Búið er að bera kennsl á líkið sem fannst í fjöruborðinu við Fitjabraut í Reykjanesbæ 2. apríl og hefur kennslanefnd ríkislögreglustjóra staðfest að þar er um að ræða Stefán Arnar Gunnarsson sem leitað var að án árangurs síðan 3. mars. Þetta kemur fram á vef lögreglunnar.
Ekki er talið að andlát hans hafi borið að með saknæmum hætti.
Stefán Arnar var 44 ára gamall og var búsettur í Hafnarfirði.
Umfangsmikil leit var gerð að Stefáni eftir að hann fór að heimili sínu í byrjun mars. Komu þar að sérsveit ríkislögreglustjóra, landhelgisgæsla, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og rúmlega hundrað björgunarsveitarmenn. Við leitina var notast við dróna, þyrlur, kafara, spor- og víðavangsleitahunda.