Efling – stéttarfélag sendi í morgun kröfu til embættis ríkissáttasemjara um að Aðalsteinn Leifsson víki sæti sökum vanhæfis í kjaradeilu Eflingar við Samtök atvinnulífsins. Er þess krafist að skipaður verði staðgengill hans til að fara með málið.
Í erindi Eflingar er meðhöndlun ríkissáttasemjara á málinu rakin. Rök eru leidd að því hann hafi með framgöngu sinni gefið skýrt tilefni til að draga óhlutdrægni sína í efa.
Ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu sína án þess að hann uppfyllti skilyrði laga um að ráðgast við Eflingu. Tillagan er efnislega samhljóða tilboði Samtaka atvinnulífsins, og kom í engum atriðum til móts við sjónarmið Eflingar. Þessar málsástæður og fleiri eru tíundaðar í erindi Eflingar, segir í tilkynningu frá Eflingu.
Öll heildarsamtök launafólks á Íslandi hafa opinberlega gagnrýnt miðlunartillögu ríkissáttasemjara.