Lögregla skoðar hvort myndbandsupptaka af manndrápinu við Fjarðarkaup á fimmtudagskvöld sé í dreifingu. RÚV greinir frá. Fjögur ungmenni á aldrinum 15-19 ára voru í gærkvöldi úrskurðuð í sex daga gæsluvarðhald, til 27. apríl, sem einhver þeirra hyggjast kæra. Mun eitt þeirra hafa tekið árásina upp á myndband.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn vill ekki tjá sig um hvort ungmennin hafa áður komið við sögu lögreglu, en hann staðfestir við fréttastofu RÚV að lögreglan hafi lagt hald á hnífinn sem er talinn hafa verið notaður við verkið.
Aðspurður um hvort myndband af árásinni sé í dreifingu svarar Grímur: „Við höfum upplýsingar um að það kunni að vera í dreifingu myndskeið af þessu og það er bara það sem við erum með til skoðunar, hvort það sé rétt.“
Á þessum tímapunkti lýtur rannsóknin að því að reyna að átta sig atburðarásinni alveg frá A til Ö, hvort það eru einhver samskipti áður en að árásinni kemur og líka eftir – við erum bara að safna upplýsingum um það þannig að ég get ekki farið nánar út í það á þessu stigi,“ segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn.
Bænastund fór fram í Landakotskirkju klukkan eitt í dag til stuðnings vinum og vandamönnum hins látna.
Sjá einnig: Minningarathöfn um pólska manninn sem var myrtur – „Pólverjar eru Íslendingar“
Vísir greinir frá að lögreglan hafi farið í húsleitir vegna málsins í gær. Grímur vildi ekki gefa upp hvort lögregla hafi lagt hald á einhverja muni.
Lögregla hefur hins vegar eins og áður sagði undir höndum hníf sem hún telur hafa verið notaðan við verknaðinn. Vopnið fannst nálægt vettvangi í gær. „Við erum með í okkar höndum það vopn sem við teljum að hafi verið notað, sem er hnífur,“ segir Grímur.