Lögregla brást í morgun við útkalli vegna hávaða í íbúð við Grundarstíg í Þingholtunum. Þegar lögregla kom á staðinn var þar meðvitundarlaus maður. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og maðurinn var úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi. Vísir greinir frá.
Tveir hafa verið handteknir í tengslum við málið og var tæknideild lögreglunnar að störfum á vettvangi í morgun. Málið er í rannsókn.
Lögregla hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Þar segir:
„Á sjöunda tímanum í morgun var lögreglan kölluð að húsi í þingholtunum. En þaðan barst kvörtun um hávaða og háreysti frá íbúð í húsinu. Þegar lögregla kom á staðinn reyndust þrír menn vera í íbúðinni. Einn þeirra var meðvitundarlaus og með litlum lífsmörkum. Sjúkrabíll var þegar í stað kallaður til. Lögregla hóf strax endurlífgun sem hélt áfram þegar sjúkraflutningamenn komu á vettvang. Stuttu seinna var maðurinn úrskurðaður látinn á bráðamóttöku Landspítalans. Tveir menn voru handteknir á staðnum og fluttir í fangageymslu. Rannsókn málsins er í fullum gangi.
Lögreglan mun ekki tjá sig meira um málið að svo stöddu.“
Uppfært: 12:02 – Að sögn fréttastofu RÚV vöknuðu nágrannar að húsi við Grundarstíg við öskur og dynki í morgun og ákváðu að hafa samband við lögreglu, en mun þetta ekki vera í fyrsta skiptið sem hávaði kemur frá umræddri íbúð. Enn fremur segir RÚV að mennirnir tveir sem voru handteknir hafi ekki verið í ástandi til að hægt væri að taka af þeim skýrslu.