Rússland er gríðarlega stórt land og það tekur langan tíma að ferðast á milli staða og þá sérstaklega ef fólk nýtir sér ekki flugvélar til langra ferðalaga.
Khodorkovsky segir að Pútín vilji helst ekki fljúga því hann sé hræddur. Hræddur um að einhver geti komist að því að hann sé í flugvél og í versta falli drepið hann. Ástæðan er að það er hægt að fylgjast með ferðum flugvéla í ýmsum kerfum en það er ekki hægt með járnbrautarlestir. Þess vegna getur Pútín setið áhyggjulaus, eða áhyggjulítill, í brynvarinni lest sinni.
Það hlýtur að auka á öryggiskennd hans að lestin lítur nánast eins út og aðrar lestir frá rússnesku járnbrautunum þegar horft er á hana utan frá.
En að innanverðu er hún allt öðruvísi. Þar eru svefnherbergi, baðherbergi og pláss fyrir þrjá bíla auk fylgdarliðs Pútíns.
Annars er lítið vitað um lestina og lítið er til af myndum af henni. Nýjasta myndin af Pútín í lestinni er sögð vera frá 2012. Lestin er sögð hafa verið tekin í gegn eftir það og sé nú enn glæsilegri en áður.