Myndband sem tekið var úr eftirlitsmyndavél í Sankti Pétursborg í Rússlandi í gær varpar ljósi á það sem gerðist áður en öflug sprengja sprakk á kaffihúsi í borginni.
Vladen Tatarsky, bloggari og harður stuðningsmaður Vladimír Pútíns Rússlandsforseta, lést í árásinni og var 26 ára kona sem grunuð er um verknaðinn handtekinn í morgun.
Myndbandið sýnir konuna, hina 26 ára gömlu Dariu Trepovu, ganga inn á kaffihúsið með pakka í höndunum. Um var að ræða styttu af rússneska bloggaranum sem var stútfull af öflugu sprengiefni.
Annað myndband sem tekið var inni á kaffihúsinu sýnir þegar Tatarsky veitir styttunni viðtöku en stuttu síðar springur hún í loft upp. Tatarsky lést samstundis og 32 aðrir gestir kaffihússins slösuðust.
Trepova var handtekin í íbúð í Sankti Pétursborg í gærkvöldi en sjálf neitar hún staðfastlega sök. Rússnesk yfirvöld segja að um hryðjuverk hafi verið að ræða og grunar að einstaklingar með tengsl við Úkraínu hafi skipulagt verknaðinn.
Kærasti Trepovu, Dmitry Rylov, heldur því fram að hún hafi verið leidd í gildru og hún hefði aldrei samþykkt að láta Tatarsky hafa pakkann ef hún hefði vitað hvað var í honum. Vitni lýsa því þó að Trepova hafi verið treg til að setjast við hlið Tatarsky eftir að hún lét hann hafa styttuna og það renni stoðum undir þá kenningu að hún hafi vitað hvað var í vændum. Hún hafi svo forðað sér áður en sprengjan sprakk.
Í frétt Daily Mail kemur fram að 450 grömm af sprengiefninu TNT hafi verið í styttunni og var sprengingin mjög öflug. Rúður í húsinu sprungu og slösuðust margir þegar glerbrotum rigndi yfir gesti kaffihússins.