fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fréttir

„Ég horfði á konuna mína og sagði -„Það þýðir ekki að henda inn hvíta handklæðinu núna. Það halda allir að ég sé að drepast““

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 1. mars 2023 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég held að það sé erfiðara að vera aðstandandi,“ segir Egill Þór Jónsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Egill er nýkominn aftur til starfa eftir leyfi en hann greindist með eitilfrumukrabbamein árið 2021.

Egill var gestur í þættinum Spjallið með Frosta Logasyni á hlaðvarpsveitunni Brotkast í vikunni þar sem hann ræddi um reynslu sína, þar á meðal af því að láta geyma úr sér sæði.

„Þetta gerði fyrst vart við sig í lungunum. Ég átti erfitt með andardrátt. Ég fór til læknis og var greindur með lungnabólgu. Ég var andstuttur, fór að svitna á nóttunni.“ Var hann greindur líka með vöðvabólgu og var settur á vöðvaslakandi lyf, svo var hann aftur greindur með lungnabólgu og var settur á sýklalyf. „Eitt kvöldið var ég að hósta og hóstaði blóði. Það er í öllum bíómyndum, ef þú hóstar blóði þá ertu með krabbamein. Ég fór niður á bráðamóttöku daginn eftir og var á spítalanum í fimm vikur.“

Í ljós kom stórt æxli og þrír lítrar af vökva í lungunum. „Það kom í ljós 5. júní 2021 að þetta var krabbamein, eitilfrumukrabbamein. Þetta tímabil er í mikilli móðu en ég man að læknirinn kom inn og sagði tvennt: „Egill þú ert með krabbamein“ og „Það er hægt að lækna þig“. Svo talaði hann við mig í hálftíma í viðbót.“

Hóf hann þá fjögurra fasa lyfjameðferð. „Það var dælt í mig lyfjum svo var beðið í einhverjar vikur. Síðan var ég settur á risastóran steraskammt til að drepa þetta. Þá líður þér eins og þú sért óstöðvandi.“

Stóll og IKEA-plöntur

Á þessum tíma átti Egill lítið barn og annað á leiðinni. „Að horfa upp á einhvern veikan er held ég erfiðara,“ segir hann.

Þar sem hann er ungur maður var honum sagt að drífa sig upp í sæðisbanka áður en lyfjameðferðin hæfist. Egill hlýddi lækninum. „Ég hélt að ég væri að fara inn í mjög kósí aðstæður,“ segir hann. „Það er einn stóll. Það eru tvær IKEA-plöntur fyrir framan þig. Það er ábreiða ef þú skyldir svitna á rassinum við þetta. Síðan getur þú dregið tjald fyrir hurðina. Þetta er eins og vera inni í einhverjum vinnuskúr eða klósetti á Þjóðhátíðinni. Síðan er ég bara að hlusta á starfsfólkið tala um hver eigi að vera á vakt á föstudag.“

Þú færð ekkert Playboy blað?

„Þetta er ekkert svoleiðis,“ segir hann og hlær. Ímyndunaraflið var látið duga. „Þetta var það erfiðasta sem ég hafði gert á þeim tímapunkti. Mér fannst eiginlega verra að lenda í þessu en greinast með krabbamein, á þeim tímapunkti.“

Krabbameinið fór að dreifa sér

Egill var í prófkjöri fyrir lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vorið 2022 þegar hann fékk þær fréttir að krabbameinið væri byrjað að dreifa sér. „Þá er þetta komið í brisið, magann, nýrun, nýrnahetturnar og allan þennan pakka. Ég horfði á konuna mína og sagði: „Það þýðir ekki að henda inn hvíta handklæðinu núna. Það halda allir að ég sé að drepast.“ Sem ég var augljóslega að gera.“

Fréttirnar hljómuðu eins og dauðadómur, krabbameinið var komið á fjórða stig en samt hélt hann áfram í prófkjörinu fyrir sjötta sæti listans en án þess að segja neinum frá því hversu alvarlegt það var. „Hver kýs mann með krabbamein á fjórða stigi? Sem á kannski fjórar til átta vikur eftir.“ Hann fór svo í hátæknimeðferð í Svíþjóð sem bar á endanum árangur.

Kjördeginum varði hann í lyfjameðferð á meðan aðrir hringdu í kjósendur. Egill var mjög hætt kominn, þakkar hann fyrir að hafa stundað íþróttir áður en hann veiktist. „Ef ég hefði verið sófakartafla sem drykki þrjá lítra af Pepsi Max á dag og æti bara franskar þá hefði þetta farið hratt.“

Egill fer hægt í uppbyggingu og er líkami hans enn viðkvæmur. „Ég fór í keilu fyrir tveimur mánuðum síðan, ég var með harðsperrur í þrjár vikur eftir það.“ Mun þetta taka einhvern tíma að ná fyrri styrk. „Ég er eins virkur og hægt er, ég er með tvö lítil börn heima,“ segir hann. „Það er engum hollt að hanga heima.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Gunnar Smári og Vigdís Hauks í hörkudeilum: „Ertu að ýja að því að ég hafi stolið þessum peningum og keypt mér lambahrygg fyrir hann?“

Gunnar Smári og Vigdís Hauks í hörkudeilum: „Ertu að ýja að því að ég hafi stolið þessum peningum og keypt mér lambahrygg fyrir hann?“
Fréttir
Í gær

Bergþór skýtur fast á Bjarna og Sigurð Inga vegna uppátækja þeirra í kosningabaráttunni

Bergþór skýtur fast á Bjarna og Sigurð Inga vegna uppátækja þeirra í kosningabaráttunni
Fréttir
Fyrir 3 dögum

„Hún óttaðist líka um líf sitt“

„Hún óttaðist líka um líf sitt“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Geir Haarde segir Steingrím J. hafa hótað sér í hruninu og verið höfuðpaurinn í Landsdómssamsærinu

Geir Haarde segir Steingrím J. hafa hótað sér í hruninu og verið höfuðpaurinn í Landsdómssamsærinu