Tiltölulega rólegt var í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt.
Í miðborginni kom ferðamaður inn á lögreglustöð og tilkynnti fjársvik. Taldi ferðamaðurinn að búið væri að taka eina og hálfa milljón út af reikningnum sínum. Frekari upplýsingar um málið koma ekki fram í skeyti lögreglu nú í morgunsárið.
Þá var lögreglu tilkynnt um mann sem var að plokka strikamerki af vörum. Maðurinn er grunaður um eignaspjöll á vörum úr versluninni.
Glöggir lögreglumenn á lögreglustöð 3, sem sinnir verkefnum í Kópavogi og í Breiðholti, urðu varir við sölu fíkniefna og eru hvoru tveggja kaupandi og meintur seljandi grunaðir um vörslu fíkniefna. Sölumaðurinn var handtekinn og vistaður í fangaklefa en hann er einnig grunaður um ólöglega dvöl í landinu.
Þessu til viðbótar voru þrír ökumenn teknir úr umferð, þar af tveir vegna gruns um ölvun við akstur en sá þriðji vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna.