Tímamót urðu í fasteignaviðskiptum hérlendis á fimmtudag þegar fyrstu skjölin voru send í rafræna þinglýsingu til sýslumanns. Það var Ás fasteignasala sem steig þetta rafræna skref með því að senda afsal í þinglýsingu.
„Að baki liggur mikil vinna og undirbúningur hjá mörgum samstarfsaðilum en um er að ræða fyrsta skrefið í þinglýsingu skjala er varða fasteignaviðskipti. Þinglýsingin tekur enga stund og er þróunin gríðarlega góð fyrir umhverfi fasteignaviðskipta. Þróunin mun halda áfram og við munum sjá enn fleiri skjölum í fasteignaviðskiptum þinglýst rafrænt á næstu misserum,“ segir í færslu Ás á Facebook.
Félag fasteignasala hefur verið í samstarfi við Stafrænt Ísland, HMS, Dokobit og ThinkSoftware, sem er með HomeEd fasteignasölukerfið, sáu um þróun verkefnisins og segir Aron Freyr Eiríksson, löggiltur fasteignasali og annar eiganda fasteignasölunnar, í samtali við mbl.is að þróunin sé stórt skref í sögu fasteignaviðskipta.
Þinglýsingarkostnaður lækkar, en hvað með umsýslugjald fasteignasala?
Þinglýsingargjald á hvert skjal er 2.700 krónur. Eins og kemur fram á vef sýslumanna og í lögum 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs. Á vefnum kemur hins vegar ekki fram að þinglýsing með rafrænni færslu kostar 1.500 kr. og gildir sú fjárhæð frá 1. janúar 2020.
Á vefnum kemur hins vegar fram að áætlaður þjóðhagslegur ávinningur af hverju rafrænt þinglýstu veðskuldabréfi er yfir 7.000 krónur og rúmar 3.000 krónur fyrir hverja aflýsingu og felst í því að aðgerðin er rafræn færsla í stað pappírs. Í upphafi verkefnisins var lagt mat á þjóðhagslegan ávinning af rafrænum þinglýsingum. Þegar handvirkt vinnuframlag sýslumanna, lánveitenda og fasteignasala sem verður óþarft með tilkomu lausnarinnar er tekið saman er áætlaður ávinningur af notkun hennar metinn á bilinu 1,2–1,7 milljarðar króna á ári. Ofan á það bætist svo ávinningur af því að ekki þarf að ferðast með pappírsskjöl á milli aðila og aukinn hraði viðskipta fyrir lánveitendur og fasteignasala.
En hvaða áhrif hafa þessi tímamót á gjaldtöku fasteignasölu og þann kostnað sem seljendur og kaupendur þurfa að greiða við kaup og sölu fasteigna?
Fasteignasölur taka almennt ákveðna prósentutölu af söluverðmæti eða lágmarksgjald. Sé litið á verðskrá Ás fasteignasölu sem dæmi þá er lágmarksverð vegna sölu á fasteign er 496.000 kr. m/vsk. Almennt er sölukostnaður þó á bilinu 1,45% – 2,35% m/vsk.
Til viðbótar sölukostnaði þarf seljandi að greiða fyrir myndatöku á eigninni, skjalafrágang og auglýsingar ef hann kýs (að hluta ókeypis á fasteignavefjum). Auk þess þarf seljandi að gjald fyrir gagnaöflun sem er 64.900 kr. m/vsk. Umsýslukostnaður kaupanda vegna sömu eignar er síðan sama tala 69.900 m/vsk.
Kostnaður vegna gagnaöflunar og umsýslukostnaður innihélt áður ferðir á staði til að sækja og fara með hin ýmsu skjöl, meðal annars að fara með kaupsamning (og fleiri skjöl) í þinglýsingu og sækja aftur og fara síðan með afsal í þinglýsingu og sækja aftur. Þegar allar slíkar ferðir verða óþarfar og aðeins verður um nokkra smelli á lyklaborðinu að ræða má velta fyrir sér hvort þessi kostnaður muni lækka eða hreinlega alveg falla niður.