Fjórir einstaklingar, þrír piltar og stúlka, hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 27. apríl vegna morðsins við Fjarðarkaup í gærkvöldi. Í kvöldfréttum RÚV kom fram að ungmennin væru á aldrinum sextán til nítján ára.
Þau eru grunuð um að hafa ráðist á pólskan karlmann á þrítugsaldri á bílastæðinu við Fjarðarkaup í Hafnarfirði í gærkvöldi. Vegfarandi varð vitni að árásinni og hringdi á lögregluna sem var fljót á vettvang. Var maðurinn sem ráðist var á illa særður, eftir fleiri en eina hnífstungu, og lést hann á sjúkrahúsi nokkru síðar.
Komið hefur fram að engin tengsl hafi verið milli íslensku ungmennanna og fórnarlambsins. Herma heimildir DV að ungmennin hafi hitt á manninn á nærliggjandi bar og þar hafi kastast í kekki milli þeirra. Sá ágreiningur hafi leitt til uppgjörsins á bílastæðinu.
Lögregla rannsakar nú málið og skoðar myndbandsupptökur af svæðinu. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn, sagði í kvöldfréttum RÚV að lögreglan teldi sig hafa nokkuð skýra mynd af atburðarásinni.