Litlu mátti muna að verra færi þegar kerti, sem staðsett var í glugga íbúðar, kveikti í skerm á lampa sem datt svo niður í rúm sem kviknaði í. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sem birti mynd af vettvangi.
Enginn var í herbergi hússins þegar óhappið átti sér stað en þökk sé reykskynjara í rýminu urðu húsráðendur strax varir við eldinn og náðu að slökkva hann áður en slökkviliðið mætti á vettvang. Slökkviliðsmennirnir gengu síðan úr skugga um að ekki leyndist nein glóð í rúminu auk þess sem rýmið var reykræst.
Skilaboð slökkviliðsins eru skýr – reykskynjarar bjarga.
Nóg var um að vera hjá slökkviliðinu síðasta sólarhring en alls var farið í 105 útköll á sjúkrabíla og 23 þeirra á forgangi. Sex útköll voru á dælubíla og myndin er úr einum þeirra.