Sky News segir að þetta komi fram í grein sem hann skrifaði í maltneska dagblaðið Times of Malta en Cleverley mun heimsækja Möltu á morgun.
„Eins og allir einræðisherrar þá bregst Pútín aðeins við styrk andstæðinga sinna,“ skrifaði hann.
Hann sagðist einnig hæstánægður með að Þýskaland og Bandaríkin hafi gengið í lið með Bretum um að senda skriðdreka til Úkraínu.
„Það að láta Úkraínu fá þau verkfæri sem þarf til að ljúka verkinu á sem skjótastan hátt er hraðasta og raunar eina leiðin til friðar,“ skrifaði hann að sögn Sky News.