Héraðssaksóknari hefur ákveðið að gefa ekki út ákærur í skotárásarmálinu á Blönduósi og fella málið niður á grundvelli neyðarvarnar. RÚV greinir frá
Feðgar höfðu réttarstöðu sakbornings í málinu. Tvennt lést í árásinni, byssumaðurinn sjálfur og kona á sextugsaldri.
Aðstandendur voru upplýstir um niðurstöðu Héraðssaksóknara í dag. Hægt verður að kæra ákvörðunina til ríkissaksóknara.
Skotárásin átti sér stað í ágúst á síðasta ári. Í tilkynningu sem lögreglan á Norðurlandi eystra sendi frá sér um miðjan febrúar voru málsatvik rakin ítarlega.
Byssumaðurinn kom inn um ólæstar dyr á heimili hjóna á Blönduósi. Honum varð þá ljóst að gestir voru á heimilinu og fór út, til orðaskipta kom milli hans og húsráðanda sem lauk með því að byssumaðurinn skaut húsráðanda í kvið og særði alvarlega. Byssumaðurinn fór aftur inn í húsið og skaut eiginkonu húsráðanda í höfuðið. Hún lést samstundis.
Sonur húsráðanda kom til aðstoðar, náði byssunni af byssumanninum og til átaka kom milli þeirra sem enduðu á þann veg að árásarmaðurinn lét lífíð. „Réttarkrufning leiddi í ljós að dánarorsök var köfnun vegna þrýstings á háls og brjóst,“ sagði í tilkynningu lögreglu.