Lögreglan á Suðurlandi mun ekki að svo stöddu gefa upp nafn konunnar sem lést í heimahúsi á Selfossi fimmtudaginn 27. apríl. Kemur þetta fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.
Rannsókn lögreglu er umfangsmikil en miðar vel áfram og er rannsóknarvinna í fullum gangi. Tveir karlmenn voru handteknir á vettvangi og voru á laugardag úrskurðaðir í gæsluvarðhald fram til föstudagsins 5. maí. Samkvæmt heimildum DV eru þeir stjúpbræður, báðir á þrítugsaldri og hefur sá yngri þeirra áður komið við sögu lögreglu, meðal annars fengið dóm fyrir tvær líkamsárásir.
Lögreglan hefur notið liðsinnis frá lögreglunni á Suðurnesjum, sem og tækni- og tölvurannsóknardeildum lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu.
Í tilkynningunni kemur fram að rannsókn lögreglu er á viðkvæmu stigi og því verða ekki gefnar út frekari upplýsingar um framgang hennar að sinni. Gefin verður út fréttatilkynning um rannsóknina þegar tilefni er til.