„Þau sem gerðu þetta eru bara krakkar sem eru að byrja lífið. Ég dæmi ekki foreldra þeirra því ég er sjálf móðir,“ segir móðir mannsins, sem lést eftir hnífsstunguárás á fimmtudagskvöld í samtali við Heimildina.
Móðirin segist vera að bugast af sorg, en hún var viðstödd bænastund sem haldin var í dag í Landakotskirkju, en yfirskrift hennar var að „sameinast og andmæla ofbeldi ungs fólks á götum borgarinnar.“ Í grein Heimildarinnar kemur fram að móðirin bæti við milli ekkasoganna: „Ég er með djúpt sár í hjartanu.“
Árásin átti sér stað á bílastæði við Fjarðarkaup í Hafnarfirði og eru fjögur ungmenni í gæsluvarðhaldi vegna málsins.
Móðirin segist hafa fengið margar fallegar kveðjur frá Íslendingum og Pólverjum. Hún segir þó erfitt að fá upplýsingar um framgang málsins, þar sem öll samskipti fari fram með aðstoð túlks og nýr túlkur komi að í hvert sinn.
Maðurinn sem lést var 27 ára gamall pólskur karlmaður, hann á tveggja ára dóttur sem fædd er í Reykjavík og fjölskyldu í heimalandi sínu. Maðurinn starfaði hjá fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og hafði komið aftur hingað til lands að vinna og sjá þannig fyrir fjölskyldu sinni í Póllandi með því að ná að borga reikningana.