fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

Bankastræti Club: Blöskrar langt gæsluvarðhald sakbornings – „Þetta er bara mjög góður strákur sem var í flækju með líf sitt“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 21. mars 2023 11:37

Frá þingsetningunni í héraðsdómi. Ómar R. Valdimarsson, verjandi Alexanders Mána, er lengst til vinstri.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Fari svo að minn umbjóðandi fái refsingu af ákveðinni tímalengd þá getur vel verið að hann verði búinn að sitja af sér þá refsingu sem honum er gert að sæta, verði hann fundinn sekur,“ segir Ómar R. Valdimarsson, verjandi Alexanders Mána Björnssonar, eina sakborningsins í Bankastræti Club málinu sem situr í gæsluvarðhaldi. Þingsetning í málinu stendur yfir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag og sætir tíðindum þar sem sakborningar eru alls 25 og hver með sinn verjanda. Við þingsetningu taka sakborningar afstöðu til sakarefnis.

Eins og flestir vita snýst Bankastræti Club málið um heiftarleg átök sem brutust út á samnefndum skemmtistað í nóvember síðastliðnum þegar þangað inn þusti stór hópur manna og veittist að þremur mönnum sem voru þar inni á staðnum. Mennirnir þrír slösuðust í árásinni og gera háar skaðabótakröfur.

Alexander Máni í fylgd lögreglumanna í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Alexander Máni er ákærður fyrir tilraun til manndráps en í ákæru er hann sagður hafa veist að öllum þremur mönnunum með hnífi, hafi stungið einn tvisvar í hægri axlarvöðva, tvisvar sinnum í hægra læri og einu sinni í hægri framhandlegg; stungið annan einu sinni í vinstri síðu og stungið þann þriðja einu sinni í hægri framhandlegg og einu sinni í hægra læri.

Alexander Máni, sem er aðeins 19 ára, hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í nóvember. Fyrir dómi játaði hann háttsemina sem lýst er í ákæru en neitar því að hafa gerst sekur um tilraun til manndráps. Ómar segir að umbjóðandi hans játi líkamsárás. Aðspurður staðfestir hann að Alexander Máni sitji í gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna en ekki rannsóknarhagsmuna, með öðrum orðum er hann talinn of hættulegur til að ganga laus. Ómar segir að  þetta eigi ekki við nein rök að styðjast:

„Alls ekki, þetta er bara mjög góður strákur sem var í flækju með líf sitt.“ Aðspurður um hvað olli árásinni segir Ómar: „Ég þekki ekki hvað gerðist í samskiptum milli einstakra aðila áður en þetta gerðist og held að það sé ekki gott að ég sé að úttala mig um slíkt.“

Ljóst að ekki verður réttað í málinu fyrr en í haust

Þingsetning í þessu umfangsmikla máli fer fram í fimm hollum. DV sat fyrsta hollið sem var klukkan 10 en það næsta var kl. 11:30. Þingsetningin stendur yfir í allan dag og fer fram í fjórum hollum.

Þeir fimm sakborningar sem tóku afstöðu til sakarefna í morgun neituðu allir ákæru. Sumir játuðu háttsemina sem þeim er gefin að sök en neituðu sakaraefninu, sem er „sérstaklega hættulega líkamsárás“. Aðeins Alexander Máni er ákærður fyrir árás með hnífi en hinir eru sakaðir um að sparka og kýla mennina þrjá.

Sumir áskilja sér rétt til að leggja inn greinargerð. Dómari ákvað að frestur til greinargerðarskila yrði til 19. júní og miðar þar við að greinargerðir yrðu komnar inn á sitt borð fyrir réttarhlé í sumar. Af því er ljóst að aðalmeðferð í málinu verður ekki fyrr en í haust, í fyrsta lagi.

Ómar, verjandi Alexanders Mána, gerði athugasemd við þennan frest og minnti á að skjólstæðingur hans hefði setið í gæsluvarðhaldi síðan í nóvember.

Meðfylgjandi eru myndir ljósmyndara Fréttablaðsins og DV frá fyrsta hluta þingsetningarinnar í morgun.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Greindist með brjóstakrabbamein eftir fyrirbyggjandi brjóstnám og fær engar bætur

Greindist með brjóstakrabbamein eftir fyrirbyggjandi brjóstnám og fær engar bætur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“