Bæjarstjórn Reykjanesbæjar barst tilkynning í morgun um að búið væri að koma fyrir sprengjum í ráðhúsinu. Skilaboðin bárust á almennt netfang ráðhússins og voru á ensku.
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri segir við Víkurfréttir að húsið hafi verið rýmt. Um 100 manns starfa í húsinu, og þar er jafnframt bókasafn bæjarins.
Lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn málsins. Leitarhundar frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eru á leiðinni. Lögreglan á Suðurnesjum segir við Vísir að hún telji hótunina ótrúverðuga. Samt sem áður hafi sérsveit ríkislögreglustjóra verið kölluð til og leitar hún nú af sér allan grun í húsinu með aðstoð sprengjuleitarhundar.
Leikskólinn Akur, sem er á vegum Hjallastefnunnar, fékk sömuleiðis sprengjuhótun. Í tölvupósti sem sendur var til foreldra kemur fram að ekki sé talin þörf á að rýma leikskólann.
„Kæru fjölskyldur. Til okkar barst sprengjuhótun í tölvupósti sem lögreglan hefur verið upplýst um og er hún talin mjög ótrúverðug. Í samráði við lögreglu er ekki talin ástæða til að rýma leikskólann en við teljum mjög mikilvægt að foreldrar séu upplýstir. Á svipuðum tíma barst hótun til fleiri stofnana í Reykjanesbæ, þar með talið til Ráðhúss Reykjanesbæjar. Við erum í miklum og góðum samskiptum við lögreglu sem leiðbeinir okkur í gegnum þetta mál.“