Forsvarsmenn Íslandshótela tóku þá ákvörðun nú eftir hádegi í dag að hleypa verkfallsvörðum Eflingar ekki frekar inn á hótel sín, eftir að verkfallsverðir tóku að hóta starfsmönnum annarra stéttarfélaga sem sannarlega eru ekki í verkföllum, sem og yfirmönnum, aðgerðum. Kemur þetta fram í tilkynningu frá Íslandshótelum.
Í tilkynningunni segir að Íslandshótel hafi sýnt kröfum Eflingar um verkfallsvörslu skilning, jafnvel þó lög kveði ekki á um slíkt, og samþykktu að tveir aðilar frá félaginu gætu sinnt verki sínu og fengju aðgang til eftirlits. Segir ennfremur að Efling hafi svarað boðinu með því að krefjast þess að stór hópur Eflingarfélaga ættu að fá fullan aðgang að hótelunum, en slíku hafi verið hafnað með hliðsjón af því að gestir hótelanna ættu skilið ró og næði, jafnvel þó verkfall væri í gangi.
„Verkfallsverðir Eflingar, sem mættu á hótel Íslandshótela eftir hádegi í dag, hófu svo að hóta starfsmönnum annarra stéttarfélaga sem voru við störf, sem og yfirmönnum sem löglega voru að sinna sinni vinnu, aðgerðum ef þeir leggðu ekki niður störf. Rétt er að ítreka og undistrika að starfsmenn annarra stéttarfélaga eru sannarlega ekki í verkfalli og voru með engu móti að ganga í störf Eflingarfólks. Efling hefur með þessu farið langt yfir eðlileg mörk og í ljósi aðgerðanna hafa forsvarsmenn Íslandshótela nú ákveðið að taka fyrir frekari heimsóknir fulltrúa Eflingar.
Sú ákvörðun verður að sjálfsögðu endurskoðuð ef breyting verður á afstöðu Eflingar um eðlilega og sanngjarna verkfallsvörslu af þeirra hálfu og munu þá, sem fyrr, tveir fulltrúar félagsins fá aðgang að hótelunum.“