fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fréttir

Gunnar Smári minnist móður sinnar: „Síðast þegar ég sá mömmu vakandi var hún hrædd“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 12. apríl 2023 11:00

Gunnar Smári minnist móður sinnar með fallegum orðum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi fjölmiðlamaður og einn af stofnendum Sósíalistaflokksins, minnist móður sinnar, Guðrúnar Rannveigar Guðmundsdóttur, með hlýjum orðum á Facebook-síðu sinni í morgun.

Guðrún lést þann 29. mars síðastliðinn 91 árs að aldri, en útför hennar verður í dag frá Hafnarfjarðarkirkju.

Gunnar Smári veitti DV góðfúslegt leyfi til að endurbirta minningarorð sín en óhætt er að segja að þar skrifi hann frá hjartanu. Skrifar hann meðal annars um uppvaxtarár sín, skilnað foreldra sinna, fátæktina í barnæsku og þá staðreynd að hann hafi verið mömmustrákur sem ungur drengur.

Minningarorðin fylgja hér að neðan:

Minningarorð um mömmu

Einu sinni fékk pabbi að gista á Tjarnarstígnum eftir að mamma skildi við hann. Hann svaf í rúminu mínu og svæfði mig með því að strjúka þumlinum eftir handarbakinu á mér. Ég man svo sem ekki mikið eftir mér fyrir þennan tíma. Og engum stundum þar sem pabbi sýndi mér svona friðsæla hlýju. Ég var líklega nýorðinn sex ára. Þetta er eina minningin sem ég á um pabba þar sem ég fann til öryggis, þar sem mér fannst sem hann myndi vernda mig.

Það kom í hlut mömmu að passa upp á mig. Hún gerði það ekki með faðmlögum eða kjassi. Maður getur verið vondur við fólk með því að vera of góður við það, hafði hún eftir mömmu sinni. Hún lét mig frekar heyra það við kvöldverðarborðið, að hún hafi verið alveg hissa á að ég kynni allan textann við She Loves You Yeah Yeah Yeah. Ég hafði skriðið ofan í öskutunnu í leit að góðum hljómburði, lyfti svo lokinu reglulega til að hleypa út tónunum. Þeir bárust til mömmu upp á þriðju hæð í Steindórshúsinu við Seljaveg. Enginn annar hefur hrósað mér fyrir söng.

Mamma skammaði mig ekki. Ekki svo ég muni. Hún skammaði mig ekki einu sinni fyrir að troða mér ofan í öskutunnur. Hún leyndi hins vegar ekki vonbrigðum sínum. Hvers vegna þarftu að skríða niður á Framnesvöll, geturðu ekki gengið þangað eins og önnur börn? Ég útskýrði að ég hefði verið með bíl og hafi þurft að keyra hann alla leiðina. Bílar geta ekki flogið. Ég á bara ekki fleiri bætur á buxurnar þínar, sagði mamma. En svo fann hún leðurbætur. Sem voru fullkomnar í bílaleik.

Það þýddi lítið að kvarta við mömmu. Þeir eiga bágt sem eiga bágara en þú, var viðkvæðið. Þetta hafði hún líka eftir Dórótheu ömmu.

Mamma hefur örugglega grátið þegar hún varð ólétt af mér. Lífið var orðið nógu erfitt. Mamma sagði mér seinna að ég hafi verið hettubarn. Líklega hef ég seinkað skilnaði foreldra minna um nokkur ár. Og árin sem bættust við voru ekki þau bestu.

Og svo fékk hún skrítið og sérlundað barn, sem erfitt var að koma fyrir. Hún tók mig því með sér í vinnuna. Ég fór með henni í Bakarí Jóns Símonarsonar á Bræðraborgarstígnum og gekk frá pöntunum, fékk svo að fara með Magna bílstjóra að keyra þær út. Magni var minn fyrsti mentor, fyrirmynd utan fjölskyldunnar. Þegar við fluttum inn í Ljósheima fór ég eftir skóla til mömmu þar sem hún vann í efnalauginni við Heimakjör og pressaði með henni jakka og straujaði buxur. Þegar ég var níu ára höfðum við mamma verið starfsfélagar í fimm ár.

Ég var mömmustrákur, hafði misst föður minn ungur í brennivínið. Mamma gat ekki leynt því hversu fátæk við vorum, en hún sýndi okkur að það var kannski ekki það versta sem gat komið fyrir. Auðvitað var fátæktin andstyggileg og grimm, en við áttum hvort annað, mamma og strákarnir. Þegar kom kvöldmatur og við settumst til borðs var maturinn kannski fábreytilegur en selskapurinn var frábær, samræðurnar gefandi og allar raunir gleymdust.

Þegar ég eltist sá ég mömmu á þessum tíma með öðrum augum, ekki bara litla drengsins. Mér er nú ljóst að hún var í langvarandi áfalli. Lífið hafði ekki farið eins og hana hafði dreymt um. Ástin hafði svikið hana. Hún talaði alltaf um æsku sína sem gullöld, yljaði sér við sögur svo fólkið sem hún ólst upp með urðu að samferðafólki okkar strákanna. Og ég var eitt af þessum áföllum. Ég gæti auðvitað týnt eitthvað til sem mamma gat ekki veitt mér sem barni, en það eru smámunir í samanburði við það sem hún gaf mér. Og stenst engan samanburð við það sem ég lagði á þessa konu.

Síðast þegar ég sá mömmu vakandi var hún hrædd og vissi ekki hvar hún var né hvað fólkið vildi sem var að sinna henni. Ég spilaði gamalt dægurlag, Senn fer vorið á vængjum yfir flóann, á símann minn og strauk henni með þumlinum eftir handarbakinu, eins og pabbi hafði gert við mig þegar hann gisti á Tjarnarstígnum. Og ég ímynda mér að hann hafi strokið mömmu þegar þau voru ung og lífið sem eilíft vor. Mamma róaðist og horfði á mig, óttinn hvarf úr augunum. Og svo sofnaði hún.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Árekstur þriggja bíla við Hamraborg – Dælubíll og þrír sjúkrabílar sendir á vettvang

Árekstur þriggja bíla við Hamraborg – Dælubíll og þrír sjúkrabílar sendir á vettvang
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Fjárfestar hafa sölsað undir sig tæplega 90% seldra íbúða á árinu – „Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt“

Fjárfestar hafa sölsað undir sig tæplega 90% seldra íbúða á árinu – „Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt“
Fréttir
Í gær

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins styður ekki Coda Terminal verkefnið við Vellina – Þyrfti aðkomu minnihlutans til að koma málinu í gegn

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins styður ekki Coda Terminal verkefnið við Vellina – Þyrfti aðkomu minnihlutans til að koma málinu í gegn
Fréttir
Í gær

Líkfundur á Tenerife í tengslum við leitina að Jay Slater

Líkfundur á Tenerife í tengslum við leitina að Jay Slater
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Harmleikur í hitabylgju – Gleymdi tveggja ára dóttur sinni úti í bíl með hræðilegum afleiðingum

Harmleikur í hitabylgju – Gleymdi tveggja ára dóttur sinni úti í bíl með hræðilegum afleiðingum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Guðrún ætlar ekki að flytja inn í Biskupsgarð – Agnes flytur út og glæsihýsið verður selt

Guðrún ætlar ekki að flytja inn í Biskupsgarð – Agnes flytur út og glæsihýsið verður selt