fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Fyrirtæki Zuckerberg segir Kristinn dreifa falsfréttum – „Vonandi sjá allir hættuna sem blasir við“

Eyjan
Fimmtudaginn 20. apríl 2023 17:31

Mark Zuckerberg og Kristinn Hrafnsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, lenti í því á dögunum að færsla sem hann skrifaði var merkt með varúðarmerkingu af Facebook á dögunum og var hermt að um falsfrétt væri að ræða. Þá var ritstjórinn aðvaraður um að ef framhald yrði á að birta slíkar færslur yrði hann gerður minna sýnilegur, jafnvel ósýnilegur á samfélagsmiðlinum. Þetta kemur fram í færslu sem Kristinn birti á Facebook-síðu sinni.

Umrædd færsla fjallaði um nýja frétt rannsóknarblaðamannsins Seymour Hersh þar sem því er haldið fram að Volodymyr Zelensky, Úkraínuforseti, og hans helstu samstarfsmenn væru gjörspilltir og hefðu meðal annars stungið um 400 milljónum dala af hernaðaraðstoð Bandaríkjanna í vasann með vafasömum viðskiptaaðferðum. Hersh vakti nýlega athygli fyrir grein þar sem hann fullyrti að Bandaríkjamenn hefðu sprengt upp Nord Stream-gasleiðsluna og að Joe Biden, Bandaríkjaforseti, hefði persónulega gefið grænt ljós á aðgerðina.

Úkraínsk samtök kváðu upp dóm um falsfrétt

Segir Kristinn ljóst að verið sé að feta hættulega braut.

„Í erindi til mín segir Zuckerberg-löggan að virðuleg (og óháð) samtök hafi úrskurðað að fréttin sé fölsk. Þegar að er gáð reynist dómarinn í málinu vera samtök í Kiev í Úkraínu, Stopfake.org. Sú stofnun var upphaflega ætlað að berjast gegn rússneskum áróðri sem hvolfdist yfir Úkraínumenn á netinu. Ítarlegar upplýsingar fást ekki um fjármögnun samtakana en þó upplýst að hún sé í gegnum frjáls framlög, safnanir og styrktaraðila. Aðeins nokkrir þeirra eru nefndir en þar á meðal eru Breska sendiráðið í Kiev og utanríkisráðuneyti Tékklands,“ skrifar Kristinn.

Útskýringar á því að umrædd færsla Kristins var sögð innihalda falsfréttir er aðeins birt  á úkraínsku og varð Kristinn að vélþýða úrskurðinn.

„Meginniðurstaðan er þessi: Hersh færir engar sannanir fyrir fullyrðingum sínum fyrir utan hina nafnlausu heimildarmenn. Þess utan hafi yfirvöld í Washington, bæði Varnarmálaráðuneytið og Hvíta Húsið fullyrt að mikið eftirlit sé með hernaðarstyrkjum til Úkraínu og engar vísbendingar séu um að misfarið sé með þann stuðning. Eftir þessa fullvissu frá Bandarískum yfirvöldum úrskurðar stofnunin í Kiev, sem fjármögnuð er m.a. með opinberu styrktarfé frá a.m.k. tveimur NATO ríkjum, að þetta sé tilhæfulaus frétt. Ameríska stórfyrirtækið Facebook leggur svo sitt lóð á vogarskál með því að hindra eftir bestu getu dreifingu þessara upplýsinga,“ skrifar Kristinn.

Mikilvægt að staldrað sé við

Hann segir að þessi reynslusaga gefi fólki vonandi tilefni til að staldra við og þá sé aukaatriði hvort að frétt Hersh sé rétt eða ekki.
„Facebook er annar tveggja bandaríska netrisa sem sem soga til sín 80% af öllu auglýsingafé netsins og hafa því gengið af fréttamiðlum dauðum um heim allan, meðal annars á Íslandi. Á kóvíd tímum var þessum miðlum gefið það vald að úrskurða um lýðheilsuspillandi upplýsingamiðlun – og raunar grátbeðnir um það af stjórnvöldum. Það þótti nauðsynlegt að stemma stigu við því, á lýðheilsuforsendum, að almenningur væri t.d. hvattur til að drekka klór til að drepa kóvíd. Margar aðrar upplýsingar fóru þó í leiðinni í vaskinn, upplýsingar sem síðar hefur komið í ljós að áttu fullan rétt á sér. En tónninn var sleginn. Valdið er núna yfirfært yfir á upplysingar sem hafa ekkert með lýðheilsu að gera heldur boðskap sem snertir stríðsrekstur þar sem sannleikurinn er sannarlega hverfull,“ skrifar Kristinn.

Ferskleiki í raunverulegum tíðindum af hernaðarbröltinu

Hann segist ljóst að ekki sé aðeins við rússneskar nettröllamaskínur að sakast heldur keppist vestrænar leyniþjónustur við uppfylla hlutverk sín og  miðla áróðri og misvísandi upplýsingum.
„Nýlega lak talsvert af upplýsingum frá bandarískum leyniþjónustum og herjum og var viss ferskleiki fólgin í því að sjá raunverulegt mat viðkomandi aðila á stöðunni. En þær upplýsingar voru ekki ætlaðar almenningi. Almenningur var fóðraður á allt öðru efni sem hafði umhugsunarvert sannleiksgildi. Dæmi um slíkt er sagan af skemmtiskútunni Andrómedu sem átti að hafa verið notuð til að sprengja upp Nord Stream leiðslurnar. Sú saga er svo vandræðalega ófullkomin að jafnvel hlýðnustu meginstraumsfjölmiðlar miðla henni varla lengur án þess að engjast.
Ég bið fólk vinsamlegast um að hugsa vandlega um þessa stöðu (það er ef fólk fær yfirhöfuð tækifæri til að lesa þetta á þessum vettvangi Zuckerbergs). Vonandi sjá allir hættuna sem blasir við.“

 

„“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu
Fréttir
Í gær

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar
Fréttir
Í gær

Rýmingu lokið í Bláa lóninu

Rýmingu lokið í Bláa lóninu