Virtur geðlæknir, Anna María Jónsdóttir, var þann 14. apríl síðastliðinn dæmd skaðabótaskyld í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir brot gegn lögum um heilbrigðisstarfsmenn, brot gegn friðhelgi einkalífs, stjórnarskrárbrot og brot gegn mannréttindasáttmála Evrópu, vegna ummæla sem hún lét falla um föður drengs í þremur læknisvottorðum sem hún ritaði fyrir móður drengsins. Var hún dæmd til að greiða föðurnum 700 þúsund krónur í miskabætur og 1 milljón króna í málskostnað.
Þrenn ummæli læknisins sem hún lét falla um föðurinn í læknisvottorðunum voru dæmd dauð og ómerk. Sneru þau að því að maðurinn væri spilafíkill og hann hefði beitt konuna og soninn líkamlegu, tilfinningalegu og andlegu ofbeldi.
Anna hitti aldrei föðurinn og kvaðst sjálf hafa byggt mat sitt á einhliða frásögn móðurinnar. Síðar kom í ljós að ásakanirnar stóðust ekki og fékk faðirinn á endanum fulla forsjá drengsins. Vottorðin notaði móðirin til að vinna gegn umgengni föðurins við drenginn. Fór svo fram í 15 mánuði en faðirinn fékk síðar forsjá yfir drengnum.
Dómari gagnrýndi Önnu fyrir að hafa byggt mat sitt eingöngu á einhliða frásögn móðurinnar. Segir að hún hefði átt að gera þann fyrirvara í læknisvottorðunum að fullyrðingarnar væru byggðar á frásögn móðurinnar og eftir atvikum drengsins en að hún hefði ekki við önnur gögn að styðjast. „Það gerði stefnda ekki heldur fullyrti fullum fetum og fyrirvaralaust að móðir drengsins og hann sjálfur hefðu sætt ofbeldi frá hendi föður drengsins, líkt og stefnda hefði sjálf upplifað það,“ segir orðrétt í dómsniðurstöðunni.
Þá segir ennfremur: „Stefnda hefði auðveldlega getað hagað ofangreindum ummælum sínum með öðrum og varkárari hætti en hún gerði, án þess að skilaboð hennar misstu marks. Hefði stefnda til að mynda getað sagt að samkvæmt því sem skjólstæðingur hennar héldi fram eða segði, þá hefði faðir drengsins beitt bæði hana og drenginn ofbeldi.“
Féllst dómurinn á það með föðurnum að Anna hefði gengið lengra í læknisvottorðum sínum með þessum ummælum um hann en eðlilegt og nauðsynlegt var. Hafi þessi framganga hennar ekki verið í samræmi við 19. grein laga um heilbrigðisstarfsmenn en þar segir:
„Heilbrigðisstarfsmönnum ber að gæta varkárni, nákvæmni og óhlutdrægni við útgáfu vottorða, álitsgerða, faglegra yfirlýsinga og skýrslna og votta það eitt er þeir vita sönnur á og er nauðsynlegt í hverju tilviki.“
Anna María Jónsdóttir er þrautreyndur geðlæknir með mikla starfsreynslu og hefur verið áberandi talsmaður fags síns t.d. á ráðstefnum og í fjölmiðlaviðtölum. Hún sinnir geðlækningum fullorðinna, unglinga og barna.