðusambandsins, fyrir kraftmikla ræðu. Og ekki síður fyrir farsæla forystu þegar á reyndi í stafni ASÍ: Þú steigst upp og stóðst þig í stykkinu — og nú er almennt álitið að þú hafir verið réttur maður á réttum stað á miklum ólgutíma í sögu íslenskrar verkalýðshreyfingar. Takk fyrir það! 

Við erum ánægð að vita af þér áfram í forystusveit ASÍ — sem ég bind miklar vonir við — og það var gott að sjá anda samstöðu ríkja á þingi sambandsins í síðustu viku. Það eru ærin verkefni framundan á ykkar vettvangi og vonandi mun verkalýðshreyfingin geta gengið sameinuð til samninga á almenna vinnumarkaðnum í haust. 

Mynd: Aðsend

III. 

Saga verkalýðshreyfingarinnar er samofin sögu velferðarkerfisins á Íslandi og sögu Samfylkingarinnar. Verkalýðshreyfingin, líkt og Samfylkingin, skilur að velferðarkerfið er nauðsynlegur hluti af kjörum fólks. Efnahagslegur og félagslegur stöðugleiki þarf þrjá fætur til að standa á: ríki, verkalýðshreyfingu og atvinnurekendur. Sameiginleg ábyrgð, samtal og samvinna þarna á milli er órjúfanlegur hluti af uppbyggingu velferðarsamfélags.  

Undanfarin ár hefur hins vegar einum fæti verið kippt undan stöðugleikanum; hlutverki ríkisins. Ráðherrar segja að stjórnvöldum komi kjarabarátta ekki við – að staðan á vinnumarkaði tengist bara samskiptum tveggja aðila, ekki þriggja.  

Einn aðili hefur sagt skilið við sáttmálann sem er grundvöllur velferðarsamfélags. 

Þetta er alvarlegur forsendubrestur. Því að á bak við réttindi fólks, sem verkalýðshreyfingin berst ötullega fyrir, eru skyldur.  

Skyldur gagnvart samfélaginu, m.a. í formi þátttöku í að standa undir velferðarkerfinu okkar og í formi trausts á sameiginlegum sjóðum okkar. Við þurfum að tala um hvað það er sem við skuldum hvert öðru sem samfélag, hvað það er sem gefur lífi okkar merkingu.  

Hvort upplifir fólk mikilvægara; aðeins meira fjárhagslegt ríkidæmi eða að vera stoltur af þátttöku í verkefni sem er að byggja upp fyrirmyndarsamfélag? Um það snýst jafnaðarmennskan, og um það snýst verkalýðsbaráttan; að virkja samstöðuna, valdefla fjöldann og standa að baki umbótum.  

En jafnaðarfólk er ekki í forystu í landinu. Og fyrir þessu finnur venjulegt fólk, fyrir þessu finnur verkalýðshreyfingin svo sannarlega. Ríkisstjórn síðasta áratugar hefur alið á vantrausti á velferðarkerfinu okkar og rofið þannig sambandið milli réttinda og skyldna.  

Þetta er að mínu mati stærsta vandamál okkar tíma; pólitísk forysta sem rýfur samstöðuna.  

Ábyrgð okkar í Samfylkingunni á tímum sem þessum er mikil – að ala á von og trú fólks um betra samfélag, en fyrst og fremst, að ávinna okkur traust sem hefur farið þverrandi.  

Munum á degi sem þessum að það fer enginn neitt einn. Sú frásögn sem hefur tröllriðið íslenskri pólitík á undanförnum áratugum, að hver sé sinnar gæfusmiður, frásögn sem hefur fundið sér stað innan flestra flokka hér á landi með einum eða öðrum hætti, hefur snúið fókusnum frá samfélaginu og að einstaklingnum.  

Skilaboðin til þeirra sem hafa setið eftir eru að þau séu þar sem þau eru sjálfs sín vegna. Verri eru þó skilaboðin sem þeim sem hefur vegnað vel, fjárhagslega og félagslega, hefur borist: að þau skuldi engum neitt. En á bak við þessa einstaklinga er samfélag.  

Þeim sem hefur vegnað vel þurfa að bera meiri ábyrgð í verkefninu sem framundan er; að endurreisa velferðarkerfið hér á landi. Og þeir eiga að vera stoltir af því að sinna því verkefni.  

Við þetta er vert að staldra. Því það verða alltaf einhverjir sem vilja ekki taka þátt, vilja ekki vera með. Vilja frekar hólfa sig af. En við megum ekki láta þá einstaklinga stoppa okkur. Við jafnaðarfólk viljum valdefla fjöldann, líkt og verkalýðshreyfingin.  

Hættum að tvístra okkur á jaðrinum, sameinumst um breiðu línurnar.  

Það er vegferðin sem Samfylkingin er á í dag. Við viljum sameinast um það sem mestu skiptir. Verkefnið snýst um að horfa á samfélagið hverju sinni, hvar þörfin er mest og forgangsraða því. Það er ekki flóknara en svo. Þetta snýst um að hvert og eitt okkar taki ábyrgð á stöðunni og geri eitthvað í henni.  

Mynd: Aðsend

IV.

Kæru félagar. 

Þess vegna höfum við í Samfylkingunni forgangsraðað í málefnastarfinu okkar. Þess vegna sækjum við innblástur til fólksins í landinu – veitum fjöldanum, almenningi athygli og gefum þeim nú orðið.  

Stóru verkefni okkar tíma snúa m.a. að húsnæðis- og heilbrigðismálum. Sú staða sem er komin upp í þessum undirstöðuþáttum okkar samfélags er endapunktur umræðu sem hefur verið í gangi í 40 ár. Fólk er fast í gömlu líkani – allt snýst um að máta vandann við módel sem byggir á einstaklingnum ekki samfélaginu. Það skortir tilfinnanlega forystu í landið sem treystir sér til að brjótast út úr þessum ramma. Rjúfa vítahringinn sem upp er kominn, þar sem fólk hefur ekki efni á að borga fyrir húsnæði og halda heilsunni.  

Með því að fjarlægjast samfélagið og kynda undir einstaklingshyggju hefur forystufólk ríkisstjórnarinnar skapað tvíhliða spennu milli launafólks og atvinnurekenda, þar sem hækkanir munu halda áfram að elta skottið á sér. Alið er á sambandinu um mín laun og þinn kostnað, ekki heildarsamhengi hlutanna. Ábyrgðalaus loforðaflaumur sem stenst ekki, og yfirlýsingar um að verið sé að vinna í hlutunum, hafa sent þau skilaboð út til fólksins sem hér býr að við getum ekki sinnt samfélagslegum verkefnum í sameiningu – það sé í raun ekki hægt.  

Dæmi um þetta er síendurtekin orðræða ríkisstjórnarinnar um húsnæðisátak. Átak sem aldrei kemst af stað. Nýjustu upplýsingar úr fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sýna svart á hvítu að þau ætla sér ekki raunverulega af stað með nauðsynlega uppbyggingu á húsnæðismarkaði fyrr en eftir að kjörtímabilinu lýkur. Átta ár munu líða án þess að tekist hafi að ná böndum á undirstöðu velferðar fólksins í landinu, húsnæðismarkaðnum.  

V.

Merki um þá einstaklingshyggju sem við jafnaðarfólk og verkalýðshreyfingin vitum að hamlar framþróun og uppbyggingu fyrirmyndarsamfélags má finna víðar í dag. Í kjaraumræðunni þreytist forystufólk ríkisstjórnarinnar ekki á því að nefna að kaupmáttur hafi aukist á síðustu árum. En hvaða merkingu hefur þetta í raun og veru ef umræddur kaupmáttur dugar ekki fyrir grunnþörfum hjá fjölda fólks?  

Og kaupmáttur segir nákvæmlega ekkert um gæði velferðarþjónustunnar í landinu sem er veitt. Verri grunnþjónusta mælist ekki í kaupmætti. Þegar talað er um sparnað hjá ríkinu, í grunnkerfunum okkar, er hin hliðin á þeim sparnaði oftar en ekki verri þjónusta. Þegar talað er um fituna sem skera þarf burt er oftar en ekki mikilvægur partur af keðjunni brotinn. Yfirsýnin tapast.  

Hagræðingarbylgjan sem gengið hefur yfir undanfarinn áratug og gengið út á að útvista öllu, hún hefur rekið fleyg milli fólks innan velferðarstofnana og á vinnumarkaði. Fleyg milli fólksins, þar sem hlutverk þeirra eru smættuð niður í einingar sem standa sjálfstætt – yfirsýnin er horfin, samfélagið og samstaðan veikt. Fólk upplifir sig ekki tilheyra verkefninu saman.  

Á ferð minni um landið í fyrra hélt ég samtalsfund í sjávarplássi fyrir vestan. Þar ræddi ég við mann sem hafði verið sagt upp störfum sem húsvörður á sjúkrastofnun í hagræðingarskyni. Þegar umræðan um stöðuna á umræddri stofnun barst í tal kom í ljós að á sama fundi sat hjúkrunarfræðingur sem hafði nýlega sagt upp störfum á sömu stofnun, m.a. vegna þess að starfsaðstæður voru orðnar óboðlegar. Enginn var á staðnum til að skipta um ljósaperu, sinna viðhaldi, halda hreinu. Umhverfið var að grotna niður. Einstaklingshyggjan hefur skapað aðstæður þar sem fleygur myndaðist milli þessara tveggja aðila: eins og manneskjan sem sinnir viðhaldi og þrifum hafi ekki hlutverk í að tryggja góða þjónustu við sjúklinga. Þetta eru skilaboð einstaklingshyggjunnar – skilaboð sem tvístra samfélaginu á öllum stigum. 

Við þurfum, í sameiningu, að horfast í augu við hvað þarf til að breyta þeirri stöðu sem upp er komin. Ekki á einni nóttu, heldur yfir áraraðir. Það er hægt. En það krefst þess að hvert og eitt okkar taki það til sín. Það verður erfitt, velferðarkerfið okkar er komið á þann stað að breytingarnar þurfa að vera umfangsmiklar víða, en fólk þarf að vera tilbúið í samstöðuna um grundvallaratriði velferðarsamfélagsins.  

Látum ekki sundra okkur.  

Sameinumst um hluti sem hafa verið grundvöllur framfara undanfarin 100 ár.  

Við megum ekki sætta okkur við áframhaldandi hólfaskiptingu, við stefnu sem slítur samfélagið í sundur. 

Við erum sterkari saman: 

Þetta gildir um verkalýðshreyfinguna sjálfa. 

Þetta gildir um samstarf verkalýðshreyfingarinnar við Samfylkinguna. 

Og þetta gildir um samfélagið allt. 

Mynd: Aðsend

VI.

Kæru félagar, 

Samfylkingin hefur einsett sér núna að rífa sig í gang — og komast í ríkisstjórn: 

Við ætlum að endurreisa velferðarkerfið á Íslandi, fyrir fólkið sem hér býr. 

Og erum þegar byrjuð að undirbúa störf okkar í næstu ríkisstjórn: 

Undanfarin misseri höfum við haldið fjölda opinna funda um land allt — samræður um heilbrigðismál — og það er bara byrjunin. Við erum með stýrihóp sem leiðir þessa vinnu og við tökum hana alvarlega — vegna þess að við vitum að ábyrgð okkar jafnaðarfólks er mikil. 

Næstu málaflokkar á dagskrá eru atvinna og samgöngur, frá og með næsta hausti. Og svo förum við í húsnæðis- og kjaramálin — og þá verður farið að styttast í kosningar. 

Þetta eru kjarnamál jafnaðarfólks. Sem snúast um virðingu fyrir fólki — öryggi og traust. Þetta eru mál sem sameina þjóðina og baráttumál sem við treystum okkur til að skila í næstu ríkisstjórn með sómasamlegum hætti. Þannig að fólkið í landinu fái aftur trú á stjórnmál og trú á samtakamátt almennings og gildi þess að búa í samfélagi. 

Takk fyrir mig. Gleðilegan 1. maí! Og fram til sigurs. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Tilkynnti Hákoni óvænt að hann þyrfti að segja upp störfum – „Honum var refsað fyrir að taka of stór skref“

Tilkynnti Hákoni óvænt að hann þyrfti að segja upp störfum – „Honum var refsað fyrir að taka of stór skref“
Fréttir
Í gær

Svona verður veðrið um áramótin – Eins gott að klæða sig vel

Svona verður veðrið um áramótin – Eins gott að klæða sig vel
Fréttir
Í gær

Segir Rússland á barmi efnahagshruns – „Skortir allt!“

Segir Rússland á barmi efnahagshruns – „Skortir allt!“
Fréttir
Í gær

Steingrímur rifjar upp örlagaríka för á hamfarasvæði – „Og ekkert varð aftur eins“

Steingrímur rifjar upp örlagaríka för á hamfarasvæði – „Og ekkert varð aftur eins“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tókst að koma bát aftur að bryggju í hvassviðrinu

Tókst að koma bát aftur að bryggju í hvassviðrinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Trump fór mikinn og boðar landvinninga Bandaríkjanna

Trump fór mikinn og boðar landvinninga Bandaríkjanna
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Inga segir eiganda Lumex ljúga – Ítrekað hindrað aðgengi fatlaðra og rifið kjaft

Inga segir eiganda Lumex ljúga – Ítrekað hindrað aðgengi fatlaðra og rifið kjaft
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Listinn lengist – Þessir háttsettu Rússar hafa verið myrtir í Rússlandi

Listinn lengist – Þessir háttsettu Rússar hafa verið myrtir í Rússlandi