„Þegar ég var við nám í Svíþjóð sagði hagfræðiprófessorinn okkur að í verðbólgu hefðu seðlabankarnir verkfæri til að stöðva hana. Þeir hækkuðu stýrivextina og þá yrði dýrara að taka lán og það hægði á þenslu í efnahagslífinu.“
Svona hefst grein sem rithöfundurinn og leikstjórinn Ásgeir Hvítaskáld skrifar í Morgunblaðið í dag.
Þar skrifar hann um stöðuna í efnahagsmálum hér á landi og beinir þeim skilaboðum til nafna síns, Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra, að hugsa sig tvisvar um áður en hann ákveður að hækka stýrivexti enn eina ferðina. Rifjar hann upp ummæli umrædds hagfræðiprófessors sem sagði það virka alls staðar í heiminum, nema á Íslandi, að hækka stýrivexti til að ná tökum á verðbólgu.
Ástæðurnar væru meðal annars þessar:
„Sennilega af því að Ísland væri lítið bananalýðveldi með einhæfu hagkerfi og allir væru frændur.“
Ásgeir bendir á að á þessum tíma hafi óðaverðbólga verið á Íslandi. „Og við íslensku námsmennirnir sáum að þetta passaði nákvæmlega eins og prófessorinn sagði; vaxtahækkanir Seðlabankans virkuðu slétt ekkert á verðbólguna. Fólk sem hafði misst húsnæði sitt á Íslandi út af verðtryggðum lánum kom til Svíþjóðar til að flýja skuldabaggann.“
Ásgeir rifjar upp að Seðlabankinn hafi nú hækkað stýrivextina tólf sinnum og það hafi lítið sem ekkert bitið á verðbólguna sem er 9,8%.
„En stýrivextirnir stjórna útlánsvöxtum bankanna því þeir þurfa að endurfjármagna sig gegnum Seðlabankann. Spurningin er hvort hagfræðiprófessorinn hafi enn þá rétt fyrir sér,“ segir Ásgeir.
Hann veltir fyrir sér hvað það er sem veldur þessari verðbólgu í dag.
„Sagt er að vegna heimsfaraldursins hafi erlend framleiðsla farið úr skorðum og flutningar á milli landa orðið fyrir seinkunum, sem hafi hækkað vöruverð. Stríðið í Úkraínu hafi svo snarhækkað orkuverðið. Þetta veldur verðbólgunni erlendis. En á Íslandi erum við með okkar eigin orku og innlendar vörur hafa ekki hækkað að ráði og ekki opinber þjónusta og ekki almennur innflutningur. Við flytjum ekki inn eldsneyti til húshitunar og orkuframleiðslu, sem er gífurlegur sparnaður fyrir okkur.“
Telur Ásgeir að aðalverðbólguvaldurinn á Íslandi sé húsnæðisverð sem hefur hækkað gífurlega á síðustu árum. Þannig komi þriðjungur af hækkun vísitölunnar af verðhækkunum á húsnæði.
„Fasteignaverð verður því að lækka sem fyrst. Ætli það sé ekki það sem okkar ágæti seðlabankastjóri er að reyna. En þessi stýrivaxtahækkun er ekkert venjuleg miðað við önnur lönd. Reyndar eru allir seðlabankar í heiminum að hækka stýrivexti um þessar mundir, en ekkert í líkingu við það sem hefur verið gert á Íslandi. Evrópski seðlabankinn hækkaði stýrisvextina í 3%, stýrivextir í Bandaríkjunum eru 4,75%, Noregur er með 3%, Sviss 1,5%, Bretland er með 4,25% og þar er talað um lífskjarakrísu.“
Ásgeir segir að við þessar stýrivaxtahækkanir hafi greiðslubyrði íbúðalána hækkað verulega hér á Íslandi og það bitni á almenningi, enda afborganir á íbúðalánum stærsti útgjaldaliður heimilanna.
„Þetta bitnar mjög á ungu fólki sem langar að kaupa í fyrsta sinn því lánsvextir eru komnir upp úr öllu valdi. Á tveimur árum hafa afborganir af óverðtryggðu húsnæðisláni tvöfaldast. Þetta er nokkuð hart og í raun svakalegt. Þetta verður þjóðinni dýrt.“
Ásgeir endar grein sína á þeim orðum að verðbólga sé eins og vírus sem nánast útilokað er að stöðva.
„Nú þurfum við að sjá húsnæðisverð lækka, því þar liggur hundurinn grafinn. En tíminn er naumur því það er dýrt fyrir þjóðina að lifa bæði við háa verðbólgu og háa stýrivexti. Ef ástandið varir lengi gæti þetta sprengt hagkerfið, sett almenning á hausinn, sett banka í gjaldþrot og gangsett nýja kreppu.
Því vil ég biðja nafna minn í seðlabankanum að grunda vel og íhuga, áður en hann fer að hækka stýrisvextina einu sinni enn. Því fyrst þurfum við að sjá þetta virka, áður en lengra er haldið.“