Hollenskur tónlistarmaður, Jonathan Jacob Meijer, er talinn hafa blekkt hundruð kvenna og sæðisbanka og feðrað allt að 550 börn um allan heim. Með stuðningi samtakanna Donorkind hefur ein barnsmóðir hans farið í mál við hann og freistar nú þess að koma böndum á áráttukennda þörf hans til að fjölga sér. Daily Mail greinir frá.
Um árabil hefur Meijer gefið sæði sitt í gríð og erg. Árið 2017 var hann settur á svartan lista hjá hollenskum sæðisbönkum en þá var talið að hann hefði feðrað yfir 100 börn í landinu. Þá tók Meijer til við að gefa sæði sitt til sæðisbanka í Danmörku og Úkraínu auk þess sem hann auglýsti þjónustu sína á samfélagsmiðlum.
Eva, sem eignaðist barn með sæði frá Meijer árið 2018, sagði í viðtali við hollenska vefmiðilinn AD að henni „yrði flökurt“ þegar hún hugsaði til þess hversu mörg börn Meijer er talinn hafa feðrað. „Ég hefði aldrei valið hann ef ég vissi að hann hefði feðrað meira en 100 börn,“ segir hún.
Hún segir að margar barnsmæður Meijer hafi óskað þess að hann hætti að gefa sæði en það hafi hann látið sem vind um eyru þjóta. Hún hafi því ekki átt neinn annan valkost en að höfða mál gegn tónlistarmanninum.
Eva og Donorkind-samtökin fara fram á að Meijer verði gert að hætta að gefa sæði sitt og komist verði að því hversu nákvæmlega mörg börn hann hefur feðrað. Þá verði ónotuðu sæði hans í sæðisbönkum um allan heim eytt nema að það hafi verið frátekið fyrir mæður sem þegar hafi eignast börn með sæði tónlistarmannsins.
Samkvæmt reglum hollenskra sæðisgjafa er farið fram á að gjafar feðri aðeins 25 börn. Það hafi Meijer brotið með hegðun sinni og þar með stefnt velferð barna sinna í voða.