Skortur á brunavörnum, eldsvoðar, andlát og líkamsárásir, sóðaskapur og slæm umgengni, ekkert regluverk og ekkert eftirlit eru orðin sem margir hafa notað til að lýsa starfsemi Betra lífs, áfangaheimilis sem sett var á fót til að gefa einstaklingum í fíkniefnavanda skjól frá götunni í von um annað líf, betra líf.
Arnar Gunnar Hjálmtýsson, framkvæmdastjóri Betra líf, og eigandi húsnæðisins að Vatnagörðum 18 í Reykjavík þar sem eldur kom upp fyrir viku gefur lítið fyrir gagnrýnisraddir og hyggst halda ótrauður áfram rekstrinum.
„Það er ennþá til heimilislaust fólk, ég er að hjálpa heimilislausu fólki það er það eina sem ég er að gera þó að margir vilji ræða um eitthvað annað sem þeim finnst. Þarna er fólk með gríðarlega fordóma, það er fólk þarna úti sem er að hamast á lyklaborðum og er að beita ofbeldi án þess að átta sig á því. Svo setur það á sig húfu FO (Fokk ofbeldi) og fer út, en það er nýbúið að vera að hamast á lyklaborðinu og þrusa bulli út í loftið. Þetta fólk er allt saman að mynda sér einhverjar skoðanir og dæma eitthvað fyrirfram. Fordómar eru komnir af því að dæma eitthvað fyrirfram án þess að kynna sér það, það eru fordómar. Syni mínum finnst mjög merkilegt að fólk sé að gagnrýna þá sem eru að hjálpa en það gerir aldrei neitt sjálft fyrir heimilislausa,“ segir Arnar í samtali við DV aðspurður um hvort að hann hyggist opna Betra líf aftur í Vatnagörðum.
Betur fór en á horfðist föstudagsmorguninn 17. febrúar þegar eldur kom upp í einu herbergi í húsnæðinu. Tilkynning um eldinn barst um klukkan hálftíu og var allt tiltækt lið slökkviliðs höfuðborgarinnar sent á staðinn, auk sjúkrabíla og lögreglu. Slökkvistarf gekk vel, sem og aðrar björgunaraðgerðir, og rannsakar tæknideild lögreglu nú brunavettvanginn, en frekari upplýsinga um málið var ekki að vænta, samkvæmt tilkynningu lögreglu, fyrr en síðar.
Mikill viðbúnaður í Sundahöfn – Slökkvilið kallað út vegna bruna á áfangaheimili Betra líf
Fréttir fjölmiðla voru í fyrstu með fjölda íbúa á reiki og voru tölurnar frá átta manns upp í tæplega 30. Fimm íbúar voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar og sagði í tilkynningu lögreglu á föstudag að meiðsli þeirra væru ekki talin alvarleg. Í frétt RÚV um kvöldmatarleytið sama dag og bruninn varð kom fram að íbúar væru 27 talsins og væru allir komnir í húsaskjól. Flest eru þau í fíkniefnaneyslu en sjö af íbúunum eru flóttafólk.
„Það er ennþá verið að reyna að hjálpa fólkinu sem missti húsnæðið sitt og mér finnst nú dáldið lélegt að það hefur enginn blaðamaður minnst á aðalatriðið sem gerðist þarna, að það urðu 27 manns húsnæðislausir,“ segir Arnar í samtali við DV og segir það hafa tekið slökkvilið um hálftíma að slökkva eldinn. Aðspurður um hvar íbúarnir hafi fengið húsaskjól segir hann:
„Ég gat reddað sumum, aðrir fengu inni hjá vinum og ættingjum. Borgin aðstoðaði einhverja með að fara í indíánatjaldið í Skógarhlíð, þar á efri hæð er eitthvað gistirými og fóru 4-5 þangað.“
Betra líf hefur vakið mikla gagnrýni, bæði fyrir og eftir brunann, og svo var einnig þegar starfsemin var rekin í Fannborg 4, Kópavogi frá lokum árs 2019 þar til apríl 2022. Þeir sem tjáð hafa sig og gagnrýnt starfsemi Betra líf eru eigendur fyrirtækja í nágrenni áfangaheimilisins í Vatnagörðum, fyrrum íbúar Betra lífs í Vatnagörðum og Fannborg, sem og aðrir sem láta sig málefnið varða.
Hafa gagnrýnisummælin fallið á samfélagsmiðlum sem og í fréttum undanfarna hvað varðar húsnæðið í Vatnagörðum. Gagnrýnin snýr að rekstri og staðsetningu Betra lífs og lítilli viðveru framkvæmdastjórans, umgengni í og við húsnæðið, skorti á brunavörnum, og síðast en ekki síst því að í Vatnagörðum leigði Arnar húsnæðið jafnt einstaklingum í fíkniefnaneyslu og umsækjendum um alþjóðlega vernd.
Í frétt Heimildarinnar er staðfest að þegar eldurinn kom upp hafi enginn umsækjandi um erlenda vernd verið búsettur í húsnæðinu. Þar hafi verið búsett fólk sem áður hafði stöðu flóttafólks en heyrði ekki lengur undir úrræði stjórnvalda og var því að leigja á markaði eins og hver annar. Í fyrri frétt Heimildarinnar þann 24. janúar síðastliðinn sagði Arnar: „Ég er að leigja virkum fíklum og umsækjendum um alþjóðlega vernd.“
Í samtali við DV segir Arnar að hjá honum hafi búið átta flóttamenn, allt karlmenn. „Þeir eru kannski ekki flokkaðir sem menn virðist mér vera. Reykjavíkurborg sér þeim ekki lengur fyrir húsnæði, bara í fimm daga. Þetta eru skjólstæðingar Reykjavíkurborgar, ég var að hjálpa Reykjavíkurborg að útvega þeim bráðabirgðahúsnæði. Síðan er kveikt þarna í og þessir einstaklingar verða húsnæðislausir. Þeir hafa nú margir lent í ýmsum hremmingum í lífinu og varla á það bætandi. En það er komið mjög dónalega fram við þá af borginni, sem greiðir fyrir þá fimm daga í gistihúsi. Svo þurfa þeir bara að bjarga sér sjálfir. Þetta eru menn með ekkert bakland hér á Íslandi.“
Arnar hefur fullyrt við fjölmiðla að eldvarnir í Vatnagörðum hafi verið í góðu lagi. Guðný Elísabet Ingadóttir, mannauðsstjóri Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir hins vegar við Heimildina að slökkviliðið hafi farið í skoðun í húsnæðið viku fyrir brunann. Vegna þess að ekki hafi verið komin niðurstaða í málið hafi slökkviliðið ekki haft samband við eiganda vegna mögulegra aðgerða. „Þetta var allt í eðlilegu ferli en í millitíðinni kviknar í.“
Arnar segir í samtali við DV um gagnrýni íbúa hvað varðar brunavarnir: „Það er ekki á rökum reist. Ég held að fyrrum íbúar þekki ekkert um brunavarnir.“
Varðandi að slökkviliðið hafi tekið húsnæðið út viku fyrir brunann segir hann: „Þetta eru 12 liðir sem þeir setja þarna út og þeir eru að biðja um úrbætur á hlutum sem þeim fannst mega betur fara. Þetta er engin svört skýrsla, enginn áfellisdómur. Það sem er kannski alvarlegast með brunaviðvörunarkerfið er að þeir segja að það sé bilað og ég er með útskrift frá Öryggismiðstöðinni sem sér um kerfið að á þessu ári hafi það farið í gang 16 sinnum, síðast 17. febrúar þegar kviknaði í. En þetta kerfi er það næmt að það fer í gang þegar það finnur sígarettulykt,“ segir Arnar og bætir við að einn íbúa hafi sagt í viðtali á Stöð 2 að kerfið væri alltaf að fara í gang. „Þegar kerfið fer í gang þá þarf að ýta á takka til að endursetja það, en það er svo mikill hávaði í kerfinu að strákarnir hafa bara ýtt á einhverja takka þar til vælið hættir.“
Arnar segir slökkviliðið hafa komið að skoða húsnæðið þann 8. febrúar eða níu dögum fyrir brunann. „Ég hef talað við lögfræðing sem segir skoðunina ólöglega þar sem þeir [slökkviliðið] hafi ekki leyfi til að fara inn nema með leyfi húseiganda og þeir fara inn í herbergi hjá fólki sem býr þarna og það er til hæstaréttardómur um að þetta sé ólöglegt. Það er sama þó þú sért í löggu- eða slökkviliðsbúðningi þú mátt ekki gera hvað sem er. Þeir voru að fara inn hjá flóttamönnunum, þeir eru gríðarlega hræddir við allt sem heitir yfirvald, þeir koma úr þannig aðstæðum.“
Sama var upp á teningnum í fyrra húsnæði Betra lífs að Fannborg 4 í Kópavogi, en því húsnæði var lokað. Brunavörnum var ábótavant, auk þess sem Kópavogsbær taldi búsetu í skrifstofuhúsnæði ekki heimila. Betra líf náði þó að vera þar í rekstri í tæplega þrjú ár og má spyrja af hverju var yfirhöfuð hægt að opna heimilið í byrjun án fullnægjandi brunavarna og í trássi við heimild til búsetu.
Í lok apríl í fyrra var húsnæðið í Fannborg rýmt eftir að dómari hafði úrskurðað um útburð íbúa. „Þetta er bara dómsúrskurður. Húseigandinn er að heimta að fá húsið og ég þarf að rýma. Fólkið átti að vera farið út 15. apríl,“ sagði Arnar á þeim tíma við blaðamann DV.
„Yfirvöld hafa bannað mér að aðstoða fólk í neyslu. Til að ég megi gera það þarf ég að vera með sjúkrastofnun,“ sagði Arnar jafnframt og að hann myndi reka áfram áfangaheimili Betra líf að Efstasundi og Ármúla, þar sem einstaklingar bjuggu sem lokið höfðu meðferð. Arnar staðfestir að hann reki þau ennþá. „Þegar við getum aðstoðað 55 heimilislausa á hverjum tíma.“
Áfangaheimli Betra Lífs í Fannborg rýmt – „Það er verið að henda sex einstaklingum út á gaddinn“
Í frétt Fréttablaðsins þann 9. febrúar 2022 kom fram að mál vegna brunavarna í húsnæðinu í Fannborg hafi verið í gangi í tæpt ár en ekki hafi verið brugðist við athugasemdum frá slökkviliðinu og byggingarfulltrúa Kópavogs. „Brunavarnir í húsnæðinu eru óásættanlegar og þar sem húsnæðið er skrifstofuhúsnæði er búseta í því óheimil. Ekki er hægt að gefa undanþágu frá brunavörnum. Þarna búa einstaklingar við óviðunandi brunavarnir,“ sagði Sigríður Björg Tómasdóttir, almannatengill Kópavogsbæjar. Sagði hún slökkviliðið hafa gert úttekt á húsnæðinu í ágúst 2021 og í kjölfar þess hafi borist beiðni til byggingarfulltrúa um að húsnæðið yrði rýmt. Gefinn hafi verið rúmur frestur til úrbóta en athugasemdum hafi ekki verið sinnt. Betra líf var með húsið á leigu en Árkór var eigandi þess.
Í samtali við RÚV 5. mars 2022 sagðist Arnar vera með augastað á nýju húsnæði, en það væru í það minnsta einhverjir mánuðir í að hægt yrði að flytja. Sagði hann húsnæðið standast kröfur, hvert herbergi með sér eldvarnarhólf og ýmsar úrbætur hafi verið gerðar vegna athugasemda, slökkvitækjum hafi verið fjölgað, þau betur merkt, flóttaleiðir merktar og fleira. Hann telji því fólkið öruggt.
Aðspurður um hvort um íkveikju hafi verið að ræða segir Arnar: „Það er ekki staðfest en það er ekkert annað sem kemur til greina og sáust einstaklingar hlaupa í burtu rétt áður en eldurinn gaus upp og sá sem er í haldi núna bjó ekki þarna. Hann hafði sést þarna inni, ungur maður sem var hjá mér upp í Kópavogi og búinn að eiga mjög mikla erfiðleika í lífinu, gríðarmikla erfiðleika frá því hann var lítið barn. Þessi ungi maður hefur verið lengur í fangelsi þrátt fyrir ungan aldur heldur en frjáls maður. Hann hefur átt gríðarlega erfitt og ofan á það lagst í mikla neyslu á eiturlyfjum. Það er ekkert ástand það slæmt að alkóhól og eiturlyf geri það ekki verra.“
Húsnæðið að Vatnagörðum er atvinnuhúsnæði og því mætti ætla að búseta sé ekki heimil í húsnæðinu. Einnig hefur komið fram að brunavörnum var ábótavant og því má spyrja sig af hverju Betra líf fékk að opna þar og reksturinn fékk að halda áfram óafskiptur af hálfu Reykjavíkurborgar.
Svavar Georgsson er einn þeirra sem veltir því fyrir sér auk fleiri brotalama í rekstri Betra líf. Segir hann að á sama tíma og rætt var um að loka húsnæðinu í Fannborg vegna ófullnægjandi brunavarna hafi íbúar látist í herbergjum sínum. Einnig hafi íbúar orðið fyrir fólskulegum líkamsárásum þar innandyra, til að mynda hafi karlmaður verið höggvinn í höfuð með exi. Íbúar í Vatnagörðum hafa einnig orðið fyrir líkamsárásum og segir Svavar einn íbúa þar hafa verið frelsisviptan og pyntaðan í herbergi sínu.
„Ég þekki fólk sem hefur verið búsett hjá Betra líf bæði í Fannborg og Vatnagörðum, sem kviknaði í. Ég hef bara komið inn á staðinn í Fannborg og það var hryllingur,“
segir Svavar í samtali við DV.
„Húsnæðið var sóðalegt og illa þrifið. Fólk í neyslu á neðri hæðinni með tilheyrandi sóðaskap. Ég þekkti vel íbúa þar, sem fannst látinn inn í herberginu sínu. Það var skuggalegt lið sem bjó þarna, t.d. maður sem er rosalega mikið búinn að vera að selja rítalin og morfín. Illa staðið að þeim sem bjuggu þarna, oft féllu niður húsfundir vegna þess að hann Arnar komst ekki og oft á tíðum erfitt að ná í hann ef eitthvað kom upp á í Fannborg. Ég get talið upp fullt í viðbót sem er ómanneskjulegt í hegðun hans Arnars um framgang mála á Betra líf,“ segir Svavar sem segir einnig glórulaust að Arnar hafi komist upp með að bjóða flóttafólki búsetu á sama stað og einstaklingar í virkri neyslu.
Svavar segir núverandi íbúa marga hrædda við að tjá sig, einfaldlega af því þeir eigi hættu á að missa húsnæðið. Flestir hafa íbúa engan annan samastað og því aðeins gatan sem bíður þeirra.
Margir tjá sig um málefnið undir færslu sem Svavar skrifaði á Facebook, flestir eru á sama máli og hann og ósáttir við að reksturinn haldi áfram án afskipta. En nokkrir stíga fram Arnari til varna, þar á meðal móðir ein:
„Og hvað með foreldra þeirra sem hann hefur veitt húsaskjól? Hann veitti mínum afkvæmum húsaskjól þegar allt annað var lok og læs. Ég sem foreldri má vera þakklát fyrir að einhver var með eitthvað skjól sem mín börn gátu fengið. Alls ekki fullkomið en betra en ekkert. Það eru tvær hliðar og mín reynsla var ekki slæm svo ég hlýt að mega deila henni! Eða þarf ég að bíða eftir að annar eða báðir deyi til að deila horrorsögunni? Bentu mér á stað sem er bara með fallegar sögur.“
Karlmaður spyr: „Er skárra að brenna inni heldur en að verða úti.“
Íbúar Betra lífs hafa ekki orðið úti svo DV sé kunnugt um, en einhverjir þeirra hafa látist inni á herbergjum sínum, bæði í Fannborg eins og áður greinir og eins í Vatnagörðum, að sögn Svavars. Segir hann í færslunni á Facebook og fleiri taka undir frásögn hans um að karlmaður hafi látist í húsnæðinu í Vatnagörðum.
„Maður lést þarna innan dyra og það eina sem Arnar fór fram á við aðstandendur hans var að greiða leigu sem hann skuldaði,“
segir Svavar við DV.
Í byrjun árs 2021 óskaði Arnar eftir styrk til að ráða næturvörð í Fannborg. Tilefnið var sagt vera dauðsfall konu sem bjó á heimilinu eftir að fíkniefnasali heimsótti hana um miðja nótt. „Þessi beiðni á sér það tilefni að það dó hjá okkur kona úr of stórum skammti. Ég sá á myndavélum að það fór einhver maður, sem átti ekki heima á áfangaheimilinu, inn á herbergið hennar nóttina áður. Ég komst síðan að því að þetta væri þekktur dópsali. Það er mjög líklegt að hann hafi verið að selja henni eitthvað,“ sagði Arnar við Fréttablaðið 13. febrúar 2021.
Beiðninni var hafnað 1. mars 2021 á fundi stjórnar SSH, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Betra líf – styrkbeiðni / málsnr. 21002004 Beiðni Betra lífs um styrk til ráðningar næturvarðar á áfangaheimili að Fannborg 4 liggur fyrir fundinum. Niðurstaða fundar: SSH geta því miður ekki orðið við beiðninni þar sem ekki er gert ráð fyrir styrkveitingum í fjárhagsáætlun samtakanna.
„Það er búið að vera stöðugt ónæði síðan þessi starfsemi hófst í húsinu. Við höfum orðið fyrir innbrotum í bíla og rúður hafa verið brotnar. Það hafa orðið gripdeildir hjá okkur nágrönnum hér í kring. Það hefur verið farið inn í Iðuna og dót tekið þaðan og farið inn í gáma hér í nágrenninu og fleira. Þá er fíkniefnaneysla áberandi og sprautunálum er hent út um gluggann niður í bílastæðið fyrir utan. Við höfum séð flöskur komið fljúgandi út um glugga sem hafa lent fyrir framan hjá okkur og nágrönnum okkar og starfsfólk okkar hefur verið í hættu. Starfsfólk á skrifstofu hefur illa þorað að fara heim úr vinnu á kvöldin,“ segja Guðmundur Páll Ólafsson og Ægir Eyberg Helgason í samtali við Mbl.is, en þeir reka Pípulagningafyrirtækið Pípuleggjarann að Vatnagörðum 16. Það húsnæði er samtengt húsnæði Betra líf í númer 18. Segjast þeir hafa sent pósta á byggingafulltrúa og heilbrigðisetirlitið og spurt hverju sæti að starfsemi áfangaheimilis sé leyfð í húsnæði sem ætlað er iðnaði. „Svörin eru á þá leið að þetta sé í skoðun en það er ekkert annað gert.“
Sömu sögu segir Hildur Elín Vignir framkvæmdastjóri Iðunnar fræðsluseturs í næsta húsi númer 20. Starfsfólk þar hefur einnig sent inn ábendingar og hafa þurft að kalla til lögreglu. Segir hún að farið hafi verið inn í fyrirtækið og bíla á bílastæði Iðunnar. „Við höfum aukið við fjölda öryggismyndavéla hér í húsinu til að vera vel á vaktinni og við höfum þurft að loka hluta af húsnæðinu tímabundið því við vildum ekki taka áhættu á að það væri hægt að komast óhindrað á milli rýmanna hjá okkur,“ segir Hildur sem segir að starfsfólki hafi fundist óþægilegt að fara heim seint á kvöldin ef það er að vinna fram eftir og hreinlega óttast um öryggi sitt.
„Sendi starfsfólk Iðunnar síðast formlega ábendingu til Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins 12. janúar siðastliðinn því við höfum virkilegar áhyggjur af brunavörnum í húsinu.“
Sigrún Sigurðardóttir, sem starfar sem jafningafræðari hjá Bataskóla Íslands, segir í færslu á Facebook löngu orðið tímabært að loka úrræðum sem Arnar rekur.
„Er ekki fyrir löngu orðið tímabært að loka úrræðum sem þessi maður rekur. Í Kópavogi dóu allavega þrír og einhver slys sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir. Einn maðurinn, var í einhverja daga látinn í herbergi sínu áður en hann fannst. Og þar kom líka upp eldur. Þetta úrræði kostar fólk 140.000 á mánuði, sem er ekki beint ásættanlegt fyrir herbergi í húsi, sem hefur enga gæslu né þjónustu,“
segir Sigrún, sem segist hlynnt skaðaminnkun, Betra líf falli hins vegar ekki inn í þá hugmyndafræði.
„Alls staðar sem Betra Líf hefur verið með starfsemi hafa verið gerðar athugasemdir við brunavarnir, aðstöðu, hreinlæti og fleira. Auk þess sem enginn starfsmaður er daglega á staðnum og engin þjónusta eins og hjúkrun eða ráðgjafar hefur verið nýtt.Hversu margir þurfa að deyja eða slasast og hversu mörg hús þurfa að brenna áður en það verður lokað á þennan mann? Ég heyrði í einhverri fréttinni að nágrannar í Vatnagarði hefðu sent athugasemdir á slökkvilið og borgina og fleiri, ég veit til þess að fleiri hafi gert það sama í Kópavogi . Ég spyr: Hvað þarf til?“
Inga Hrönn Jónsdóttir tekur undir orð Sigrúnar. Inga Hrönn þekkir búsetu á götunni og á áfangaheimili Betra líf af eigin raun. Inga Hrönn byrjaði að neyta fíkniefna um sautján ára aldur, en er í dag 28 ára, edrú, tveggja barna móðir, í sambúð og vinnu. Inga Hrönn hefur áður tjáð sig um málefni heimilislausra og einstaklinga sem glíma við fíkniefnavanda.
„Þetta er óásættanlegt ástand. Ég er sammála því sem Sigrún segir: „Hvað þarf til?” Ég, ásamt fleirum sem ég þekki hef verið þarna og fyrir utan það sem Sigrún nefnir þá eru þessi „úrræði” alltaf skítug, fólk sem er í raun og veru að berjast fyrir lífi sínu og vill vera edrú er látið dveljast í sama húsnæði og fólk sem er enn að nota og það er bara ekki heil brú í neinu af því sem fer fram á þeim stöðum sem þessi maður rekur,”
segir Inga Hrönn.
Hún segir vissulega jákvætt að fólk sem ekki hefur í nein hús að vernda hafi samastað en þetta sé ekki lausnin við heimilisleysi og húsnæðisvanda. „Hér er einfaldlega verið að setja fólk í hættu og allt er þetta gert í nafni „skaðaminnkunar.” Hjá Betra líf sé þó ekki neitt starfsfólk eða vitneskja til staðar um það hvernig skuli starfa eftir skaðaminnkandi nálgun og þess vegna séu síendurtekið að koma upp atvik þar sem fólk lendir í hættu eða jafnvel deyr.
Það er fáránlegt að hugsa til þess að staðreyndin sé sú að fleiri en ein manneskja hafi látið lífið inni á þessu svokallaða „áfangaheimili.” Er ekki kominn tími til að það séu settar strangari reglur og meira utanumhald og eftirlit með stofnun og rekstri áfangaheimila? Ég virkilega finn til með þeim sem hafa ekki stað til að búa á en þetta er ekki í lagi og er ekki hægt að bjóða fólki upp á þessar aðstæður.
Að mannslíf, tveir brunar, slys og mikil vímuefna neysla duga ekki til þess að loka úrræði sem upphaflega átti að vera til þess að hjálpa fólki að ná bata og koma sér út í lifið eftir meðferð er sorgleg staðreynd.”
Vinur Svavars, Matthías Freyr Guðlaugsson, bjó tvisvar í Fannborg og lætur ekki vel af búsetunni þar. „Af öllum þeim hlutum sem ég sé eftir sé ég mest eftir því að búa þarna,” segir Matthías undir færslu Svavars, sem staðfestir frásögn hans í samtali við DV. Segir Matthías að í seinna skiptið sem hann bjó í Fannborg hafi Arnar lítið látið sjá sig og verið farinn að missa stjórnina á íbúum heimilisins.
„Það var EKKERT prógram þarna nema einn „húsfundur” í viku sem að féll oft niður vegna þess að hann sá sig ekki færan til að mæta. Það voru engin þrif á sameignum, svo sem göngum, stigum, eldhúsi og baðherbergi. Manninum var drullusama um fólkið sem bjó þarna, var bara að spá í að græða pening á veiku fólki.”
Matthías fékk sýkingu í blóð og þurfti að leggjast inn á spítala í kjölfarið. Í samtali við DV segist Matthías hafa legið á spítala frá 22. júní til 10. júli 2020. Segir hann að á því tímabili hafi Arnar brugðist við með því að slíta leigusamningi hans og setja aleiguna hans út á gang þar sem öllu var stolið. Aðspurður segir Matthías vera edrú í dag og hafa náð 15 mánuðum í edrúmennsku.
Líkt og áður hefur komið fram virðast engar húsreglur eða skilyrði fylgja því að búa á áfangaheimili Betra lífs, nema greiða leiguna. Annað sagði Arnar þó í viðtali við Fréttablaðið 6. september 2019, skömmu fyrir opnun í Fannborg:
„Helsta skilyrðið fyrir því að fá að búa hér er að fólk sé edrú. Svo þarf fólk að borga leiguna og fara eftir ákveðnum húsreglum, til dæmis því að koma vel fram við náungann. Við verðum svo með AA-fundi fyrir þá sem vilja.“
Sagði hann hugmyndina að áfangaheimilinu hafa kviknað þegar sonur hans fór á svipað áfangaheimili, en honum var síðan vísað út þar sem hann vildi ekki hlýta þeirri húsreglu að mæta á trúarlegar samkomur. Sagði Arnar starfið vera unnið í sjálfboðavinnu. „Svona rekstur býður ekki upp á neina launaða starfsemi og takmarkið er að reka þetta á núlli til að byrja með. Svo sér maður bara hvernig málin þróast en draumurinn er að geta boðið upp á mat hérna fyrir heimilisfólkið.“
„Ég hef séð gagnrýni um að ég sé að reka áfangaheimili og þetta sé ekki áfangaheimili, af því fólk er í neyslu þarna. Það var byrjað að nota orðið áfangaheimili árið 1977, þá var allt þjóðfélagið dálítið öðruvísi en í dag. Þetta er rekið undir heitinu Housing First eins og það heitir á ensku. Housing First gengur út á það að aðstoða fólk og ég geri það þó það sé ekki orðið edrú, en það er skilyrði að það sæki um meðferð ef það er í neyslu. Það er ekki séns að verða edrú ef þú ert heimilislaus,“ segir Arnar við DV.
Þrátt fyrir að Arnar segi reksturinn ekki bjóða upp á launaða starfsemi kemur samt eitthvað inn í kassann eins og sagt er. Leigan er há eða 140.000 kr. fyrir nokkra fermetra.
Ragnar Eldur Linduson er einn íbúa í Vatnagörðum og var hann sofandi í herbergi sínu þegar eldurinn kom upp. Í viðtali við Stöð 2 kom fram að hann greiðir háa leigu fyrir herbergið. „Hún er nefnilega frekar há. Ég er að borga 140 þúsund í leigu fyrir herbergi sem er fimm til tíu fermetrar að stærð,“ segir Ragnar og kallar eftir úrbótum í málaflokknum.
Í frétt Heimildarinnar frá 24. janúar má sjá eitt herbergi og kemur þar fram að fyrir tveggja manna herbergi greiða tveir menn 140 þúsund krónur hvor, samtals 280 þúsund krónur fyrir herbergið.
Svavar birtir mynd af einu herbergja í Vatnagörðum með færslu sinni og tjáir kona ein sig um myndina:
„Að hann skuli leyfa sér að rukka svona háa leigu og bjóða fólkinu ekki upp á neina aðstoð. Það er greinilegt að manneskjan sem gistir í herberginu á myndinni þarf mikinn stuðning, það vill enginn búa svona. Ég vissi ekki að þetta væri svona slæmt, þetta er eins og neyslubæli. Hann er í raun að villa á sér heimildum með því að kalla þetta áfangaheimili. Þetta eru bara herbergi í gömlu iðnaðarhúsnæði með sameiginlegu baðherbergi og eldhúsi.“
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, tekur undir ákall Ragnars og segir gríðarlegan skort vera á húsnæði í Reykjavík og að erfitt sé að fá stuðning þegar fólk reyni að komast í meðferð við fíknivanda.
„Þannig að við sjáum einhvern veginn að þessi grunnkerfi eru ekki til staðar og við vitum að það er fólk sem gistir til dæmis í óleyfisbúsetu og auðvitað ertu náttúrulega að reyna að finna þér eitthvert húsaskjól. En við vitum að það þarf miklu sterkari umgjörð utan um þetta allt saman.“
Þann 7. mars í fyrra þegar ljóst var að framundan var lokun Betra líf í Fannborg var umræða um áfangaheimilið undir önnur mál á bæjarstjórnarfundi Kópavogs:
2203418-Umræða um íbúa áfangaheimilisins Betra líf
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir óskaði eftir umræðu um stöðu áfangaheimilisins.
Vegna yfirvofandi lokunar áfangaheimilisins í Fannborg 4 vill velferðarráð vekja athygli á að sveitarfélög þurfa að vera meðvituð um þann húsnæðisvanda sem íbúar heimilisins geta lent í. Kópavogsbær sinnir þeim íbúum sem hafa lögheimili í Kópavogi áfram með félagslegri ráðgjöf og stuðningi.
Enn frekar áréttar velferðarráð að í aðgerðaráætlun ársins 2022 var ákveðið að leitast eftir samstarfi við nágrannasveitarfélögin um húsnæðisúrræði fyrir einstaklinga með fjölþættan vanda.
Engin lög, reglugerðir eða eftirlit er með starfsemi sjálfstætt rekinna áfangaheimila, engar reglur eru um hver má stofna til slíkra úrræða og því eru engar kröfur gerðar til forstöðumanna eða reksturs þeirra.
Segir Svavar að rekstur áfangaheimilis líkt og Betra líf þarfnist faglegs aðhalds, ekki að hver sem er geti opnað húsnæði og tekið við peningum. Til þess þurfi reglugerðir og lög, en slík eru ekki til staðar í dag.
„Það er lítið sem ekkert utanum hald fyrir þá sem búa þarna. Þeir sem reyna að vera edrú endast ekki lengi og daglegt brauð að þau verða fyrir áreyti þeirra sem eru í neyslu. Ef það væri lágmarks utanumhald og aðstoð fyrir þá sem búa þarna þá væri hægt að halda betur utan um þá sem búa þarna og enn meiri líkur á að þetta úrræði blómstri,“
segir Svavar við DV. Skorar hann á Reykjavíkurborg og stjórnvöld að grípa inn í nú þegar.
Sanna tjáir sig í ummælum hjá Svavari og segir hún fáránlegt að engin lög séu í gildi eða eftirlit.
„Og í raun hver sem er sem gæti komið því á fót og svo virðist vera mismunandi hvaða skilning fólk leggur í áfangaheimili. Ég hef alltaf skilið áfangaheimili einmitt eins og þú talar um þau. Borgin hefur sagt að ríkið eigi að móta stefnu um áfangaheimili og svo hefur það ekkert gerst. Eftir allt þetta sem hefur komið fram þá verður að bregðast við. Gengur ekki að fólk sé í svona aðstöðu. Rosa mikið alltaf verið að bregðast við eftir á hér á landi,“
segir Sanna og að Reykjavík beri þá ábyrgð að tryggja að það sé gott að búa á áfangaheimilum sem hafa fengið styrk frá borginni. „Þau sem fá styrk verða að fylgja mannréttindastefnu borgarinnar.“
Sanna segir í samtali við DV að hún skilji reglurnar þannig að styrkurinn hafi verið nýttur sem niðurgreiðsla á húsaleigu. „Er ekki 100% viss en held að það hafi þá komið ofan á leiguna. Þetta tengist líka breytingum sem velferðarsvið er að fara að gera, þar sem þau ætla að hætta að styrkja áfangaheimili. Styrkur til áfangaheimila kom fyrst til vegna þess að þau sem bjuggu þar gátu ekki sótt um húsnæðisstuðning og þetta átti að jafna stöðuna. Meirihlutinn er með tillögu í fjárhagsáætlun um að hætta að styrkja áfangaheimili, þar sem leigjendur geta fengið húsnæðisstuðning, en þau sem reka áfangaheimili hafa sagt að þetta muni leiða til þess að það þurfi að hækka leigu.“
Í minnisblaði Reykjavíkurborgar segir að styrkir til áfangaheimila séu ákvarðaðir á grundvelli reglna Reykjavíkurborgar um styrki til áfangaheimila frá 2008. Skilyrði fyrir því að hljóta styrki samkvæmt reglunum er að um sé að ræða:
„…úrræði þar sem íbúar eru í endurhæfingu eftir áfengis- eða fíkniefnameðferð, þ.e. edrú og að gerð sé markmiðadrifin einstaklingsáætlun er lýtur að endurhæfingunni á meðan búsetu stendur. Einnig skilyrði styrkveitingar að starfsemin hafi verið í rekstri í a.m.k. 6 mánuði og að ársreikningi skuli skilað. Styrkir eru greiddir tvisvar sinnum á ári í samræmi umsóknir og eru þeir reiknaðir út frá fastri fjárhæð pr. einstakling sem nemur grunnfjárhæð húsaleigubóta hverju sinni, fjölda rýma á heimilinu, nýtingu rýma fyrra árs á heimilinu og hlutfall Reykvíkinga í nýttum rýmum á fyrra ári. Engir þjónustusamningar eru því gerðir við áfangaheimilin.“
Samkvæmt minnisblaðinu hefur Betra líf fengið samtals 22.146.082 kr. að styrk síðastliðin þrjú ár, 2020-2022. Arnar hefur þó ávallt haldið því fram að Betra líf hafi ekki fengið neina opinbera styrki.
Í minnisblaðinu kemur fram að hagræðingartillaga sem samþykkt var í borgarstjórn 6. desember síðastliðinn leggur til að afnema reglurnar um styrki til áfangaheimila. Í hagræðingartillögu velferðarsviðs er gert ráð fyrir að reglurnar verði felldar úr gildi í júní 2023. Niðurfelling reglnanna á ekki að koma niður á leigjendum á áfangaheimilum þar sem þeir geta bæði sótt um húsnæðisstuðning og sérstakan húsnæðisstuðning en forsvarsaðilar tveggja áfangaheimila hafa vakið athygli velferðarsviðs á að þau neyðist til að hækka húsaleigu til leigjenda verði ekki áframhald á styrkjunum.
Aðspurður um hvort Arnar sé ekki orðinn þreyttur á gagnrýninni og kominn sé tími til að snúa sér að einhverju öðru svarar hann:
„Á meðan það er til heimilislaust fólk þá hugsa ég að ég hjálpi þeim á meðan ég hef þrótt í það. Við erum ekki mjög margir sem erum að hjálpa heimilislausu fólki, það er ég og Óli í Draumasetrinu. Hitt er rekið af sveitarfélögunum, þeir sem eru hjá mér segja að vistin þar sé frekar leiðinleg í þeim sem borgin sér um,“ segir Arnar.
„Allir hafa einhverja sögu að baki sér. Það eru allir með mikla áfallastreituröskun og hafa lent í gríðarlegum áföllum, þetta fólk, og fær enga hjálp. Þess vegna fór ég að hjálpa þeim af því ég kynntist þeim aðstæðum sem þetta fólk er í. Það má láta vita af því, sama hversu duglegt fólk er að gagnrýna og svona, að þá er ennþá þetta fólk sem missti húsnæðið sitt, það er aðalatriðið, en það er enginn að tala um það. Þannig að við sjáum bara hvernig þjóðfélagi við búum í, því miður.“